11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2247 í B-deild Alþingistíðinda. (1796)

87. mál, vatnsvirkjunarrannsóknir til raforkuframleiðslu á Norðurlandi

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Eitt af því, sem háð hefur og háir í dagvirkjunarmálum hér á Íslandi, er hversu seint gengur um rannsóknir og áætlanagerð og hönnun. Þegar það var kannað eftir síðustu stjórnarskipti hvernig málum væri háttað á Norðurlandi, hvort ekki væri hægt að taka þá þegar ákvörðun um einhverja meiri háttar virkjun á Norðurlandi, þá reyndist það ekki vera vegna þess að enn skorti allmikið á að rannsóknir og hönnun varðandi t. d. þessa fjóra virkjunarmöguleika, sem ég rakti hér, væru svo langt á veg komnar að hægt væri að taka ákvörðun. Ég tel því ákaflega lofsvert hjá Landsvirkjum hversu vel þar hefur verið unnið að rannsóknum og hönnun virkjunarmöguleika. Þar liggja málin þannig fyrir að næsti virkjunarmöguleiki er hannaður, þ. e. a. s. Hrauneyjarfoss, og unnið er af kappi að öðrum virkjunarmöguleikum á því svæði og ég býst við að það verði ekki langt þangað til þeir verða tilbúnir. Ég tel ákaflega mikinn feng að þannig hefur verið unnið að málum á vegum Landsvirkjunar og vissulega lofsvert. Hitt er svo allt annað mál, að það er ríkisvaldsins að taka ákvörðun um í hvaða röð eigi að ráðast í þessar framkvæmdir.

Það kemur fram, eins og hv. þm.. gat um, í erindi formanns Landsvirkjunar á fundi Sambands ísl. rafveitna að Hrauneyjarfoss muni senn tilbúinn til útboðs. Það er svo að sjálfsögðu ákvörðun stjórnvaldanna að ákveða hvort ráðist skuli nú á næstunni í virkjun Hrauneyjarfoss og hver röð þessara möguleika eigi að verða. Það væri vissulega æskilegt ef aðrir virkjunarmöguleikar, bæði á Norðurlandi, Austurlandi og víðar, væru svo langt komnir að því er rannsókn og hönnun snertir að við gætum þegar í stað tekið ákvörðun. En ég vil taka það fram út af því, sem hv. þm. vitnaði í ræðu formanns Landsvirkjunar, að þar kemur aðeins fram að landsvirkjunarstjórn hefur unnið á þennan veg að undirbúningi mála.

Ég hef svo ekki að öðru leyti við það að bæta sem ég sagði áðan. En ég vil aðeins endurtaka að ég tel nauðsynlegt, að áður en þetta ár er á enda runnið verði tekin ákvörðun um stórvirkjun á Norðurlandi. Ég tel að slík ákvörðun verði að koma áður eða ekki síðar en um leið og tekin yrði ákvörðun um Hrauneyjarfoss.