12.02.1975
Efri deild: 42. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1677 í B-deild Alþingistíðinda. (1386)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Stefán Jónsson (frh.):

Herra forseti. Á mánudaginn byrjaði ég þessa ræðu mína með gagnrýni á frv. því, sem hér liggur fyrir, um heimild handa ríkisstj. að semja við bandaríska auðhringinn Union Carbide um sameiginlega málmblendiverksmiðju á Grundartanga. Ég vil leyfa mér að rifja upp nokkur grundvallaratriði úr þeim hluta ræðunnar sem ég þá flutti.

Ég vakti athygli á reynslu okkar af þeim stóriðjuverum, sem við höfum þegar í landinu, álverinu í Straumsvík, sem við erum skuldbundnir til að selja helminginn af núv. raforku landsins allt fram til ársins 1997 fyrir verð, sem samsvarar nú 27 aurum á kwst., sem hver einasti íslendingur verður að borga stórfé með. Ofan á það bætast svo ómæld spjöll á náttúrufari Suðurnesja og eitrun umhverfisins. Ég vakti athygli á reynslu okkar af kísilgúrverksmiðjunni sem er vel á veg komin með að eyðileggja Mývatnssveit. Ég leyfði mér að vekja athygli á því, að ekki vantaði útskýringar sérfræðinga, hagfræðinga á þeim hagsbótum, sem okkur væru búnar af þessum iðjuverum, og einlægar yfirlýsingar um, að komið yrði í veg fyrir öll umhverfisspjöll af völdum þessara iðjuvera. Ég leyfði mér líka að vekja athygli á því, að það væru sömu sérfræðingarnir, reikningsstokksmennirnir, menntaðir undir sótsvörtum himni stóriðjuþjóðanna, hagfræðingarnir og verkfræðingarnir, sem legðu nú á ráðin um málmblendiverksmiðjuna í Hvalfirði. Ég leitaði vingjarnlegra skýringa á þessu framferði þeirra. Niðurstaða mín varð sú, að þessir menn, sem efalaust vildu landi sinn vel, gætu ekki fellt sig við það, að íslenskir atvinnuhættir og þjóðhættir kæmu ekki heim við fræði þeirra sjálfra, sem vitaskuld eru miðuð við iðnaðarsamfélög. Þessi fræði féllu sem sagt ekki að því einstæða fyrirbæri, íslenska þjóðfélaginn, sem ekki er iðnaðarþjóðfélag, heldur vélvætt veiðimannasamfélag sem hefur eigi að síður megnað að veita þessari þjóð góða afkomu og lífskjör, sem jafnast á við þau sem best gerast í iðnþróuðum þjóðfélögum. Og af því að þessir samfélagshættir þjóðar okkar féllu ekki að þeim fræðum, sem þessir góðu menn hafa numið, þá legðu þeir á það ofurkapp að breyta þeim, svo að þeir féllu að fræðunum, í stað þess, sem eðlilegt væri, að þeir reyndu að samhæfa fræði sín íslenskum aðstæðum, svo að þessi fræði mættu verða okkur að gagni en ekki til tjóns. Í þessu sambandi vitnaði ég einnig — með leyfi hæstv. forseta — í ummæli látins spekings á Snæfellsnesi sem sagði: „Það er nú svona með íslendinga, þessa góðu og göfugu þjóð. Þeim er svo eiginlegt að trúa því, sem þeir vita að er ósatt, og treysta á skýrslur sem þeir hafa sjálfir falsað.“

Ég drap lítillega á það, með hvaða hætti aðstandendur þessa fyrirhugaða iðjuvers í Hvalfirði brugðust við tilraun, sem var gerð til þess af hálfu fræðimanns að rannsaka vistfræðilegt og vistpólitísk áhrif stóriðjuveranna hér á landi og með hvaða hætti þeir bundu endi á þá tilraun, sem ég mun nú skilgreina hér nánar í næstu andránni. Ég leyfði mér að vekja athygli á nauðsyn þess að leita vingjarnlegra skýringa á hróplegum mistökum tæknilegra ráðunauta stjórnmálamanna þjóðarinnar í þessum tilvikum, enda þótt þeir hefðu dálítið grátbroslega áráttu til þess að hrinda í framkvæmd þeim hugmyndum, sem hefðu lengi talist réttar, einmitt í þann mund sem það væri komið berlega í ljós, að þær voru rangar. Ég gerði grein fyrir þeim ugg mínum, að sérfræðingarnir, sem fjallað hafa um málmblendimálið, hefðu reitt sig um of á fögur orð og fyrirheit Union Carbide-manna í þessu máli og vakti athygli á því að engin hlutlæg rannsókn hefur farið fram á því hvers konar áhrif fyrirhuguð verksmiðja mundi hafa á lífríki Hvalfjarðar og nágrennis, né heldur á því hvaða áhrif hún mundi hafa á samfélag manna í grennd sinni og víðar. Ég gerði kröfu til þess að slík rannsókn yrði gerð af hæfum og reyndum aðilum og niðurstöður hennar lagðar fyrir Alþ. áður en frv. þetta yrði tekið til endanlegrar afgreiðslu. Þá man ég ekki betur en ég minntist lítils háttar á kynningarfund, sem hæstv. iðnrh. hélt að Leirá í Leirársveit ásamt sérfræðingum sínum til þess að tjá ágæti málmbræðslunnar fyrir sveitamönnum, þar sem forstöðumaður Heilbrigðiseftirlitsins lét ganga milli manna litmynd, er hann hafði sjálfur tekið af málmblendiverksmiðju hjá Union Carbide og þar sem nokkrir stúdentar úr náttúrufræðideild Háskólans ásamt Einari Val Ingimundarsyni báru fram fáeinar fræðilegar spurningar varðandi málið.

Herra forseti. Þá er sem sagt komið að því að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið í ræðu minni á mánudaginn og tilgreina nú einstök atriði í sambandi við vistfræðilegu hliðina á þessu máli, sem valda því að ég hef fyrr í þessari ræðu leyft mér að kalla undirbúning þennan tortryggilegan. Ég hef áður vitnað í sjálfa grg. þessa frv. þar sem látið er nægja að staðhæfa það að hugur fylgi máli hjá Union Carbide þegar hann segist skulu vernda umhverfið. Ég hef líka sagt frá staðhæfingum aðstandenda málmblendiverksmiðjunnar um fullkomið og algert skaðleysi hennar. Ég á enn eftir að segja frá því, hvernig aðstandendur verksmiðjunnar, sem staðhæfa skaðleysi hennar fyrir umhverfið, losuðu sig við eina sérmenntaða íslendinginn í umhverfismálum, Einar Val Ingimundarson umhverfisverkfræðing, sem var starfsmaður Heilbrigðiseftirlitsins, en höfðu áður haldið leyndum fyrir honum upplýsingum varðandi málmblendiverksmiðjuna.

Einar þessi Valur Ingimundarson lauk fyrir röskum tveimur árum námi í efnaverkfræði við Lundúnaháskóla. Þegar það fréttist heim að þessi ágæti námsmaður væri að velta því fyrir sér hvaða sérgrein innan efnaverkfræðinnar hann ætti að leggja fyrir sig, þá gerðist það að einn af helstu verkfræðiráðunautum ríkisstj., sem ég hirði ekki að nafngreina hér, gekk á hans fund og bað hann endilega að leggja fyrir sig umhverfisverkfræði, environmental engineering, eins og það heitir á ensku. Samkv. þeirri reglugerð vantaði mann með slíka menntun til starfa í Heilbrigðiseftirlitinu, því að nú átti að taka tillit til umhverfismálanna í sambandi við iðnvæðingu á Íslandi. Það varð svo úr, að Einar Valur samdi um það við Baldur Johnsen forstöðumann Heilbrigðiseftirlitsins að hann færi í þetta sérnám, en ynni með náminu eftir því sem hann gæti á vegum Heilbrigðiseftirlitsins. Þessu námi lauk Einar Valur á tveimur árum, kom heim til starfa í vetur leið, en hafði þá þegar byrjað undirbúningsrannsóknir í sambandi við doktorsritgerð sem fjallar um rykmengun. Samdist um það að hann fengi svigrúm til þess í starfi sínu að ljúka doktorsritgerðinni jafnframt.

Af starfi Einars Vals er svo það helst að segja í beinum tengslum við stóriðjumálið hér á landi, að honum var falið að rannsaka áhrifin af völdum kísilgúrverksmiðjunnar í Mývatnssveit. Hann samdi skýrslu um rannsóknirnar og skilaði þeim til yfirmanns síns. Niðurstaða þeirrar skýrslu er í sem skemmstu máli á þá lund, að verksmiðjan hafi ekki haft sem best áhrif á umhverfið í Mývatnssveit, starfsmönnum verksmiðjunnar sé hætta búin vegna kísileitrunar og loks að verksmiðjan hafi spillt samfélagi manna í sveitinni. Vitaskuld var þessi skýrsla ekki birt, heldur hlaut umhverfisverkfræðingurinn ákúrur fyrir það að vera á móti stóriðju.

Samtímis því sem Einar Valur vann að skýrslunni um kísilgúrverksmiðjuna og þó einkum eftir það gerði hann athugun á mengun frá álverinu í Straumsvík, hreinlætis- og hollustuháttum þar. Þetta atferli hans spurðist út, m.a. að hann hefði komist að því að blásýrumengaður sori frá verksmiðjunni væri settur út í hraun, þar sem eitrun frá honum gæti valdið mönnum og dýrum skaða ef ekki fjörtjóni. Þá fékk Einar Valur Ingimundarson fyrirmæli frá yfirboðurum sínum um að hætta rannsóknum varðandi álverið í Straumsvík. Samtímis var hann sviptur öllum gögnum varðandi þetta stóriðjuver sem hér um ræðir í Hvalfirði. Þegar svo var komið málum var hann gersamlega sniðgenginn í sambandi við mál er vörðuðu umhverfi fyrirhugaðrar verksmiðju á Grundartanga.

Eins og ég sagði frá áðan var Einar Valur umhverfisverkfræðingur í hópi þeirra sem báru fram nokkrar spurningar á fundinum sæla á Leirá. Nokkrum dögum seinna fékk hann að vita að hann væri ekki lengur starfsmaður Heilbrigðiseftirlits ríkisins. Það kom sem sagt í ljós að ungi efnaverkfræðingurinn, sem ráðinn var til þess að sérhæfa sig í umhverfisverkfræði með tveggja ára framhaldsnámi, taldi það vera hlutverk sitt að rýna eftir þeim hættum sem íslensku umhverfi væru búnar af stóriðjufyrirtækjum.

Hv. þm. Steingrímur Hermannsson, sem ég ætla að heyri til mín núna, sé með símtólið við eyrað, segist í Tímagrein sinni á laugardaginn var óttast að sjónarmið Einars Vals mótist af öðrum sjónarmiðum en þeim, sem að vísindum lúta. Hann segist óttast að sjónarmið Einars Vals Ingimundarsonar umhverfisverkfræðings mótist af öðrum sjónarmiðum en þeim, sem að vísindum lúta. Þetta finnst mér ekki alveg nógu vingjarnlega sagt, eða leyfist mér á sama hátt að láta í ljós ugg minn um það að ákvörðunin um brottvikningu Einars Vals Ingimundarsonar umhverfisverkfræðings úr starfi frá íslenska ríkinu og þær hnútur, sem kastað hefur verið í hann síðan, mótist af öðrum sjónarmiðum en þeim sem varða umhyggju fyrir íslensku umhverfi og lífríki þess.

Samtímis því sem venslamenn málmblendiverksmiðjunnar losuðu sig við Einar Val Ingimundarson umhverfisverkfræðing, eftir að þeir komust að því, að vafasamt gæti verið, að hann makkaði rétt að öllu leyti, þá tóku þeir að vitna í Náttúruverndarráð Íslands um skaðleysi verksmiðjunnar. Á bls. 18 í riti því, sem geymir frv., finnum við tilefni til þessarar ívitnunar. Þar stendur í 3. mgr. að ofan: „Viðræðunefndin hefur leitaðumsagnar Náttúruverndarráðs um staðarval verksmiðjunnar.“ Umsögn þessi er dags. 4. júlí 1973, og koma þar ekki fram neinar aths. aðrar en þær, sem sjálfsagðar eru og lúta að frágangi og útliti. Þess er ekki getið, að það var ekki leitað umsagnar Náttúruverndarráðs um neitt annað en það sem laut að frágangi og útliti. Á fyrrnefndum kynningarfundi á Leirá var vitnað í þessa álitsgerð Náttúruverndarráðs óbeint á þá lund, að sjálft Náttúruverndarráð hefði ekkert við málmblendiverksmiðjuna að athuga. Í fskj., sem látin eru fljóta með álitsgerð nefndar veiðiréttareigenda við Hvalfjörð varðandi hugsanlega hættu fyrir göngufisk af völdum verksmiðjunnar, er vitnað í þetta álit Náttúruverndarráðs um skaðleysi verksmiðjunnar. Árni Reynisson forstöðumaður Náttúruverndarráðs segir mér að aðeins hafi verið leitað álits ráðsins varðandi smíði verksmiðjuhúsanna á Grundartanga. Náttúruverndarráð hafi aðeins látið í ljós álit sitt á áhrifum mannvirkja á þessum stað, ekki á rekstri málmblendiverksmiðju, enda hafi ráðinu ekki verið fengin í hendur nein gögn varðandi það fyrirtæki. Eigi að síður hafa forgöngumenn málmblendiverksmiðjunnar notað þetta ómerkilega plagg frá Náttúruverndarráði um það atriði fyrirtækisins, sem minnstu máli skiptir, sem plagg upp á það, að Náttúruverndarráð telji málmblendiverksmiðjuna óskaðlega.

Nú hljótum við næstum því að álykta sem svo í góðgirni okkar, að aðstandendur þessarar málmblendihugsjónar hljóti samt að hafa leitað álits Náttúruverndarráðs um önnur atriði en fasteignir á Grundartanga, þeir hljóti að hafa lagt fram gögn varðandi sjálfan verksmiðjureksturinn. Samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef aflað mér, hefur þeim láðst þetta. Mér er kunnugt, að Náttúruverndarráð hefur beiðst þess að fá slíkar upplýsingar, en ekki fengið. Ég hef hér ljósrit af tveimur bréfum frá Náttúruverndarráði, sem sýna að Náttúruverndarráð telur eðlilegt, að það fái aðstöðu til að fjalla um málið áður en það kemst á ákvörðunarstig, sem sagt áður en Alþ. heimili samningsgerðina við Union Carbide, en þá aðstöðu hefur Náttúruverndarráð ekki fengið. Ég ætla að lesa fyrir ykkur ljósritin af tveimur bréfum, sem votta þetta álit Náttúruverndarráðs.

Fyrst kemur hér bréf, sem Líffræðistofnun Háskólans sendi Náttúruverndarráði um miðjan s.l. mánuð. Náttúruverndarráð samþykkti bréfið, gerði málaleitan Líffræðistofnunar Háskólans að sinni og sendi til iðnrn. þar sem þetta bréf liggur enn ósvarað. Bréfið er dags. 15. jan. 1975 og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á fundi stjórnar Líffræðistofnunar Háskólans hinn 14. jan. 1975 var samþykkt eftirfarandi: Það hefur vakið athygli stjórnar Líffræðistofnunar Háskólans að við þá gagnasöfnun og þær athuganir, sem gerðar hafa verið vegna hugsanlegrar mengunar frá málmblendiverksmiðju hafa líffræðingar ekki verið hafðir með í ráðum, þrátt fyrir talsverðar umr. um áhrif slíkrar verksmiðju á lífríki.“

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því, að hæstv, iðnrh. hefur gengið burt frá umr. um þetta mál. Ég vildi gjarnan, að hann fengi að heyra gagnrýni mína um frv., og vil því gera hlé á máli mínu þangað til hann sér sér fært að koma hingað inn aftur. (Forseti: Ég hygg, að það sé rétt hjá mér, að hæstv. ráðh. sé upptekinn í Nd. vegna nafnakalls í atkvgr.) Væri fjarri lagi, að það yrði þá hinkrað eftir að nafnakalli þar lyki? Ég er tilbúinn að standa hérna á meðan. (Forseti: Jú, málið er leyst, hæstv. ráðh. gengur í salinn, en eins og ég tók fram var hann við skyldustörf í hv. Nd.)

Já, þá vil ég, hæstv. iðnrh., fara örlítið til baka aftur, vegna þess að ég álít að það, sem ég var að þylja í svipinn, eigi erindi til ráðh. Ég vitnaði til þess, að ekki hefði verið leitað til Náttúruverndarráðs um álit á fyrirhugaðri verksmiðju, og sagði sem svo, að við hlytum þrátt fyrir allt að álykta sem svo í góðgirni okkar, að aðstandendur þessarar málmblendihugsjónar hefðu samt leitað álits Náttúruverndarráðs í einhverju öðru heldur en því, sem lyti að byggingum á Grundartanga. Þeir hlytu að hafa lagt fram gögn varðandi sjálfan verksmiðjureksturinn. En samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef aflað mér, hefur þeim láðst þetta. Mér er kunnugt um, að Náttúruverndarráð hefur beiðst þess að fá slíkar upplýsingar, en ekki fengið. Ég hef hérna fyrir framan mig afrit af tveimur bréfum frá Náttúruverndarráði, sem sýna það, að ráðið telur eðlilegt, að það fái aðstöðu til þess að fjalla um málið áður en það kemst á ákvörðunarstig, sem sagt áður en Alþ. heimili samningsgerðina við Union Carbide, en þá aðstöðu hefur Náttúruverndarráð ekki fengið. Ég ætla þá sem sagt að lesa þessi tvö bréf, með leyfi hæstv. forseta.

Þá er það fyrst bréf frá Líffræðistofnun Háskólans, — bréf sem Líffræðistofnun sendi Náttúruverndarráði um miðjan s.l. mánuð. Náttúruverndarráð samþykkti bréfið og gerði málaleitan Líffræðistofnunarinnar að sinni og sendi bréfið iðnrn., þar sem mér skilst að það liggi enn ósvarað. Bréfið er svo hljóðandi:

„Á fundi stjórnar Líffræðistofnunar Háskólans hinn 14. jan. 1975 var samþ. eftirfarandi: Það hefur vakið athygli stjórnar Líffræðistofnunar Háskólans að við þá gagnasöfnun og þær athuganir, sem gerðar hafa verið vegna hugsanlegrar mengunar frá málmblendiverksmiðju, hafi líffræðingar ekki verið hafðir með í ráðum þrátt fyrir talsverðar umræður um áhrif slíkrar verksmiðju á lífríki. Vill stjórn Líffræðistofnunarinnar í því sambandi beina því til Náttúruverndarráðs, að það beiti sér fyrir því, að þegar á þessu stigi málsins verði tveimur líffræðingum (vistfræðingi og lífeðlisfræðingi) falið að fara í kynnisför til Bandaríkjanna og Noregs til að kynna sér málmblendiverksmiðjur og áhrif þeirra á lífríki og afla upplýsinga frá umhverfisstofnunum um þessi mál og safna prentuðum heimildum og vinna úr þeim. Tæpast verður ætlast til þess, að verkfræðingar geti gert þessu efni viðunandi skil án verulegrar aðstoðar líffræðinga. Hér er augljóslega um nauðsynlegan þátt undirbúningsathugana að ræða.“

Þetta bréf frá Líffræðistofnun Háskólans er undirritað af Agnari Ingólfssyni. Náttúruverndarráð fjallaði um þetta bréf, gerði efni þess að sínu, sendi það iðnrn. og hefur ekki fengið svar enn.

Þá kemur bréf, sem Náttúruverndarráð ritaði iðnrn. 27. jan. s.l., fyrir tiltölulega fáum dögum og ber enn að sama brunni. Bréfið er dags. 27. jan. 1976. Efni: Hönnun málmblendiverksmiðju á Grundartanga í Hvalfirði.

„Náttúruverndarráð hefur á fundi sínum 23. 1. 75 samþ. að beina því til hæstv. rn., að þess verði gætt að ráðið fái aðstöðu til að fylgjast með hönnun nefndrar verksmiðju, sbr. 29. gr. náttúruverndarlaga, nr. 47/1971. Áður hefur ráðið í bréfi, dags. 4. júlí 1973, tjáð sig um staðsetningu verksmiðjunnar á þessum stað.“ — Það er bréfið sem notað hefur verið til vitnisburðar um það, að Náttúruverndarráð hafi ekkert við málmblendiverksmiðju í Hvalfirði að athuga. Sem sagt: „Áður hefur ráðið í bréfi, dags. 4. júlí 1973, tjáð sig um staðsetningu verksmiðjunnar á þessum stað, en leggur áherslu á, að fá að fylgjast með undirbúningi verksins áður en til bindandi ákvarðana kemur. Ráðið leggur sérstaka áherslu á að upplýsingar um hvers konar úrgangsefni sem haft gætu áhrif á lífríki svæðisins. Óskar ráðið eftir því, að þessar upplýsingar verði sendar því sem fyrst. Þá telur Náttúruverndarráð nauðsynlegt að sá aðili, sem annast undirbúning væntanlegs iðjuvers, afli sér í tæka tíð lögboðins rekstrarleyfis og áður en til bindandi ákvarðana kemur um staðsetningu og rekstur, sbr. 4. gr. reglugerðar um varnir gegn mengun af völdum eiturefna og hættulegra efna, nr. 164/1972.

Með vinsemd og virðingu.

Eysteinn Jónsson, formaður Náttúruverndarráðs.

Árni Reynisson framkvæmdastjóri.“

Ég hef áður spurt ykkur, hv. þm., hvort þið telduð líklegt að Heilbrigðiseftirlit ríkisins mundi synja um rekstrarleyfi fyrir 10 milljarða verksmiðju í Hvalfirði þegar búíð væri að reisa hana svo sem fyrirhugað er og sækja síðan um rekstrarleyfi. Það verður ekki ljósar sagt en í þessum tveimur bréfum Náttúruverndarráðs hvert álit þess aðila er á því á hvaða stigi eigi að rannsaka það mál, er að umhverfisvernd lýtur, og að ráðið er ekki ánægt með málsmeðferðina fram að þessu.

Ég hef áður sagt frá því með hvaða hætti þeir málmblendimenn hafa notað bréf Náttúruverndarráðs varðandi byggingarnar. Nú spyr ég hv. alþm., hvort þeir telji það ekki dálítið tortryggilegt hvernig Náttúruverndarráð hefur verið sniðgengið í þessu máli, hvort þeir telji ekki að eðlilegt hefði verið að rökstutt álit Náttúruverndarráðs hefði legið fyrir hv. Alþ. ásamt þessu frv. Og enn spyr ég: Getur það hugsast að aðferðirnar, sem hafðar voru til þess að losna við Einar Ingimundarson umhverfisverkfræðing, hafi staðið að einhverju leyti í sambandi við tilhneigingu þeirra málmblendimanna að torvelda Náttúruverndarráði Íslands afskipti af þessu máli?

Nú skulum við hinkra aðeins við. Eitthvað rámar mig í að hafa sagt það eða a.m.k. gefið í skyn að ég tryði því ekki að óheiðarlegar hvatir lægju að baki áhuga þeirra sérfræðinga og þeirra stjórnmálamanna sem fastast sækja á um stóriðju á Íslandi. Nú hef ég eytt í það þó nokkrum tíma að segja frá tortryggilegum vinnubrögðum þessara aðila við undirbúning málsins. Þó ætla ég að ítreka þá trú mína, þá skoðun mína, að þessum mönnum gangi gott eitt til, en í ofurkappi sínu að ná því fram að Alþ. fallist á byggingu þessarar verksmiðju, þá sjáist þeir ekki fyrir í vinnubrögðum.

Af því að ég hef nú kosið að nefna vin minn, hv. þm. Steingrím Hermannsson sérstaklega í þessu máli, mann sem ég þekki vel og viðhorf hans til manna og málefna, þá vil ég taka fram að ég efast ekkert um það af kynnum mínum við hann, að hann muni vilja nokkru til kosta að vernda umhverfi á þessu landi og lífríki þess. Raunar hef ég gilda ástæðu til þess að ætla, að honum sé engu síður annt um þessi verðmæti heldur en mér. En hann hefur jafnframt trú á aðra guði. Hann gengur fram í þessu málmblendimáli, eða málmsíli kallar hann það, og mér finnst það nokkuð gott orð, — hann gengur fram í því af þess háttar ofurkappi að vinnubrögðin skipta hann ekki lengur mjög miklu máli. Og sama er að segja um ýmsa skoðanabræður hans og samráðgjafa.

Ég leyfi mér enn eins og fyrr í þessari ræðu að undanskilja að nokkru hæstv. iðnrh. og finn honum til afbötunar að hann hlýtur að styðjast við álit sérfræðinga sinna, slíkir sem þeir hljóta að vera.

Og svo aðeins eitt innskot varðandi frv. sjálft. Á það e.t.v. að bera vott um uggleysi flm. frv. um algert skaðleysi verksmiðjunnar, að hvergi getur að finna í frv. ákvæði um skaðabætur vegna hugsanlegs tjóns? Slíkt ákvæði getur ekki að finna í frv.

Ég geri ekki kröfu til þess, að hv. alþm. ímyndi sér að ég hafi persónulega vit á eðlisfræði eða efnafræði, og enn síður þykist ég kunna neitt fyrir mér í umhverfisverkfræði. Aftur á móti held ég að hv. þm. Steingrímur Hermannsson hljóti að misminna, að andstæðingur verksmiðjunnar hér á þingi hafi látið þá skoðun í ljós í þingsölunum opinberlega, að það mundi hanga kvikasilfurský yfir málmblendiverksmiðjunni fyrirhuguðu. Og þrátt fyrir takmarkaðan lærdóm í fyrrnefndum fræðum hef ég lagt á mig talsverða vinnu við að afla upplýsinga um málmblendiverksmiðjur af því tagi sem fyrirhugað er að koma upp í Hvalfirði og hér er haldið fram að séu umhverfi sínu gjörsamlega skaðlausar. Það skal að vísu viðurkennt að þessar upplýsingar eru ekki frá Union Carbide, en ég mun tilgreina heimildirnar jafnóðum, eins ómerkilegar og þær eru.

Í 12. hefti tímaritsins „Journal of the airpollution eontrol assoeiation,“ útgefnu í Lundúnum í des. í vetur, er grein eftir John Key Burchard, sérfræðing bandaríska umhverfismálaráðsins US environmental protection agency, stofnun sem mér skilst á Tímagrein hv. þm. Steingríms Hermannssonar að hann taki talsvert mark á. Í þessari grein er fjallað um þann eiginleika kísilrykkorna að þétta um sig uppgufaða þungmálma og bera þá út í andrúmsloftið. Þar segir fullum fetum að rykkorn af stærðinni frá 1 míkrónu niður í 0.1 míkrónu, — það mun vera kornastærð sem einna mest verður af í rykinu frá fyrirhugaðri verksmiðju — geti flutt tvítugfalt og upp í hundraðfalt magn af þungmálmum á við það sem er í sjálfu hráefninu sem rykið myndar, eða með öðrum orðum að uppgufaðir þungmálmar safnist saman í rykinu. Í greininni er skrá yfir þær tíu tegundir iðjugreina, sem mest af þessu hættulega ryki komi frá, og þar eru málmblendiverksmiðjur efstar á blaði af 10 iðjugreinum sem tilnefndar eru. Ferro aloy furneees eru taIdir fyrstir, næst á undan stálbræðslum og kolakyntum rafstöðvum.

Í sama hefti þessa tímarits er grein eftir George W. Walsh, einnig frá ameríska náttúruverndarráðinu. Þar er raunar um að ræða skýrslu um rannsóknir á vegum ráðsins á hreinsun ryks úr verksmiðjureyk. Í þessari grein er m.a. vitnað í grein Freadlanders prófessors, hina sömu og þá sem gerð er að umtalsefni í blaðagreinum þeirra Steingríms Hermannssonar og Einars Vals Ingimundarsonar umhverfisverkfræðings. Segir í þessari grein Walsh að við hagstæðar aðstæður sé hægt að hreinsa úr loftinu allt upp í 99% af smæstu kornunum, þ.e.a.s. kornum frá 0.1 míkrónu og niður í 0.01 míkrónu, vegna þess að við gefin skilyrði vilji þessi örsmáu korn loða saman, sem sagt við hagstæðar aðstæður. Hið sama gildi um kornin fyrir ofan 2 míkrónur að stærð; það sé einnig hægt að ná þeim að verulegu leyti, en af kornunum, sem séu af stærðinni frá 1 míkrónu ofan í 0.1 míkrónu, hafi ekki tekist að hreinsa nema 70–80% af heildarmagninu. Í þessari grein segir Walsh ljósum orðum að hreinsun ryks frá málmblendiverksmiðjum sé enn þá ógnþrungið vandamál sem öllu lífi stafi hætta af og þá fyrst og fremst lífi manna.

Í desemberhefti þessa sama tímarits frá árinu 1973 segir í grein eftir prófessor E. K. Ermson, sem skrifuð er um hættuna af völdum uppgufaðra málma, The hasards of heavy metals in flight: „Í öllu brotajárni og flestum brotamálmum leynist misjafnlega mikið af þungmálmum og getur verið frá 1% upp í allt að 5%, en flestir þeirra gufa upp við það hitastig, sem til þarf að bræða sjálfan meginmálminn.“ Hér er um að ræða zink, blý, kvikasilfur, nikkel, kopar, kóbalt, mangan, kadmíum og króm. „Allir þessir þungmálmar,“ segir í greininni, „finnast í brotajárni.“

Svo að ég vitni þá næst í almenna kennslubók í eðlisefnafræði, sem heitir raunar á frummálinu Popullar handbook for physical ehemistry, eftir Frederik Cavenaugh prófessor, þá sýður blý og gufur upp við 1700 stiga hita á Gelsíus, kvikasilfur við 350 stig, zink við 900 stig og kadmíum við 760 stíg á Celsíus. — Ég þorði ekki annað en að fletta upp í viðurkenndri fræðibók, vegna þess að, svo að ég noti nú sama orðalag og eina þm., sem er mjög fylgjandi málmsílinu, sagði úr ræðustól á fundi Sþ. í vetur að þungir málmar gufuðu ekki upp.

Skv. grein próf. Odds Melanders í tímaritinu Miljö, sem gefið er út í Osló á vegum norsku náttúrufræðisamtakanna, — greinin nefnist Biokemiske problemer í metalindustrien eða lífefnafræðileg vandamál í málmiðnaðinum, — þá fer bræðslan í málmblendiverksmiðjunum fram við 1700—2000 stiga hita og eru engin tiltæk ráð til að koma í veg fyrir uppgufun fyrrgreindra málma. Ef eitt af patentumum, sem við eigum að kaupa af Union Carbide, er það hvernig á að koma í veg fyrir uppgufun þungra málma, þá er sannarlega eftir nokkru að slægjast.

Nú leyfi ég mér þann munað að tilgreina ekki fræðirit til sönnunar þeirri almennu staðhæfingu að allir þessir málmar geti reynst hættulegir, sumir hverjir öllu lífi, kviku sem rótföstu, og að málmeitrun þessarar tegundar hafi nær gjörbreytt öllu náttúrlegu lífi á stórum svæðum í sumum hinna iðnvæddu ríkja. Þetta eru alkunn sannindi. En svo til viðbótar frétti ég af tilviljun af íslenskum lækni, Valgarði Egilssyni, sem stundar nú rannsóknir við University College Hospital í Lundúnum og hefur einkum lagt fyrir sig athuganir á skaðsemi uppgufaðra þungmálma í ryki. Niðurstöðurnar af rannsóknum Valgarðs hafa vakið mjög mikla athygli í Bretlandi. Ég kom því skilaboðum til Valgarðs nú föstudaginn um að senda hæstv. Alþ. skeyti, helstu niðurstöður af þessum rannsóknum, og leyfi ég mér nú að lesa þetta skeyti, með leyfi hæstv. forseta.

„Nýlegar athuganir mínar hafa sýnt skaðleg áhrif á frumur af kadmíum 24 kornum í rúmmillimetra, af krómati 60 kornum í rúmmillimetra, kóbalt 30 kornum í rúmmillimetra og nikkel 240 kornum í rúmmillimetra. Verksmiðjuryk getur innihaldið mun meira skv. grein Roberts Lee í Airpollution journal í okt. 1973, bls. 857. Skaðsemismörk kynnu að vera lægri. Ofannefnd 4 efni geta valdið krabbameini, en ekki er vitað í hvað miklu mæli.“ Undirskriftin er, svo að þið fáið heimilisfangið, Valgarður Egilsson, 57 Park Drive, London W 3. Það skal tekið fram að landlækni mun kunnugt um þessar niðurstöður á rannsóknum Valgarðs.

Nú tókst mér að verða mér úti um ljósrit af þessari grein Roberts E. Lee. Hún heitir Trace metaI posllution in the enviroment eða Þungmelmismengun í umhverfinu. Í þessari grein er vitnað í fræðimenn ameríska náttúruverndarráðsins rétt einu sinni, eins og fyrr er getið, um tormerki þess að ráða við rykmengunina með neinum kunnum tæknilegum ráðum, kveðið fast að orði um hættuna, sem öllu lífi er búin af völdum þungmálmanna sem safnast í rykið og dreifast með því víðs vegar. Lang mest er þó hættan fyrir verksmiðjustarfsfólkið. Ein einasta rykögn mettuð kadmíum, sem lendir í mannslunga og hittir fyrir veika frumu, getur valdið krabbameini.

Herra forseti. Ég hef undir höndum miklu fleiri álitsgerðir heimsfrægra sérfræðinga, sem eru þeirrar skoðunar að öllu kviku og þá fyrst og fremst mönnum stafi heilsutjón af völdum mengunar frá verksmiðju á borð við þá sem nú er fyrirhugað að reisa í Hvalfirði, og að því fari víðs fjarri, að tekist hafi enn að finna ráð til þess að bægja þeim voða frá dyrum, enda þótt tekist hafi að hemja rykmökkinn sem áður bar þessari hættu augljóst vitni. Hættan sé enn fyrir hendi, aðeins hin sýnilegu ummerki hættunnar, rykskýið, hafi verið gerð óljósari, þannig að hættan blasi ekki eins ljóslega við. Enn á ég þá ósagt frá þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér varðandi vandamálið sem tengt er úrgangi frá þessari verksmiðju, föstum úrgangi, og frá vatnsmengun frá þessum verksmiðjum. Til þess gefst efalaust tími við frekari umr. um mengunaratriði þessa máls.

Ég býst fastlega við því, að formælendur málmblendiverksmiðjunnar muni nú þegar við 1. umr. greina frá heimildum sínum fyrir þeim staðhæfingum að verksmiðjur af þessu tagi séu fullkomlega óskaðlegar, jafnt umhverfi sínu og lífríki þess sem heilsu starfsmanna. Ég ætlast ekki til þess, að þær upplýsingar, sem ég hef komið hér á framfæri við hv. Alþ., verði teknar fram yfir þær upplýsingar sem þeir kunn:a að leggja fram máli sínu til stuðnings, en ég ætlast til þess að þær verði um sinn metnar jafnhátt, lagðar að jöfnu. Ég ætlast til þess að Alþ. fái til óvilhalla fræðimenn, sem óvefengjanlega hafa til að bera næga þekkingu og reynslu á þessu sviði, til þess að rannsaka málið út frá íslenskum staðháttum, staðháttunum í Hvalfirði, og fella síðan úrskurð um það hvort fyrirhuguð verksmiðja verði skaðlaus, svo sem forvígismenn hennar halda fram, eða hvort hún sé umhverfi sínu og lífríki þess hættuleg. Og ef svo reynist, hvort hún sé líkleg til þess að valda meiru tjóni en svo, að Alþ. geti fellt sig við hættuna. Í þessu sambandi vitna ég til bréfanna tveggja, sem ég hef lesið hér upp frá Náttúruverndarráði.

Rannsóknir af þessu tagi eru þegar orðnar sjálfsagðar í öllum undirbúningi stóriðjurekstrar erlendis. Mér er t.d. kunnugt um að rannsóknir, sem sérfræðingar frá University College í Lundúnum, Lancaster Univensity og Dyflinnarháskóla gerðu sameiginlega við Clyde-fjörð fyrir skömmu, leiddu til ákveðinnar niðurstöðu. Þar átti að reisa stáliðjuver með fullkomnum hreinsiútbúnaði, þeim fullkomnasta í heimi. Forstöðumenn þessara rannsókna voru Arthur Bourne prófessor, sérfræðingur í sjávarlíffræði sem m.a. hefur starfað mikið með norðmanninum Thor Heyerdahl, og niðurstaðan varð sú, að hætt var við að reisa þetta stáliðjuver vegna fyrirsjáanlegra áhrífa á umhverfi, lífríki fjarðarins og samfélag manna í landbúnaðarhéruðunum í kring. Mér er einnig kunnugt um, að hópur sérfræðinga gerði sams konar rannsóknir við Fjarðarfjörð, Firth of Forth, fyrir tveimur árum vegna efnaverksmiðju sem þar átti að reisa og náttúruverndarmenn óttuðust. Niðurstaðan af þeirri rannsókn leiddi til þess að verksmiðjan var reist, þar eð hættan á umhverfisspjöllum þótti ekki réttlæta það að hætt væri við verkið.

Nú vil ég strax vara unnendur málmblendihugsjónarinnar við því að ákveða það á stundinni með sjálfum sér að leita heldur til sérfræðinganna, sem störfuðu við Fjarðarfjörð, heldur en hinna, sem unnu við Clyde-fjörð. Ég hef grun um, að það hafi verið sömu mennirnir sem stjórnuðu rannsókninni við báða firðina. Og svo til þess að spara tíma, þið skulið ekki bera það fram, að það sé eitthvað sitt hvað, stáliðjuver við Clyde-fjörð eða málmblendiverksmiðja við Hvalfjörð, vegna þess að John Burchard, sérfræðingur ameríska náttúruverndarráðsins, sagði í greininni, sem ég vitnaði í áðan, að málmblendiverksmiðjur, þótt búnar væru fullkomnustu hreinsunartækjum, yllu meiri mengun en stálverksmiðjur búnar fullkomnum hreinsitækjum.

Við höfum nægan tíma til þess að rannsaka eðli þessa stórmáls, svo að Alþ. fái áreiðanlegar forsendur til að dæma það, þegar það tekur ákvörðun sína með eða móti þessu frv. Annað væri óhæfa, því að nauðsynlegt er, að óyggjandi upplýsingar liggi fyrir. Aðeins með því móti verður eytt þeirri tortryggni, sem þegar hefur upp vakist í kringum þetta mál, — upp vakist, segi ég, vegna meðferðar málsins sjálfs. Nú á ég jafnvel von á því, svo að ég noti allt að því hið klassíska orðalag, að afþm., sem beitir sér mjög fyrir málmblendiverksmiðjunni, kunni að andmæla þessu, að við höfum nógan tíma, og segja frá því, sem ég hygg að Union Carbide hafi sagt sjálfur, að þeir gætu fengið nóg rafmagn og framleiðsluleyfi í Noregi fyrir viðbótarverksmiðju við gömlu verksmiðjuna sina. Ég hringdi til vonar og vara til kunningja míns í norska Stórþinginu á miðvikudaginn var og bað hann að rannsaka málið fyrir mig. Hann hringdi svo til mín í gærkvöldi og sagði mér, að samkv. upplýsingum réttra yfirvalda þar hefði Union Carbide ekki inni liggjandi neina slíka umsókn hjá norskum yfirvöldum og ástandið í orkumálum Noregs væri þannig, að fráleitt mætti telja að slíkt leyfi yrði veitt þótt eftir því væri leitað. Ég á von á staðfestu skeyti um þetta mál frá Osló í dag. Og ég segi aðeins frá þessu núna á þessu stigi til þess að spara okkur tíma.

Nú las ég það í Morgunblaðinu fyrir helgina, að hæstv. iðnrh. væri jafnvel að gera sér vonir um að Alþ. mundi afgreiða þetta frv. fyrir næstu mánaðamót. Ég er viss um það, að séu þessi ummæli rétt höfð eftir hæstv, iðnrh., þá hefur honum beinlínis láðst að taka tillit til bréfanna tveggja frá Náttúruverndarráði sem ég las áðan. Ég er líka viss um, að þetta hefur ráðh. sagt vegna þess að hann hefur ekki heyrt þá frétt eða lesið ofan úr Borgarfirði, að Búnaðarsambandið þar gerði einróma samþykkt um að skora á yfirvöld að fara sér hægt í málinu, svo að unnt yrði að framkvæma hlutlausa rannsókn á hugsanlegum áhrifum verksmiðjunnar á lífríki umhverfisins og á atvinnuhætti á Vesturlandi. Ég býst líka við því, að það hljóti að hafa farið fram hjá hæstv. iðnrh., sem hv. þm. Ásgeir Bjarnason, formaður Búnaðarfélags Íslands, getur borið um, að þetta mál hefur þegar verið tekið á dagakrá Búnaðarþings, sem á að koma saman hér í Reykjavík 20. þ. m. og sitja í 3 vikur. Það væri slök miðlungskurteisi við virðulegustu bændasamkundu þjóðarinnar ef Alþ. flýtti sér að afgreiða þetta þýðingarmikla mál áður en Búnaðarþingi gefst kostur á að fjalla um það og það enda þótt tilkynnt hafi verið að málið sé tekið á dagskrá þess samkv. fyrrgreindri samþykkt Búnaðarsambands Borgarfjarðar, þar sem óskað er eftir því að tími gefist til þess að athuga þetta mál og ganga úr skugga um eðli þess.

Enn á ég eftir, herra forseti, að huga nokkuð að þeim efnahagslega ávinningi sem forgöngumenn þessa málmblendimáls telja þjóð okkar af þeim samningi sem hér er ráðgert að gera við Union Carbide. Hér er verið, segja þeir, að renna stoðum undir efnahag þjóðarinnar, nýjum stoðum undir efnahag þjóðarinnar. Það var líka verið að gera það með samningnum við Alusuisse. Sú stoð stendur hjúpuð blárri móðu í Straumsvík. Annarri nýrri stoð var rennt undir efnahag þjóðarinnar við Mývatn. Við höfum reynslu af báðum þessum nýju stoðum.

Þegar við veltum nú fyrir okkur þriðju nýju stoðinni undir efnahag þjóðarinnar, þá held ég að það sé orðið meira en tímabært að við gáum örlítið í því sambandi að gömlu stoðunum undir efnahag þjóðarinnar, þessum sem hafa gert okkur kleift að lifa býsna góðu lífi í þessu landi og síbatnandi lífi fram að þessu. Ég ætla að það sé við hæfi, að við gáum nú að því hvort ekki geti átt sér stað að nýju stoðirnar séu til þess fallnar að teygja þær gömlu og veikja þær. Hér er ráðgerð 10 milljarða fjárfesting í málmblendiverksmiðju á Grundartanga við Hvalfjörð, þó öllu fremur 13 milljarða ef við reiknum með, sem eðlilegt er, þriðjungi verðs aflstöðvanna í Sigölduvirkjun, sem eiga að sjá þessari verksmiðju fyrir rafmagni sem á að kosta 62 aura kwst. að meðaltali eftir 2 ár. Það er með fullri virðingu fyrir þeim ágætu mönnum, sem hafa annast útreikningana, býsna lágt verð þegar miðað er við það að nú þegar greiða íslendingar á 9. kr. á þessum veðrasama vetri fyrir kwst. eða fjórtánfalt hærra verð en málmblendiverksmiðjan á að borga eftir tvö ár. Í útreikningum Landsvirkjunar, sem fylgja með þessu frv., segir að gróðinn af raforkusölunni reiknist 700 millj. á 20 ára tímabili, eða 35 millj. á ári, til sölu á 550 gwst. Í grundvallaratriðum er verðið reiknað eins af hálfu Landsvirkjunar og til álversins í Straumsvik. Þar virðist 27 aura verð á kwst. líka sýna lítilsháttar ágóða. Ágóðinn skilst mér að fáist með því að láta raforkusöluna til innfæddra standa undir ýmsum kostnaðarliðum sem ella þyrfti að reikna með í dæminu. Afleið9ngin er sú, að við borgum nú á 9. kr. fyrir kwst. eða rúmlega 35 sinnum hærra raforkuverð en svissnesku auðjöfrarnir í Straumsvík. Kostnaður einstaklinga af reikningsfærslunni vegna málmblendiverksmiðjunnar fyrirhuguðu verður hins vegar ekki nema fjórtánfaldur, ef miðað er við verðið eins og það er núna.

Okkur er sagt, að hagnaður íslenska ríkisins, sem á að verða eignaraðili að fyrirtækinu að 55% á móti Union Carbide, verði 1300 millj. í gjaldeyri á ári og er þar að vísu reiknað með útreiknuðum 35 millj. kr. hagnaði af orkusölunni á ári. Jafnvel þótt þessi upphæð fengi staðist við krítíska skoðun, þá væri það lítill hagnaður á okkar mælikvarða af 13 milljarða fjárfestingu.

Ef við reiknum dæmið á enda og tökum tillit til þeirra fríðinda sem þessu fyrirtæki eru ætluð, verður útkoman stórfellt tap. Einnig hér eins og í umfjölluninni um umhverfisvandamál verksmiðjunar virðist stóriðjublindan leiða sérfræðingana okkar í gönur. Ég fellst að vísu á það sjónarmið, að ekki væri réttlátt að reikna verksmiðjunni, svo stórum raforkukaupanda, orkuna á sama verði og hún er seld til heimilisnota. En ég staðhæfi að ekki sé rétt að reikna hana á lægra verði en hægt væri nú þegar að selja hana á til bæjar- og sveitarfélaga til húshitunar, sem mun vera 3.60 kr. kwst. samkv. útreikningum Verkfræðiskrifstofu Sigurðar Thoroddsens, og mundi þá strax vanta næstum milljarð til þess að ágóðinn vægi upp á móti ívilnunni, það mundi strax nema einum milljarði í tap á ári. Þetta dæmi er rétt að því leyti, að við gætum komið allri raforkunni frá Sigöldu í verð til húsahitunar fyrir 3.60 kr. kwst. áður en málmblendiverksmiðjan í Hvalfirði yrði tilbúin að hefja kaup á henni fyrir 62 aura kwst. Það má hver sem vill trúa þeirri staðhæfingu, að okkur skorti fé til að styrkja dreifikerfi fyrir raforku til húsahitunar á svo skömmum tíma. Það þyrfti ekki nema brot af þeirri upphæð, sem hér er reiknuð með að verja til málmblendiverksmiðjunnar, til þess að koma upp dreifikerfinu til allra þeirra staða, sem nú verða að nota olíu til húshitunar, og í hvert einasta afskekkt heiðarbýli í þokkabót. Sá sem trúir því bara vegna þess að verkfræðingar og hagfræðingar segja honum það, að það verði erfiðara að útvega fé í jafnarðbært fyrirtæki og það að selja raforku til húshitunar, heldur en í þess háttar fyrirtæki sem hér er ætlað að reisa á Grundartanga, sá maður sem trúir því, mun trúa flestu.

Þá eigum við enn eftir að reikna fríðindin sem þessari verksmiðju eru ætluð umfram öll önnur íslensk fyrirtæki, eftirgjöf á tollum af öllu byggingarefni og vélbúnaði, eftirgjöf á tollum af öllu hráefni, ívilnanir í sköttum af 45% af ágóðahlut Union Carbide og launum starfsmanna þess fyrirtækis, hafnargerð upp á hálfan milljarð og veg fyrir milljónatugi. Hvernig haldið þið að íslenskur landbúnaður stæði í dag ef honum væri séð fyrir orku á sama verði og málmblendiverksmiðjan á að njóta eða fiskiðnaðurinn? Hvernig haldið það að fyrirtæki sjávarútvegs og landbúnaðar stæðu fjárhagslega ef þeim væru ætlaðar álíka ívilnanir í tolla- og skattamálum? Meira að segja byggðarlögin okkar, sem hafa orðið verst úti af völdum náttúruhamfara á síðustu árum, hafa ekki notið fríðinda á borð við þessi við uppbyggingu. Það voru greiddir tollar af innfluttu húsunum handa Vestmannaeyingunum, og það verða greiddir tollar af þeim verðmætum, sem flutt verða til Neskaupstaðar til þess að byggja upp það sem eyðilagðist í snjóflóðinu. Og nú vantar ekki úrræðin til þess að afla fjár til hafnargerðar. Það hefur vafist fyrir mönnum að útvega fé til hafnargerða á Stokkseyri og Eyrarbakka. Það virðist ekki að það sé vandamál að útvega 500 millj. til hafnargerðar við Grundartanga, vegna þess að þar á að rísa stóriðjuver með erlendri eignaraðild. Það þurfti beinlínis eldgos til þess að losa um peninga til nauðsynlegra hafnarbóta í Þorlákshöfn og Grindavík.

Að renna nýrri stoð undir atvinnuvegi landsmanna, segja þeir, 10 milljarða kr. stoð í málmblendiverksmiðju á Grundartanga við Hvalfjörð, og þar eiga að vinna 114 íslendingar. Ef við reynum að gera okkur grein fyrir því, hvað gera mætti til stuðnings við okkar gömlu atvinnuvegi, sjávarútveg og landbúnað, til þess að treysta gömlu stoðirnar, með því fjármagni sem hér er um að ræða, þá mætti, að því er mér skilst, t.d. koma upp fyrir þessa fjármuni 50 nýtísku fiskiðjuverum sem gætu veitt 5000 manns atvinnu við framleiðslu á matvælum. Það mætti koma upp, eftir því sem mér skilst, samkv. áætlunum 60 stórum ylræktarverum sem veittu 3000 mannsvinnu í sveitum landsins við matvælaframleiðslu. Og það vantar meiri mat í heiminum. Á þessu ári er talið, að nær 100 millj. manna muni deyja úr hungri, og svo segja þeir okkur, að það muni verða erfitt að selja mat. Og haldið þið að það yrði erfitt að reka þessi 50 fiskiðjuver eða 60 ylræktarver ef þau nytu sums konar ívilnunar um orkuverð, tolla, skatta og innflutning og málmblendiverksmiðjunni er ætlað? Að vísu las ég í títtnefndri Tímagrein eftir hv. þm. Steingrím Hermannsson að verð á járnsíli væri nú hækkandi, á sama tíma og matvælin, sem við flytjum út, færu lækkandi og yfirleitt væri verð á málmsíli stöðugra en á matvælum. Það má vel vera. En hingað berast heldur ekki óp deyjandi fólks utan úr heimi, sem biðja í angist sinni um ferrosilikon.

Svo er það Union Carbide. Hæstv. iðnrh. sagði í framsöguræðu sinni að þetta væri tíundi stærsti auðhringur í heimi. Ég veit ekki hvort það var tekið fram til þess að sannfæra okkur um það hversu góður hann væri eða hversu hræðilegur hann væri. (Iðnrh.: Ég hef ekki minnst á þetta.) Ég bið ráðh. að fyrirgefa, ég mun hafa þetta enn úr títtnefndri Tímagrein eftir hv. þm. Steingrím Hermannsson. Sjálfur er ég ekki víss um að þessi auðhringur, Union Carbide, sé neitt að ráði verri en t.d. níundi stærsti auðhringur í heimi og ekki heldur viss um að hann sé neitt að ráði skárri en t.d. ellefti stærsti. Þó veit ég ýmislegt um Union Carbide sem við getum tekið til athugunar síðar. En ef stöðugleiki verðlags ætti einn saman að vera mælikvarði á nytsemi framleiðslunnar, þá mætti svo sem vel vera að taugagasið, sem Union Carbide framleiðir, og eiturefnin, sem sá ágæti auðhringur framleiddi til áburðar á hrísgrjónaekrur bændanna í Víetnam, séu jafnvel enn þá stöðugri í verði og arðgæfari en málmsílið. Og þó endurtek ég það, að ég er ekki viss um að Union Carbide sé neitt verri en aðrir auðhringar sem til mála gæti komið að gera við álíka samning og þennan.

Hæstv. iðnrh. sagði þó a.m.k. sjálfur, að Union Carbide væri býsna duglegur í framleiðslu. Til merkis um mátt og dýrð Union Carbide sagði hann, að framleiðsluverðmati hans árlega væri 4–5 sinnum meira en þjóðarframleiðsla Íslendinga. Af því getum við fyrst og fremst dregið þá ályktun í sambandi við þetta samningsuppkast, að Union Carbide hafi fjór- fimmfalt efnahagslegt bolmagn á við okkur. Ég veit ekki hversu margir ykkar, hv. þm., hafi á lesið þá bók sem að dómi ýmissa fróðra bandaríkjamanna er lykilbók að amerískum kaupsýsluháttum og pólitík. Hún heitir „The Godfather“. Guðfaðirinn hafði eina magnþrungna aðferð í viðskiptum sínum. Það var að gera, eins og hann orðaði það sjálfur, andstæðingnum þess háttar tilboð, að hann gæti ekki neitað því, sem þýddi í stuttu máli: ef hann segir ekki já, þá veit hann það bara sjálfur að hann verður drepinn. — Ég fæ ekki betur séð en Union Carbide, slíkur sem hann er, muni fá samkv. þessu samningsuppkasti aðstöðu til þess með undraskjótum hætti að gera okkur þess háttar tilboð, sem við getum ekki neitað.

Hver milljónatugur, sem við verjum af eigin fé eða lánsfé sem okkur er tiltækt til fyrirtækja á borð við þessa fyrirhuguðu málmblendiverksmiðju, er tekinn frá sjávarútvegi okkar og frá landbúnaði okkar. Með þess háttar fjárfestingu, sem hér er fyrirhuguð, væri hægðarleikur að efla okkar þjóðlegu atvinnuvegi, svo að þeim yrði ekki á kné komið. Ef þannig hefði verið að þeim búið á undanförnum árum sem hér á að búa að fyrirhugaðri málmblendiverksmiðju í Hvalfirði, þá stæðu þjóðlegir atvinnuvegir okkar ekki illa í dag.

Svo eru þeir, sem að þessum málum standa, að tala um byggðastefnu. Það á að auka fjármagn Byggðasjóðs um 420 millj. samkv. fjárl. þessa árs. Við skulum skoða þá fjárveitingu lítils háttar í ljósi þeirra framkvæmda, sem nú standa fyrir dyrum á suðvesturhorni landsins í beinum og óbeinum tengslum við þessa fyrirhuguðu verksmiðju. Okkur er óhætt að reikna verksmiðjuna á 13.5 miljarða kr. að meðreiknuðum þriðjungi Sigölduvirkjunar og hafnar- og vegagerð. Í fskj. þessa frv. kemur berlega fram, að forsendan fyrir byggingu verksmiðjunnar er sú, að tafarlaust verði ráðist í virkjun Hrauneyjarfoss í Þjórsá, en sú virkjun mun kosta a.m.k. 10 milljarða. Af fskj., sem liggja frammi með frv., er líka ljóst og er aldeilis gert ráð fyrir því að verksmiðjan á Grundartanga verði stækkuð með tilkomu aukinnar orku á orkuveitusvæði Landsvirkjunar, og er alveg óhætt að reikna þá með öðrum 10 milljörðum. Og þá fæ ég ekki betur séð, fyrst við erum að tala um byggðastefnu, en það vanti núna 30 milljarða kr. til þess að halda fjárfestingarjafnvægi í öðrum landshlutum. Upp í það vega þessar 420 millj. kr., sem nú eiga að renna í Byggðasjóð, ekki ýkjamikið.

Það er ekki svo að skilja, að okkur vanti málmblendiverksmiðju á Norðurlandi. Ég vildi ekki sjá hana rísa þar fremur en hér. Og ég mundi mæla gegn henni ekki síður, vafalaust enn þá meir, ef fyrirhugað væri að reisa hana þar. En okkur vantar rafmagn og okkur vantar áburðarverksmiðju við Eyjafjörð til þess að geta aukið framleiðslu okkar á góðum og ómenguðum matvælum. Og okkur vantar peninga til þess að bora eftir heitu vatni, til þess að borga fyrir hitaveitur. Einnig fjármálahlið þessa máls þarfnast nákvæmrar athugunar. Allt málið þarfnast ítarlegrar rannsóknar. Þá rannsókn verður að framkvæma af ábyrgum, hlutlausum aðilum áður en Alþ. tekur þetta frv. til endanlegrar afgreiðslu.