06.03.1975
Sameinað þing: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2181 í B-deild Alþingistíðinda. (1744)

141. mál, innheimta afnotagjalda hljóðvarps og sjónvarps

Fyrirspyrjandi (Heimir Hannesson):

Herra forseti. Ég get því miður ekki kveðið eins stíft eins og hv. síðasti ræðumaður eða kveðið yfirleitt. — Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin og ég vil í fyrsta lagi lýsa því yfir, að ég er sammála honum, að auðvitað er mikilvægast af öllu, að gripið sé til verulegra úrbóta í málefnum Ríkisútvarpsins úti á landsbyggðinni, á Austurlandi, Norðurlandi og Vesturlandi. Ég er líka honum sammála, eins og ég reyndar gat um í minni framsögu, að það er að sjálfsögðu ekki neitt einfalt mál, hvernig þetta er framkvæmt. Ég held hins vegar, að það sé ekki það flókið heldur að það sé ekki hægt að framkvæma það, og vil ég minna á að það má framkvæma afslátt með ýmsu móti. Það mætti t. d. hugsa sér að framkvæma það þannig að láta hækkun á árinu 1975 ekki koma til framkvæmda nema að einhverju leyti á þeim landssvæðum þar sem þessar truflanir hafa komið fram, og ég held það sé tiltölulega einfalt ákvörðunaratriði hjá hæstv. ráðh. að láta slíkt koma til framkvæmda. Verð ég að segja það alveg eins og er, að ég treysti því að hann taki þessa afstöðu til endurskoðunar í ljósi þeirra umr. sem hér hafa átt sér stað. Hann minntist á það, að hið háa Alþ. hefði ákveðið að fella niður veggjöldin, og harmaði það nú. Ég harma það að sjálfsögðu líka. Ég held það hafi verið röng ákvörðun. En ég er honum ekki sammála, hæstv. ráðh., að þetta sé beinlínis sambærilegt, þannig að ég held það sé ekki þörf að taka neitt sérstaklega mið af því.