06.03.1975
Sameinað þing: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2182 í B-deild Alþingistíðinda. (1746)

141. mál, innheimta afnotagjalda hljóðvarps og sjónvarps

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Hér er búið að ræða mjög um fjármögnun Ríkisútvarpsins, hljóðvarps og sjónvarps. Ég held að það verði ekki komist hjá því að taka þá ákvörðun að ákveðin upphæð á fjárl. gangi alveg fast til uppbyggingar þessarar stofnunar. Það er alveg óhjákvæmilegt, því að það er komið svo, að þó að menn hafi mismunandi aðstöðu til að sjá sjónvarp og heyra í útvarpi, þá má segja að allir landsmenn njóti þess að meira eða minna leyti. Það er um borð í skipunum og það til innstu dala, þó að mismunandi gæði séu eins og komið hefur fram. Má telja það til afreka, ég held það sé alveg öruggt mál — hvað dreifing þess hefur gengið vel hér á Íslandi. Það voru miklir erfiðleikar, en það hefur örugglega tekist vel hjá tæknimönnum að dreifa sjónvarpinu.

Það er ekki vansalaust af hinu háa Alþ. að tryggja ekki þessari stofnun eðlilegt uppbyggingarfé árlega. Það er ekki þolanlegt lengur að þessi stofnun skuli hírast húsnæðislaus og á hrakhólum og að við getum ekki séð sóma okkar í því að tryggja þessari stofnun eðlilegt uppbyggingarfjármagn með tvennum hætti, með fastri upphæð á fjárl. og einnig eins og gert hefur verið í gildandi lögum. Ég trúi því mætavel, að hæstv. menntmrh. muni hafa forgöngu um slíkt nú og að stofnunin fái eðlilegt fjármagn til þeirrar uppbyggingar sem við erum allir sammála um að hljóti að þurfa að eiga sér stað og það fyrr en síðar. Ég vildi aðeins undirstrika að það verður að taka þá ákvörðun fyrr eða síðar, það er ekki hægt að draga það svo lengi eins og gert hefur verið með nokkrum sóma.