13.02.1975
Efri deild: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1824 í B-deild Alþingistíðinda. (1462)

159. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég vil ekki lengja þessar umr., en ekki heldur skorast undan að svara þeim fsp. sem beinlínis eru hér fram settar og ég beðinn að svara.

Hv. 1. landsk. þm. nefndi það fyrst, hvaða fyrirætlanir ríkisstj. hefði varðandi verðtryggingu sparifjár. Í þeim efnum hefur ríkisstj. markað nokkra stefnu þegar við útlán fjárfestingarlánasjóða á síðasta ári og hefur nú með höndum frekari stefnumörkun á því sviði, þar sem tekin er upp í auknum mæli verðtrygging útlána með hliðsjón af því að geta verðtryggt fjáröflun til þessara sjóða sem m.a. er fengin frá lífeyrissjóðunum. Ég býst við því að þetta sé mjög í þeim anda er hv. 1. landsk. þm. talaði.

Að því er varðar verðtryggingu innlánsfjár í bönkum landsins, sparifjár, hafa ýmsir framkvæmdaörðugleikar verið taldir á því að koma þar á fullri verðtryggingu eða hvernig verðtrygging skuli útreiknuð á skammtímalánum t.d. Á því sviði hefur því verið talið farsælla að beita sveigjanlegri vaxtastefnu, þannig að í spennuástandi væri um háa vexti að ræða til þess að skapa aukna viðleitni til sparnaðar og til þess að fjármagna þær framkvæmdir og athafnir sem gerast í þjóðfélaginu, en aftur á móti að lækka vextina þegar um er að ræða hættu á atvinnuleysi eða samdrætti.

Ég býst við því að í höfuðatriðum muni ríkisstj. sem slík leggja áherslu á annars vegar verðtryggingu fjárfestingarlána og lengri tíma lána og hins vegar sveigjanlega vaxtastefnu að því er skammtímalán snertir.

Þá var spurt um Hitaveitu Suðurnesja. Ég tel ekki rétt að svara þeirri fsp. í fjarveru hæstv. iðnrh. og hæstv. fjmrh. Ég vil aðeins taka það fram að fjáröflun er erfiðleikum háð nú sem stendur, bæði innanlands og erlendis, og þarf ekki mörgum orðum um það að fara. Skoðun mín er sú, að því fjármagni, sem unnt er að fá, sé best varið í orkuframkvæmdir, og ríkisstj. hefur lýst því yfir að orkuframkvæmdir hafi algeran forgang.

Þá spurði hv. þm.: Hvað verður um lánsloforð Fiskveiðasjóðs? Við munum leitast við að standa við þau loforð sem gefin hafa verið og efna þau. Hins vegar skulum við ekki loka augunum fyrir hinu, að nauðsynlegt er að fikra okkur að einhverju leyti frá hinu sjálfvirka kerfi á þessu sviði eins og öðrum, þ.e.a.s. við þurfum líkast til að breyta þeim útlánareglum sem gilt hafa og hafa veitt mönnum vonir um að þessir sjóðir veittu lán til fjárfestingar að hárri hlutfallstölu stofnfjárkostnaðar. Það er enginn vafi á því að í mörgum tilvikum þurfum við að lækka þessa hlutfallstölu lánsfyrirheita þegar um stofnkostnað er að ræða.

Þá spurði hv. þm. hvað líði áformum ríkisstj. um sparnað. Ég gat um það í framsöguræðu minni að áhersla yrði lögð á endurskoðun útgjaldaáforma, bæði fjárfestingarlánasjóða svo og ríkisins og ríkisfyrirtækja, með það fyrir augum að koma á sparnaði. Þær áætlanir eru í úrvinnslu í fjmrn., og ég efast ekkert um að þær verða allar lagðar fyrir fjvn. þegar þær ern betur mótaðar.

Ég vil svo aðeins taka það fram varðandi rekstur togaranna eftir þá gengisbreytingu sem nú hefur verið gerð, að að því er minni skuttogara snertir standa vonir til að rekstur þeirra geti borið sig. Rekstur stærri togaranna aftur á móti er sérstaks eðlis. Þeir sýnast gefa langt um verri rekstrarafkomu, og er það algert sérvandamál sem verður að taka til meðferðar út af fyrir sig. Skal ég ekki hafa fleiri orð um það. En spurningin er auðvitað sú, þegar hv. þm. segir að erlend lán, svo há sem þau eru, séu skýring á því að þessi rekstur sé vonlítill, hvort við verðum ekki að lita á erlend lán og innlend lán að þessu leyti, þegar við erum að ræða um rekstrarafkomu atvinnutækja, sem samsvarandi, verðum að gera ráð fyrir að fjármagn það, sem bundið er í atvinnutækjum, hvort sem bak við það fjármagn standa lán eða eigið fé, hvort sem lánin eru erlend eða innlend, þá verði þetta fjármagn að gefa arð. Annars getum við ekki byggt traustar undirstöður undir atvinnurekstur okkar. Það er tilhneiging okkar íslendinga að taka of mikið af atvinnuvegunum, ætla ekki nægilega mikið til atvinnutækjanna, til endurnýjunar þeirra og uppbyggingar. Þetta er e.t.v. ein höfuðástæðan fyrir því að við höfum þurft að grípa til gengisbreytinga. Við höfum ekki haft nægilega mikinn skilning á því að atvinnutækin sjálf eru tæki til þess að gera vinnu mannsins verðmætari og gefa honum meira í aðra hönd fyrir vinnu sína. Þetta kemur mjög glögglega í ljós þegar atvinnutæki heils byggðarlags eru lögð í rúst, eins og í snjóflóðunum í Neskaupstað. Þá eykst mönnum skilningur á því að atvinnutækin þurfa að vera til staðar til þess að skapa fólkinu meiri arð af vinnu sinni. En þá þurfum við líka að ætla eitthvert fjármagn í atvinnutækin sjálf og til uppbyggingar atvinnuveganna.

Ég held að það sé því miður ekki nægilegt að leysa vandamálið með tilfærslu innan sjávarútvegsins sjálfs. Það er engum blöðum um það að fletta að gengisbreyting er tilfærsla á fjármunum frá almenningi í landinu til útflutningsframleiðslunnar, til sjávarútvegsins. Gengisbreytingin er slík aðgerð. En ég hef ekki heldur leynt hv. þm. því, enda gera allir sér grein fyrir því, að í kjölfarið er nauðsyn að tilfærsla eigi sér stað á tekjuskiptingu innan sjávarútvegsins, milli vinnslu og fiskveiða, svo að skýrt dæmi sé tekið.