12.03.1975
Neðri deild: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2375 í B-deild Alþingistíðinda. (1873)

172. mál, endurskipulagning utanríkiþjónustunnar

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Það verður að segjast eins og er, að hægt hefur gengið að framkvæma það stefnuskráratriði fyrrv. ríkisstj. að endurskoða og endurskipuleggja utanríkisþjónustu landsins. Ég vil þó upplýsa í tilefni af fsp. hv. 3. þm. Reykv., eins og hann raunar gat um sjálfur að á sínum tíma óskaði ég eftir till. og grg. frá Pétri Eggerz sendiherra og frá sendiherrum Íslands erlendis um endurskipulagningu utanríkisþjónustunnar og staðsetningu sendiráða. Einnig tók Ólafur Ragnar Grímsson prófessor að sér að kanna sérstaklega á hvern hátt utanríkisþjónustan gæti orðið útflutningsatvinnuvegunum að sem mestu liði.

Greinargerðir ofangreindra aðila hafa nú verið til athugunar í utanrrn. í nokkra mánuði og nú ætla ég mér að biðja utanrmn. að tilnefna menn úr n. til að vera til ráðuneytis við frekari könnun grg. Ég hef þegar rætt það við formann utanrmn. sem hefur tekið erindinu vel. Ég vona því að nokkur skriður geti komist á mál þetta nú, en of snemmt er að segja til um það hver verða meginatriði hinnar umræddu endurskoðunar.

Þetta verður að vera svar mitt í dag. En ég þakka hv. 3. þm. Reykv. þann áhuga sem hann hefur sýnt þessu máli með þessari fsp. Það er vissulega rétt að ég hef hug á því að endurskipuleggja nokkuð utanríkisþjónustuna en því miður hefur mér reynst erfiðara að gera mér grein fyrir því, hvernig það skyldi gert, heldur en ég áleit í upphafi þegar ég kom að þessum málum öllu ókunnugur. En ég sem sagt vona að innan tíðar geti slíkar breytingar séð dagsins ljós.

Ég er algerlega sammála hv. 3. þm. Reykv. um að það er ekki vansalaust og raunar ófært fyrir íslendinga að hafa ekki sendiráð í stórum hlutum heims eins og nú er komið málum, eins og við þurfum að hafa mikla samvinnu við þau ríki sem í þeim álfum búa sem hann áðan nefndi. Ég hef gert örlitla tilraun til þess að fá að opna sendiráð í Asíu og Afríku, ég hef lagt inn beiðnir til fjárveitingavaldsins um að stofnuð yrði sendiráð í Asíu og Afríku, og það hefur komið til tals að stofna sendiráð í Kanada. En öllum þessum beiðnum utanrrn. hefur verið hafnað og fjárhagsástæðum borið við.

Ég hygg að það sé út af fyrir sig rétt, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, að sendiráð okkar séu of samanþjöppuð á litlum bletti jarðkringlunnar. Ég get fallist á það. En reynslan hefur sýnt að þegar mönnum datt í hug að leggja niður þau sendiráð, sem fyrir eru og starfrækt hafa verið að undanförnu, þá hefur það reynst erfitt og mætti mikilli mótspyrnu í viðkomandi landi. Þess er skemmst að minnast, að á sínum tíma ætlaði viðreisnarstjórnin sér að leggja niður sendiráðið í Osló. Þá komu mjög ákveðin viðbrögð frá norðmönnum og mótmæli gegn því að slíkt yrði gert og það talið móðgun við norsku þjóðina, þessa frændþjóð okkar íslendinga.

Mér þykir leiðinlegt að standa hér og geta ekki gefið önnur svör við fsp. hv. 3. þm. Reykv. En það verður að segja hverja sögu eins og hún er, og þetta er sannleikur málsins sem ég hef nú sagt frá.