04.03.1975
Sameinað þing: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2099 í B-deild Alþingistíðinda. (1664)

318. mál, hlutafélög og verðlagsmál

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Ég svara fyrst fyrri lið fsp., sem hljóðar svo:

„Hvað líður endurskoðun hlutafélagalöggjafar?“

Hinn 2. mars 1972 fól viðskrn. Benedikt Sigurjónssyni hæstaréttardómara að semja drög að frv. til l. um hlutafélög. Með honum hefur unnið Gylfi Knudsen lögfræðingur í viðskrn. Á miðju sumri 1973 voru frumdrög að frv. til l. um hlutafélög tilbúin, en þó án grg. Með bréfi, dags. 16. ágúst 1973, voru drög þessi send ýmsum embættum, stofnunum og samtökum stétta- og atvinnulífs til umsagnar, og munu a. m. k. hafa verið 16 aðilar eða stofnanir og fyrirsvarsmenn samtaka sem fengu þessar fsp., og hef ég lista yfir hverjir það vorn. Ég sé ekki ástæðu til að lesa hann upp. En vorið 1974 höfðu borist umsagnir um drög þessi frá eftirtöldum aðilum, það eru þeir aðilar sem hafa svarað fsp.: frá Lögmannafélagi Íslands, Félagi löggiltra endurskoðenda, Félagi ísl. iðnrekenda, Landssambandi ísl. útvegsmanna, Verslunarráði Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands. En umsagnir frá fleiri aðilum en ég nefndi nú hafa ekki borist hingað til og berast væntanlega ekki úr þessu.

Í þeim umsögnum, sem bárust, komu fram ýmsar aths. og það hefur verið unnið að því að kanna og vinna úr þeim aths. og endurskoða áðurnefnd frumdrög m. a. með hliðsjón af þeim og svo að því að taka saman grg. Ég vil vona, að þessu verki miði svo áfram að það verði hægt að sýna frv. um þetta efni á þessu þingi. En ég geri mér engar vonir um að það verði hægt að gera svo tímanlega, að slíkt frv. verði afgreitt á þinginu, enda er þetta frv. þess eðlis að það er að mínum dómi ákjósanlegt, að það liggi fyrir fleiri þingum og þm. fái tækifæri til þess að skoða það allvel.

Þá er það síðari líður fsp. um hvað líði löggjöf um verðlagsmál.

Þegar núv. ríkisstj. kom til valda, lýsti hún því yfir, að undirbúin yrði ný löggjöf um verðmyndun, viðskiptahætti og verðgæslu. Nokkur undirbúningur að slíkri löggjöf er hafinn. Hefur sú undirbúningsvinna, sem þar er um að ræða, fyrst og fremst verið unnin á vegum viðskrn. En um leið vil ég geta þess, að um síðustu áramót urðu starfsmannaskipti á verðlagsskrifstofunni, nýr verðlagsstjóri, Georg Ólafsson, tók þá til starfa og með honum nýr skrifstofustjóri, Gunnar Þorsteinsson. Ég hef falið þessum mönnum að athuga vandlega allar starfsreglur verðlagseftirlitsins, sérstaklega með það fyrir augum að af því geti orðið sem mest not fyrir neytendur. Áður en þeir tóku til starfa, fengu þeir tækifæri til þess að kynna sér framkvæmd þessara mála hjá nágrannaþjóðum. En ég vil taka það skýrt fram vegna mishermis, sem komið hefur fram í blöðum, að þessum mönnum hefur alls ekki verið falið að semja frv. að nýrri löggjöf um verðlagsmál. Áður en gengið verður frá frv. um þau efni, sem nefnd eru í stjórnarsáttmálanum, verður að sjálfsögðu haft samráð við þá aðila sem í málefnasamningi ríkisstj. segir, en ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um hvernig því samráði verði fyrir komið, hvort það verður skipuð n. í þetta mál eða það verður unnið að því með öðrum hætti. Það langt er málið ekki komið.

Á þessu stigi er þess vegna ekki hægt að segja um það, hvenær frv. um þetta efni verður lagt fyrir Alþ., enda er ekkert í málefnasamningnum sem segir að þetta skuli gert á þessu þingi. Hins vegar verður unnið að þessum málum án ástæðulausrar tafar, en þar er margt sem þarf athugunar við.

Þá hef ég svarað fsp. þeim, sem hv. 11. þm. Reykv. hafði lagt hér fram. En hann vék í máli sínu að því, hvernig háttað væri gjaldeyrisyfirfærslu. Um þau mál er það að segja, að af illri nauðsyn hefur orðið að breyta nokkuð um starfshætti í framkvæmd þeirra mála frá því sem áður var. Þó er það svo, að æ fleiri vörum hefur verið bætt á þann lista sem algerlega sömu afgreiðslureglur gilda um og áður hafa gert, þ. e. a. s. umsóknir eru afgreiddar í gjaldeyrisdeildum bankanna með sama hætti og áður var. Um margar vörur er hins vegar þannig háttað, að það verður að senda inn umsókn sem fer til sérstakrar athugunar hjá sameiginlegri n. sem skipuð er af bönkunum og viðskrn. Vegna ástandsins í gjaldeyrismálum hefur í mörgum þessara tilfella orðið bið á því að hægt væri að afgreiða samstundis slíkar umsóknir, heldur hefur verið talið nauðsynlegt að skoða þær og meta í því sambandi hver nauðsyn væri á skjótri afgreiðslu. Þetta fyrirkomulag er þó ekki til frambúðar og ég geri ráð fyrir því, að það verði innan skamms eða innan viku eða svo reynt að setja skýrari reglur um þetta en beint er í reglugerðinni. Að sjálfsögðu hefur þessi háttur verið nauðsynlegur eins og ég sagði, en jafnframt hafa menn viljað reyna að átta sig á því, hver framvindan yrði í þessum málum á þeim tíma, sem þannig hefur líðið að segja má að nokkur seinkun hafi orðið á yfirfærslum. Ég vil nú vona, að með tilliti til þess að í mörgum tilfellum voru ríflegar vörubirgðir fyrir hendi, þá hafi þetta ekki komið að sök, enda hygg ég að það hafi verið haldið þannig á þessum málum af gjaldeyrisnefnd þeirri, sem ég nefndi áðan ef kalla má hana því nafni, það er ekki formleg nefnd, þá hafi verið litið á nauðsyn í hverju tilviki og leyst úr eftir því sem unnt var, ef um verulega brýna og aðkallandi nauðsyn hefur verið að ræða. — Ég endurtek, að þess má vænta, að innan skamms verði settar skýrar reglur um þetta efni sem verði þá birtar.