04.03.1975
Sameinað þing: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2094 í B-deild Alþingistíðinda. (1659)

105. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég fagna því, að þetta mál skuli hafa komið til umr. í dag, því að sannarlega er tímabært að ræða um húsnæðismál. Þetta er einn sá málaflokkur sem skiptir fólkið í landinu meginmáli, hvernig á er haldið á hverjum tíma. Það eru fjölmörg ákvæði í þessu frv. Þorvalds Garðars, hv. þm., sem eru mjög til bóta. Þó að e. t. v. séu þarna atriði sem gangi nokkuð langt, þá eru mörg þeirra svo mjög til bóta, að það er veruleg ástæða fyrir Alþ. og hæstv. ríkisstj. til að athuga þau nánar.

Það eru mörg fleiri atriði en fram koma í þessu frv. í löggjöf um húsnæðismál sem er ástæða til þess að gefa nánari gaum. Ég vil vekja sérstaka athygli á því misrétti sem skapast hefur á milli sveitarfélaga í dreifbýli og Reykjavíkur hvað varðar aðstöðu til byggingar leiguhúsnæðis. Það voru samþykkt lög á Alþ. fyrir ekki alllöngu um byggingu 1000 leiguíbúða, en þar var ekki farið að með sama hætti og þegar lög um Breiðholtsíbúðirnar vorn samþ.

Í lögum um þessar leiguíbúðir var einungis heimilað að ríkið legði fram 80% af byggingarkostnaði, í staðinn fyrir að um Breiðholtsleiguíbúðirnar gilti það, að ríkið var skyldað til að leggja fram 84% Enn fremur er rík ástæða til þess að ganga betur frá því að aðlaga lánakerfið nýjum byggingarháttum, þannig að það t. d. henti byggjendum einingahúsa betur en nú er, svo sem ég hef lagt til í þáltill. sem ég hef flutt hér á Alþ. um þetta efni. Ég fagna því að það er nokkur hreyfing á þessu máli.