08.04.1975
Sameinað þing: 59. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2790 í B-deild Alþingistíðinda. (2109)

216. mál, vegáætlun 1974-1977

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er eðlilegt, þegar slíkt mál sem þetta sem nú er hér til umr. er á dagskrá, að hv. þm. þyki ástæða til þess að tjá sig um svo mikilsvert mál. En þar sem ég á sæti í þeirri n., sem kemur til með að fá þetta mál til umfjöllunar, þá skal ég ekki verða langorður við þessa umr., en tel þó ástæðu til að fara um þetta mál nokkrum orðum nú strax við 1. umr.

Það hlýtur að rifjast upp fyrir hv. þm., og ekki bara þm., heldur og almenningi í landinu, þegar þetta mál er nú til umr. að fyrir um ári var einmitt til umr. á hv. Alþ. vegáætlun, þá undir öðrum kringumstæðum en nú, þ. e. a. s. undir þeim kringumstæðum að ekki var fyrir hendi meiri hl. hér á Alþ. til þess að koma í framkvæmd þeim till. sem þá voru uppi að því er varðaði vegáætlun þeirrar ríkisstj. sem þá sat að völdum. Það hlýtur að rifjast upp fyrir hv. þm. og almenningi í landinu hver voru viðbrögð þáv. stjórnarandstæðinga og þá fyrst og fremst hv. þáv. þm. Sjálfstfl. Það var vikið að því hér áðan að foringi þeirra hv. þm. Sjálfstfl. þá, hv. 1. þm. Sunnl., ásamt öðrum þm. Sjálfstfl. í heild tekið taldi óverjandi að ætla að framkvæmra þann niðurskurð sem þá var gert ráð fyrir á framkvæmdum í vegamálum, en var þó miklum mun minni en sá sem núv. hæstv. ríkisstj. gerir ráð fyrir að því varðar þá vegáætlun sem nú er til umr. hér.

Það hefur verið vikið að því hér í umr. fyrr að eins og þessi áætlun nú liggur fyrir, þá er um að ræða stórfelldan niðurskurð á framkvæmdum í vegamálum ef þessi þáltill verður samþ. eins og hún nú liggur fyrir. Það er a. m. k. að mínu áliti um að ræða 40% niðurskurð að framkvæmdamagni miðað við árið 1974. Og það er kannske ekki nema eðlilegt að slík till. frá hæstv. ríkisstj. komi fram hér á Alþ. þegar hún hefur boðað sem stefnu sína á næstu mánuðum — kannske árum, — stórfelldan niðurskurð á öllum opinberum framkvæmdum í landinu, a. m. k. á árinu 1975. En það hlýtur að skjóta nokkuð skökku við og því hljóta landsmenn almennt að taka eftir og ekki síst þeir sem búa í hinum dreifðu byggðum, að á sama tíma og núv. stjórnar flokkar leggja til slíkan niðurskurð á verklegum framkvæmdum úti á landsbyggðinni er hér til meðferðar á Alþ. stjfrv. um að leggja fram úr ríkissjóði nokkra milljarða til framkvæmda í tengslum við erlenda aðila og á ég þar við járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði. Ég fyrir mitt leyti verð að segja það að mér óar slík stjórnarstefna eins og hér virðist vera í uppsiglingu, og hygg ég þó að allur almenningur í landinu hafi talið nóg að gert frá því að núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum.

Það er greinilegt á þessari vegáætlun og á orðum hæstv. samgrh., sem hann lét falla hér í framsögu fyrir þessu máli, að það á ekki að einskorða stórframkvæmdir á vegum hins opinbera bara við járnblendiverksmiðju í Hvalfirði eða á Vesturlandi. Það á einnig, eftir því sem hann viðhafði orð um og fram kemur í aths. með þessari þáltill., að bæta a. m. k. einum milljarðinum við til framkvæmda við brú yfir Borgarfjörð. Og meira, það á einnig eftir hans tali að hafa a. m. k. innan augsýnar brú yfir Ölfusárbrú nú í næstu framtíð. Og nr. tvö, sem talið er hvað brýnast í aths. með þessari þáltill., er að ljúka gerð vegarins milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Það er sem sagt nr. eitt, hvar sem lítið er á mál í framkvæmdum hjá núv. hæstv. ríkisstj., það er nr. eitt suðvesturhorn landsins, það landssvæði sem hefur haft hvað mestar framkvæmdir á sínum vegum sem fjármagnaðar eru af ríkisins hálfu á tiltölulega mörgum undanförnum árum. Það er alveg augljóst mál að það verða ekki bara Austfirðir, sem koma til með að verða fyrir barðinu á þeim niðurskurði sem hér er boðaður varðandi framkvæmdir í vegagerð á árunum 1975–1977. Það verða ekki bara Austfirðir, það verður svo til öll landsbyggðin sem verður látin blæða vegna þess stórkostlega niðurskurðar sem hér er boðaður.

Hæstv. samgrh. sagði áðan, þegar hann ræddi um brúna yfir Borgarfjörð, að fyrir nokkru hefði hún verið í arðsemisútreikningum talin gefa um 18%, nú væri þetta komið niður í um 11%. Ef menn á annað borð vilja hafa að leiðarljósi arðsemisútreikninga, þá væri sjálfsagt langbest að geyma þetta enn um sinn þangað til engin arðsemi væri orðin af þessari brúargerð. Það sýnist mér vera ljóst ef menn á annað borð hafa mikla trú á arðsemisútreikningum, sem ég vil a. m. k. gjalda varhuga við því að þar þarf að taka inn í ýmislegt sem er mikilvægt, en ekki tekið með.

Það var ýmislegt fleira, sem kom fram í máli hæstv. samgrh., sem ég ætla ekki að gera hér að umræðuefni. Það gefst sjálfsagt til þess tækifæri við umr. málsins síðar að ræða frekar um þetta, bæði hans mál og annað það sem fram kemur í þessari till. En það vekur athygli mína a. m. k. og ég vænti fleiri hv. þm. að í öllu orðaflóði hv. stjórnarliða um skort á fjármagni til framkvæmda er ekki, að því er ég best hef getað séð, — ég skal þó taka fram að ég hef ekki haft langan tíma til þess að kynna mér þessa áætlun, hún er tiltölulega nýlega komin fram, — en ég hef ekki komið auga á það að hæstv. ríkisstj. ætli að notfæra sér þann sjálfsagða tekjuöflunarmöguleika, sem ég tel vera, veggjaldið, vegskatturinn. Ég hef sagt það fyrr hér á Alþ. að ég tel það sjálfsagt mál og það sé full þörf á því, ekki síst í öllum þeim barlómi sem nú er uppi hafður varðandi fjármagnsskort, að slíkur tekjustofn sé nýttur. Það liggur fyrir í upplýsingum frá Vegagerðinni frá árinu 1972 að hefði verið haldið áfram að innheimta vegskatt á Reykjanesbrautinni og til viðbótar Suðurlandsveginum þegar hann komst í gagnið, þá hefði það gefið nettótekjur á árunum 1972–1976, miðað við það gjald, sem þar er lagt til grundvallar, nærri 163 millj. kr., — 163 millj. kr. á þessu 5 ára tímabili. Og enginn vafi er á því að hefði slíkt gjald fylgt þeim hækkunum, sem orðið hafa í þjóðfélaginu á þessum tíma, þá hefði þetta a. m. k. orðið um 250 millj. kr. á þessu tímabili og munar vissulega um það. Mér eru það mikil vonbrigði ef það er ekki ætlun núv. stjórnvalda að nýta þennan tekjustofn. Mér þykir það sjálfsagt með hliðsjón af því að ég tel sanngjarnt að þeir, sem eiga þess kost að njóta þeirra framkvæmda sem í því felast að geta ekið vegi eins og t. d. Reykjanesbrautina og veginn austur fyrir fjall með miklu minni tilkostnaði, sem látnir greiða fyrir það.

Vel má vera að þm. almennt séu orðnir afhuga þessari skattheimtu. Ég er það ekki, ég tel hana sjálfsagða, ekki síst miðað við það ástand sem nú er, þegar fyrir liggur að það á að skera um allt að 40% a. m. k. framkvæmdagetu í verklegum framkvæmdum við vegagerð á árinu 1975.

Mér kemur það sem sagt nokkuð illa og ég hygg að svo muni vera um fleiri þm. sem teljast til landsbyggðarinnar og eiga að verja hennar málstað, að það skuli í þessari þál till., sem hefur inni að halda svo stórkostlegan niðurskurð á framkvæmdum; sérstaklega tekið fram að leggja beri höfuðáherslu á og að brýnast verkefni sé að ráðast nú í framkvæmd eins og brúna yfir Borgarfjörð og veginn milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Það virðist ekki vera að hæstv. ráðh. eða stjórnarliðum almennt, — ég skal þó ekki um það fullyrða, — þyki neitt súrt í broti þó að skera eigi niður nauðsynlegar framkvæmdir í vegagerð víðs vegar í kringum landið, á stöðum sem eru miklu, miklu verr settir heldur en þeir staðir sem hér er verið að ræða um og talið er af hálfu hæstv. ríkisstj. að beri brýna nauðsyn til að hafa nr. eitt í framkvæmdaröð á yfirstandandi ári.

Ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram hjá ræðumönnum, að hér er um svo stórkostlegan niðurskurð að ræða að vart verður við unað. Verður að leita leiða til þess að afla fjár, meira fjár í Vegasjóð til framkvæmda heldur en hér er gert ráð fyrir. Og ég er um það viss að það eru engar leiðir lokaðar í lánsfjárútvegun í sambandi við fjármagn til Vegasjóðs. Hér er fyrst og fremst um að ræða markaðra stjórnarstefnu, niðurskurð, samdrátt, eins og hæstv. ráðh. hafa hver á fætur öðrum boðað, en ekki hitt, að það beri svo brýna lífsnauðsyn til að skerða þessar framkvæmdir sem eru nauðsynlegar víðs vegar í kringum land, að það sé ekki framkvæmanlegt vegna þess að ekki sé hægt að útvega fjármagn.

Ég vil taka undir það, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Austf. í sambandi við veginn norður og austur. Ég trúi því ekki að það hafi neinum þm. dottið það í hug þegar verið var að ræða um þá fjáröflunarleið sem þar er tilgreind að það ætti að taka úr þeim framkvæmdum sem verið væri almennt að fást við í .landinu í sambandi við vegagerð, það ætti að koma umfram, þær framkvæmdir ættu að vera umfram það almenna sem um væri talað. Og ég trúi því varla að það verði svo í reynd að þessar 500 millj., sem þarna er um rætt til Norður- og Austurvegar, verði teknar út úr þessu fjárhagsdæmi til þess að setja í slíkar framkvæmdir því að þótt þær séu út af fyrir sig nauðsynlegar þá eru þó aðrar framkvæmdir í öðrum landshlutum sem eru miklum mun brýnni og nauðsynlegri. Þó að mönnum þyki slæmir vegir á þessu svæði, þá eru þeir þó víða finnanlegir margfalt verri en þarna um ræðir. Og ef menn á annað borð vilja fara út í framkvæmdir af þessu tagi, sem ég skal ekkert andmæla út af fyrir sig, þá verður það fjármagn að koma umfram það sem ætlað er til hinna almennu vegaframkvæmda í landinu en ekki skerða þá framkvæmdagetu.

Hæstv. samgrh. minntist á Djúpveginn. Það er ekki aðeins Djúpvegurinn á Vestfjörðum, þegar menn vilja fara að tala um kjördæmi, — það er ekki aðeins hann sem er brýn nauðsyn á að hraða framkvæmdum við. Það eru ótalmargir aðrir vegir á Vestfjörðum sem er og hefur verið um nokkurra ára bil nauðsyn á að ljúka, sem byrjað er á, og einnig aðrir vegir sem nauðsynlegt er að hefja framkvæmdir við.

Að því er varðar Djúpveginn þá var hann hér til umr. ekki alls fyrir löngu, þ. e. a. s. hver leið yrði valin til tengingar á hinum við aðalvegakerfi landsins. Hæstv. samgrh, hallaðist, að því er mér skildist frekar, að Kollafjarðarheiði. Um þetta hafa engar ákvarðanir verið teknar. Ég vænti þess að innan stutts tíma liggi fyrir rannsóknir Vegagerðarinnar á þessum tveim leiðum, sem fyrst og fremst hafa verið til umr., þannig að það verði innan tíðar hægt að taka um það ákvörðun hvaða leið eigi að velja til þess að tengja Djúpveg við aðalakvegakerfi landsins. Hitt vil ég á minna út af því, sem hv. 2. þm. Austf. sagði hér og varðaði Austfirði, að það eru ótal staðir á Vestfjörðum sem eru innilokaðir 6, 7 og 8 mánuði á ári vegna þess að akvegasamband er ekki fyrir hendi. Og það eru þeir staðir sem við teljum að eigi að hafa forgang um framkvæmdir umfram aðra staði, Það sýnist mér ekki vera með þessum till. sem hér liggja fyrir. Ég vænti þess að á því fáist breyting, að hæstv. samgrh. verði a. m. k. til viðræðu um það og jafnvel beiti sér fyrir því að á þessu verði gerð breyting og umfram allt verði fundin leið til þess a. m. k. að draga úr þeim stórkostlega niðurskurði sem hér er boðaður á framkvæmdum við vegagerð á árinu 1975.