20.11.1974
Neðri deild: 9. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

47. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Flm. (Þór Vigfússon):

Hæstv. forseti. Nú sem fyrr er töluvert rætt um íslenskan landbúnað, stöðu hans í þjóðfélaginu, arðsemi, búskapar- og framtíðarmöguleika. Sýnist sitt hverjum og ýmsar skoðanir á lofti. Er það vel að slíkt sé rætt.

Frv. það, sem nú er til umr. og ég hef leyft mér að leggja fram ásamt hv. 2. þm. Austf., er langt frá því að vera róttækasta till. í þessari almennu umr. Það felur ekki í sér neinar róttækar breytingar á stöðu landbúnaðarins, heldur aðeins nokkra bót á aðstöðu allmargra bænda, bót sem við flm. teljum að sé raunhæf og möguleg við þær framleiðslu- og stjórnmálaaðstæður sem bændur og reyndar allir landsmenn búa við um þessar mundir. Þetta frv. er t.a.m. langt frá því að nálgast þá róttækni og þann byltingarhug í garð bænda sem komið hefur fram í öðru aðalmálgagni stærsta stjórnmálaflokks þjóðarinnar, forustuflokks ríkisstj. Þar hefur oftar en einu sinni í þessum mánuði verið lagt til að verja stórfé — og tilnefnd ein millj. kr. á hvern alvörubónda — til að leggja niður búskap í landinu. Ég hygg að hv. alþm. ættu ekki auðvelt með að koma sér saman um að fremja svo róttækar breytingar á kjörum bænda, jafnvel þótt hugmyndin komi frá mönnum sem hingað til hafa ekki viljað láta kalla sig byltingarsinna. En þeim mun meiri von hef ég um að hv. alþm. geti náð samstöðu um þá breytingu, er frv. felur í sér, sem hún er hógværari og hæverskari en áður greindar hugmyndir og það jafnvel þótt við flm. séum stundum kallaðir byltingarseggir.

Frv. þetta á þskj. 50 stefnir að breyt. á l. nr. 68 frá 1973, um breyt á l. nr. 45/1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum. Eins og segir í grg. með frv. eru tildrög þess þau að stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins ákvað í lok okt. s.l. — eða öllu heldur meiri hl. stjórnar Stofnlánadeildarinnar gegn atkv. Alþb. — og hefur sú ákvörðun hlotið staðfestingu hæstv. landbrh. að lán úr Stofnlánadeildinni til íbúðabygginga bænda skuli vera verðtryggð að 3/10 hlutum, og eru það nýmæli. Ákvörðun stjórnar Stofnlánadeildarinnar tók að vísu til fleiri lána en íbúðarlána, en frv. er takmarkað við að íbúðarlán til bænda skuli ekki vera verðtryggð.

Nú tel ég viðbúið að upp komi sú mótbára gegn þessu frv. að með því sé verið að hygla ákveðnum hópi í þjóðfélaginu á kostnað annarra, en hið rétta sé að allir sitji við sama borð. Því vil ég svara til svo að menn geti setið við sama borð, en þó mjög mislangt frá því. Þótt fólk í afskekktum sveitum hafi allan formlegan lagalegan rétt á við þéttbýlisbúa til að njóta samfélagslegrar þjónustu, þá er oft langt í frá að aðstaðan til þess sé hin sama. Ég nefni aðstöðuna til þess að sækja framhaldsskóla, svo að dæmi sé tekið. Enginn bannar sveitafólki að sækja framhaldsskóla, en það er ekki alltaf einfalt að gera það. Þetta eru engin ný sannindi, enda margviðurkennt af hv. Alþ. Það hefur t.a.m. samþ. lög til að jafna svona aðstöðumun, bæði um beinan fjárstyrk, keyrslu í skóla o.fl.

Það er í þetta ljós, í þetta samhengi, sem ég vil setja frv. þetta. Í þéttbýli er alltaf hægt að selja íbúðarhúsnæði á hvaða byggingarstigi sem er og endursöluverð íbúða þar fer hækkandi til jafns við tilkostnað. Þessarar markaðsaðstöðu njóta bændur alls ekki. Þeim er enginn kostur að selja íbúðarhús sín út af fyrir sig. Það geta þeir því aðeins að þeir selji allt sitt og taki sig upp af bújörð sinni, og sá möguleiki er reyndar ekki alltaf gefinn, nema þá að jarðirnar seljist til annars en búskapar, eins og dæmi sanna, þar sem um sérstök hlunnindi er að ræða eða í grennd við þéttbýli. Öðruvísi horfir málið hvað snertir bændur, svo að ég tali nú ekki um fátæka bændur, í afskekktum byggðarlögum. Þeim er í flestum tilfellum mikið átak að hefja íbúðarbyggingu og þarf ekki annað til að koma en erfitt árferði eða veikindi svo að framhaldið verði mjög erfitt og enginn fasteignamarkaður til bjargar. Því finnst mér eðlilegt að bændum sé að þessu leyti haldið utan verðtryggingarkerfisins þótt það sé við lýði þar sem markaðsaðstaða fasteignanna er fyrir hendi.

Eins og ég drap á áðan er á hv. Alþ. almennur skilningur á því, það er líka minn skilningur í fullum mæli, að með lagasetningu þurfi að treysta byggð í sveitum landsins, eins og segir í 1. gr. 1. um Stofnlánadeild landbúnaðarins, hvort sem hv. alþm. eru sammála um einstakar ráðstafanir í þá átt eður ei. En um margt hefur náðst samstaða. Það er t.a.m. verið að vinna að Inndjúps-áætlun til að efla byggðarlögin við Ísafjarðardjúp. Farið er að tala um Vatnsnesáætlun, og búast má við frekari aðgerðum vegna einstakra afskekktra byggðarlaga. Mér finnst því skjóta skökku við ef hv. Alþ.lætur sér úr greipum ganga það tækifæri, sem þetta frv. býður upp á til að stefna í sömu átt, og það eins þótt finna megi einhver formleg rök á móti. Nú er auðvitað hægt að benda á það að til þess að geta lánað til íbúðarbygginga þurfi Stofnlánadeild landbúnaðarins að taka verðtryggð lán og standa skil af þeim þannig fyrir sitt leyti. Það er auðvitað alveg rétt og þessu verður að mæta. En ég ætla ekki að vera með neina fjármálalega spádóma á þessu stigi máls, t.a.m. um væntanlegan vöxt verðbólgunnar sem auðvitað skiptir meginmáli í þessu sambandi. Ég vænti þess að sú n., sem frv. fær til umfjöllunar, hugi þar grannt að. En ég leyfi mér að halda því fram að þetta frv. skapi ríkisvaldinu engan stóran vanda ef fram nær að ganga.

Hæstv. forseti. Ég legg á það megináherslu sem rök fyrir þessu frv. að með því er stefnt að því að jafna aðstöðumun dreifbýlis og þéttbýlis og gengur það þannig í sömu átt og margvísleg önnur viðleitni Alþ., og það er í samræmi við stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstj. um byggðamál. Á hinn bóginn er hér ekki um mikinn kostnað að ræða af hálfu ríkisvaldsins öðlist frv. samþykki hv. þdm., þótt um muni fyrir byggjandi bændur.

Ég legg til að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og landbn.