13.02.1975
Efri deild: 44. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1816 í B-deild Alþingistíðinda. (1456)

159. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. að neinu marki, því að það er búið að segja flestallt sem þarf að segja til þess að réttlæta það að Alþ. samþykki það frv. sem hér er til umr.

Ég ætla ekki að endurtaka lýsingarnar á ástandinu í efnahagsmálunum. Það hefur verið gerð svo skilmerkilega grein fyrir því hvernig þar er ástatt að ég tel það óþarfa. En það er raunar búið að vera ljóst í nokkuð langa hríð að viðskiptakjörin hafa farið svo mjög versnandi að óhugsandi var að útflutningsatvinnuvegirnir gætu starfað við þau skilyrði. Meira að segja síðan fjárlög voru afgreidd á hv. Alþ. fyrir jólin hafa gerst þeir atburðir í utanríkisviðskiptum okkar sem hafa gerbreytt þeim forsendum sem fjárl. voru þó byggð á. Ég vísa til þess að það hefur lengi verið ljóst, sem hæstv. viðskrh. hefur sagt frá opinberlega, bæði í vor, þegar hann flutti frv. um viðnám gegn verðbólgu, og eins á margnefndum fundi í Framsóknarfélagi Reykjavíkur, sem haldinn var í jan., og mig furðar á því að fólk og þ. á m. hv. þm. skuli hneykslast á því, að þjóðinni var þá sagður sannleikurinn. Ég held að það hefði mátt jafnvel gera það fyrr og a.m.k. ekki síðar.

Ég þarf ekki að taka það fram, að sem meðlimur í ríkisstj. og stuðningsmaður hennar sem óbreyttur þm. er ég samþykkur þeirri leið sem nú er reynt að fara til að bjarg.a úr því öngþveiti sem við blasir og raunar er ríkjandi í efnahagsmálum. En ég vil mjög gjarnan gera þá játningu að ég nálgaðist þetta viðfangsefni í þeirri von að aðrar leiðir dygðu til þess að afstýra efnahagsvandanum en sú neyðarráðstöfun að fara enn einu sinni í gengisfellingu. Hún er mér mjög ógeðfelld eins og mörgum hv. þm. öðrum sem hér hafa talað, En við þá skoðun, sem fram hefur farið undanfarnar vikur, á því hvaða ráð væru tiltæk til þess að ná endum saman í útflutningsatvinnuvegunum, í viðskiptajöfnuðinum við útlönd og á fleiri sviðum efnahagsmála, þá hefur það orðið mér ljóst a.m.k. að hjá þessari gengisfellingu varð því miður ekki komist. Dæmið náðist ekki saman með sparnaði og með niðurfærsluleið og uppbótarleið og hvað þær allar heita, þessar leiðir sem menn tala um og færar séu, en leiða yfirleitt af sér ógöngur þegar reyndar hafa verið. Og þá var ekki um annað að tefla fyrir okkur, sem tókum það að okkur í ágústmánuði s.l. að mynda ríkisstj. til þess, eins og við þá sögðum, að reyna að leysa aðsteðjandi efnahagsvandamál, en grípa til þessa gamalþekkta leiðindaúrræðis sem gengisfelling er.

En þó að sparnaður og samdráttur næði ekki endunum saman að mati sérfræðinga, — mati, sem ég hef fallist á fyrir mitt leyti, þá er ekki þar með sagt ,að leggja eigi til hliðar öll áform um niðurfærslu og sparnað. Þvert á móti tel ég ríka nauðsyn bera til þess að fyllsta sparnaðar og aðhalds sé gætt í öllum opinberum rekstri, og þess vegna er nauðsynlegt að yfirfara fjárl., þótt nýsamin séu, til þess að leita að leiðum til að spara fé. Á svo háum fjárl. sem við höfum hlýtur að finnast leið til þess að draga úr útgjöldum, enda þótt það sé rétt, sem oft hefur verið bent á, að stór hluti fjárl. er lögákveðinn og ríkisstj. ræður ekki við breytingar á því. Þar þarf samþykki Alþ. til að koma. Ég er enn fremur sannfærður um það, að hjá mörgum aðilum í þjóðfélaginu er, þrátt fyrir þessa gengisfellingu og þrátt fyrir það sem á undan hefur gengið, ráðrúm til sparnaðar. Þess vegna hefur sú hugmynd skotið upp kollinum að þeir, sem hæstar tekjur hafi, verði skyldaðir til sparnaðar. Og ég verð að segja það, að það er ekki meira að skylda fullorðið fólk til þess að spara samkv. lögum, þegar það hefur sannanlega efni á því, heldur en það er talið rétt og sjálfsagt að skylda ungmenni, sem oft og tíðum hafa ekki efni á því, að leggja til hliðar, til skyldusparnaðar. Ég tel það sanngjarna og eftir atvikum sjálfsagða leið til þess að auka á sparnað með þjóðinni að lögbinda hann hjá þeim sem hæstar tekjurnar hafa.

Þá vil ég enn á ný ítreka það sem ég hef áður sagt um nauðsyn þess að sú stefnubreyting verði hjá íslensku þjóðinni að hún meti meira það, sem íslenskt er, og að sá málsháttur, sem þjóðin hefur haft yfir með sjálfri sér og trúað í aldir, að hollur sé heimafenginn baggi, verði leiddur til öndvegis á ný og íslendingar sameinist um það að styðja íslenskan iðnað með því að kaupa íslenskar iðnaðarvörur fram yfir erlendar. Og nú á einmitt gengislækkunin að vera liður eða hjálpartæki í þessari viðleitni því að samkeppnisaðstaða iðnaðarins batnar væntanlega eitthvað við gengisbreytinguna.

Ég vil svo að lokum, af því að ég ætlaði ekki að lengja þetta mál, heldur aðeins lýsa mínum eigin viðhorfum til þess frv. sem fyrir liggur, láta í ljós þá von að fólk mæti þessum efnahagsráðstöfunum með skilningi. Ég held að það sé almennt viðurkennd staðreynd að eitthvað hafi þurft að gera. Ég vona að þessi gengisbreyting og þær ráðstafanir aðrar, sem í kjölfar hennar kunna að koma, verði til þess að koma útflutningsatvinnuvegunum á réttan kjöl, að þær verði til þess að skapa viðunandi viðskiptajöfnuð okkar við útlönd og að þær verði umfram allt ekki til þess að skerða úr hófi lífskjör þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu.