10.03.1975
Neðri deild: 54. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2228 í B-deild Alþingistíðinda. (1783)

33. mál, samræmd vinnsla sjávarafla

Guðlaugur Gíslason:

Virðulegi forseti. Þegar frv. þetta kom til 2. umr. eftir að það hafði fengið afgreiðslu í n., gerði ég grein fyrir afstöðu minni til málsins. Ég hafði ekki undirritað nál. og skýrði frá því að ég treysti mér ekki til að fylgja frv. og mundi greiða atkv. gegn því ef það kæmi hér til atkvgr. Ég þarf því ekki af þeim ástæðum að hafa hér uppi langt mál.

Það sem gerði að ég sá ástæðu til að kveðja mér hljóðs voru viðbrögð stjórnarandstöðunnar í sambandi við hinar skiptu skoðanir þm. Sjálfstfl. í þeim umr. sem um þetta mál hafa verið hér að undanförnu. Við sáum að hv. 3. þm. Reykjavíkur, Magnús Kjartansson, sveif hér um þingsal með bros á vör þegar hann hlýddi á umr., hinar skiptu skoðanir sjálfstæðismanna, enda speglaðist þetta í blöðum, bæði hans málgagni, Þjóðviljanum, og reyndar einnig í Alþýðublaðinu daginn eftir, að þeir vildu gera þetta að stóru máli, að þm. eins flokks skyldu leyfa sér að hafa misjafnar skoðanir efnislega á stjfrv., sem hér væri til umr.

Ég tel einmitt að þetta þurfi að undirstrika allrækilega, því að þetta sýnir þann geysilega mun sem er á Sjálfstfl. og t. d. Alþb. og þeim kröfum sem gerðar eru til þm. sem eru í þessum tveimur flokkum. Það er vitað og hefur reyndar oft komið fyrir áður að þm. Sjálfstfl. og sjálfstæðismenn almennt vilja hafa sínar skoðanir á málum, sem þeir fjalla um, og tel ég þá hafa til þess fullan rétt að láta það koma fram, hvort heldur er á þingflokksfundum eða hér í þingsal, ef þeim býður svo við að horfa. Þessu er á allt annan veg farið t. d. með Alþb. Það hefur sýnt sig hér og verið reyndar staðfest, að stjórnin og þeir, sem ráða flokknum, eiga einir að fá að ráða afstöðu og skoðunum þm. þegar hér í þingsal kemur og umr. fara fram.

Ég tel að e. t. v. hafi þessi mismunandi afstaða og þessi mismunandi aðstaða, sem þm. eru í í þessum tveimur flokkum komið einna berlegast fram í sambandi við umr. um bresku samningana. Það var alveg vitanlegt og var víst öllum landsmönnum kunnugt, að sérstaklega forustumenn Alþb. höfðu margsinnis lýst því yfir opinberlega, bæði í ræðu og riti, hamrað mjög á því í kosningunum, á opinberum vettvangi að þeir mundu aldrei vilja við breta semja. Það birtust stórar fyrirsagnir í Þjóðviljanum víst oftar en einu sinni, að samningar við breta væru svik og afstaða þm. og ráðamanna flokksins var öll á þann veg. En þegar að því kom, að þeir þurftu endanlega að segja til um það og þurftu kannske að leggja ráðherradóm sinn að veði um það hvort þeir vildu við sínar yfirlýsingar standa, þá létu þeir sér nægja að hlaupa sjálfir frá þessum margendurteknu yfirlýsingum sínum um að samningar við breta væru svik, heldur gerðu þeir þær kröfur til allra þm. flokksins að þeir einnig ætu ofan í sig alla sína fyrri afstöðu í sambandi við þetta mál. Var það ekkert leyndarmál að þm. Alþb. voru í þessu máli beinlínis kúgaðir til hlýðni og til að greiða hér í þingsal atkv. gegn því, sem þeir sjálfir höfðu margsinnis sagt að þeir mundu aldrei gera og væri þeirra sannfæring að ætti ekki að gera.

Ég tel að einmitt þetta sýni, að þær umr., sem hér hafa orðið um það frv. sem hæstv. sjútvrh. lagði fram, og afstaða einstakra þm. Sjálfstfl. til efnis þess, hversu geysilegur munur það er að vera í Sjálfstfl. og vera t. d. í Alþb. Þm. Sjálfstfl. hafa til þess fullan rétt og telja það beinlínis skyldu sína, ef hér eru mál til umr. sem þeir telja að brjóti að einhverju leyti í bága við þeirra sannfæringu og stefnu flokksins, þá hafa þeir til þess fullt leyfi og leyfa sér alveg hiklaust að segja sitt álit á málinu og lýsa því yfir að þeir muni greiða atkv. gegn því ef þeim býður svo við að horfa.

Það var þetta sem gaf mér fyrst og fremst tilefni til þess að koma hér í ræðustól og undirstrika það, að ég held að hinar stóru fyrirsagnir í Þjóðviljanum og reyndar í Alþýðublaðinu einnig í sambandi við afstöðu nokkurra þm. Sjálfstfl. í þessu máli sýni glögglega að fyrir alla, sem frjálsræði á annað borð unna, hlýtur Sjálfstfl. að vera sá flokkur sem þeir kunna best við sig í og stefna hans er þess eðlis að þeir veita honum helst fylgi, enda er þetta ein af ástæðunum fyrir því að Sjálfstfl. er langsamlega stærsti stjórnmálaflokkur landsins. Það er ekki einasta grundvallarstefnan, sem þar veldur, að flokkurinn stefnir að sem mestu frjálsræði bæði í athöfnum manna og orðum, heldur hefur hann leyft sínum mönnum og alveg átölulaust að hafa sínar skoðanir, bæði hér í þingsal og annars staðar. Af þeirri ástæðu gat ég hér um afstöðu Alþb. í sambandi við bresku samningana og benti á það, hversu forráðamenn þess flokks í sambandi við það mál gerðu flokkinn í augum þjóðarinnar lágkúrulegan með því að hlaupa sjálfir frá sinni fyrri afstöðu og neyða aðra þm. flokksins til að gera slíkt og hið sama hér á Alþ. frammi fyrir allri þjóðinni.

Ég vil í sambandi við það mál einnig benda á það, að þá voru það einnig nokkrir þm. Sjálfstfl. sem ekki voru á sömu skoðun og forráðamenn flokksins, svo sem kom hér í ljós við atkvgr., og þ. á m. var núverandi hæstv. sjútvrh., sem hafði sína skoðun á því máli og lét hana koma fram í ræðu sem hann flutti hér og einnig í atkvgr. Ég veit ekki til að þetta hafi valdið nokkrum ágreiningi í Sjálfstfl., og ég er alveg sannfærður um að þær skiptu skoðanir, sem nú eru um það tiltekna mál sem hér er til umr., eiga ekki eftir að hafa nokkur eftirköst í Sjálfstfl., að flokkurinn mun standa heill að stjórninni og þeim málum sem við erum sammála um að þurfi fram að ganga hér á hinu háa Alþ. Ég taldi fulla ástæðu til að draga það fram í dagsljósið, að þessar stóru fyrirsagnir og hið gleiða bros hv. 3. þm. Reykv. undir umr. er ekki neitt til að gleðjast yfir. Þetta er hjá stjórnarandstöðunni hreint vindhögg og sýnir það, sem ég hélt satt að segja að þeir væru löngu búnir að gera sér grein fyrir, að þó að slíkt komi upp eins og hér hefur gerst hefur það ekki nein eftirköst innan Sjálfstfl. og við stöndum jafnt saman um önnur mál eins og við höfum gert fram að þessu.

Að lokum, um leið og ég lýk máli mínu í sambandi við 2. umr., vil ég benda á það, því að það hefur nokkuð verið vitnað í þau lög sem samþ. voru hér fyrir rúmu ári, lög um veiðar með botnvörpu og flotvörpu í fiskveiðilögsögunni, að þar væru ýmis ákvæði, sem skertu athafnafrelsi manna, að þetta er alveg rétt. Þessi lög voru mjög ítarlega rædd og einmitt kannske frekast þessi ákvæði. En öll skerðandi ákvæði, sem í þeim lögum er að finna, og allar þær heimildir, sem sjútvrh. er gefið í þeim lögum, eru til að friða og vernda fiskstofnana hér við landið. Það eru engin ákvæði í því, sem hamla aðgerðum manna við fiskvinnslu eða annað, sem fram kemur í því frv. sem hér er til umr., þannig að þessi tvö frv. eru ekki á nokkurn hátt sambærileg. Af því að einum hv. ræðumanni, sem var að mæla með frv., varð á að vitna til laga sem staðfest hafa verið fyrir meir en hálfri öld af Danakonungi, þá held ég að Alþ. íslendinga á því herrans ári 1975 ætti ekki að taka sér til fyrirmyndar lög sem Danakonungur staðfesti á sínum tíma, því ef við færum að taka margt af þeim lögum of alvarlega, þá værum við komin í aðstöðu sem hér réð í verslunarmálum fyrir nær 300 árum, og hann dró þar fram í dagsljósið mann sem frægur er í sögunni síðan, en það var Hólmfastur á Brunnastöðum sem var refsað fyrir það eitt að leyfa sér að fara með sínar fiskafurðir til kaupmanns í Keflavík í staðinn fyrir að leggja þær inn hjá dönskum kaupmanni í Hafnarfirði, sem honum bar skv. þágildandi reglum að hafa öll sín viðskipti við.

Ég skal svo ekki, virðulegi forseti, hafa um þetta lengra mál, en vitna aðeins til þess, sem ég sagði í upphafi, að ég mun greiða atkv. gegn frv. þegar það kemur hér til atkvgr.