16.04.1975
Neðri deild: 67. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2986 í B-deild Alþingistíðinda. (2249)

130. mál, fóstureyðingar

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr. nú, fjallar um breytingar á 40 ára gamalli lagasetningu um leiðbeiningar um getnaðarvarnir og um fóstureyðingar. Sú lagasetning var mjög merkileg á sínum tíma og talsvert langt á undan sinni samtíð. Þá voru m. a. fóstureyðingar heimilaðar og eftir því sem mér er best kunnugt var þar um að ræða fyrstu löggjöf sem sett hefur verið þar sem heimilt er að taka tillit til félagslegra ástæðna í sambandi við fóstureyðingar. Það er raunar merkilegt út af fyrir sig að eins og viðhorfin voru hér á Íslandi árið 1935 þá skyldi slík löggjöf fást sett. Hitt er hins vegar ekki merkilegt þótt nú, 40 árum síðar, sé talin nauðsyn á að taka þau lög til endurskoðunar í ljósi reynslunnar sem af þeim hefur orðið, — m. a. í ljósi þess að hve miklu leyti þau hafa náð þeim tilgangi sem vakti fyrir höfundum þessarar löggjafar og vegna breyttra viðhorfa.

Meginefni l. frá 1935 er tvíþætt: annars vegar um fræðslu varðandi getnaðarvarnir, hins vegar um fóstureyðingar. Í því sambandi tel ég rétt að koma með innskot til að leiðrétta misskilning sem mér virðist vera ríkjandi í sambandi við frv. það, sem lagt var fram í fyrra, að með því sé verið að lögleiða fóstureyðingar á Íslandi. Þetta er alger misskilningur og megnasta vanþekking. Fóstureyðingar hafa verið löglegar á Íslandi í 40 ár. Þær voru lögleiddar með samþykkt l. nr. 38 frá 1935. Deilan nú stendur því ekki um hvort leyfa eigi fóstureyðingar á Íslandi, heldur um það eitt hversu mikið eigi að meta vilja þeirrar konu sem ber fóstrið undir belti, hvort ástæða sé til þess að ætla að kona, sem orðið hefur ófrísk, sé dómbær um aðstöðu sína til að eiga barn og ala það upp eða hvort opinbert og þá væntanlega óþungað vottorðavald þurfi og eigi að hafa vit fyrir henni. Almenna reglan í okkar þjóðfélagi er sú að hver heilbrigður og sjálfum sér ráðandi einstaklingur eigi að hafa vit fyrir sér sjálfur. Spurningin er hvort þungun sé sjúkdómur eða áfall af því tagi sem skerði hæfi konu til þess arna í þeim mæli að opinbert vottorðavald þurfi að svipta hana sjálfræði um hvort hún telji sér unnt að ala barn, framfleyta því og ala það upp. Hinni siðferðilegu spurningu um hvort leyfa eigi eyðingu fósturs eða ekki hefur þegar verið svarað. Henni var svarað fyrir 40 árum, og hvorug sú till., sem hér liggur fyrir til umr., gerir ráð fyrir því að þeirri niðurstöðu verði breytt.

En víkjum aftur að löggjöfinni frá 1935 sem, eins og ég sagði áðan, skiptist í tvo meginkafla: um fræðslu um getnaðarvarnir og um heimildir til fóstureyðinga. Í fyrsta lagi er rétt að kanna, og það hefur ekki komið fram í þessum umr. áður, a. m. k. ekki svo að ég hafi heyrt, hvað raunverulega vakti fyrir þeim, sem þessa löggjöf sömdu, og í öðru lagi hvernig og hvort hún hafi þjónað þeim tilgangi sínum. Þá er einnig einkar lærdómsríkt að kynna sér þær umr, sem fram fóru á Alþ. um þessa löggjöf. Staðreyndin er nefnilega sú, að deilurnar um það fyrir 40 árum voru með svipuðum hætti og nú gerist um sama mál. Meginkjarni þeirrar deilu var þá alveg eins og nú um að hve miklu leyti þjóðfélagið vildi viðurkenna rétt konunnar til þess í fyrsta lagi að njóta fræðslu og leiðbeininga um kynferðismál og getnaðarvarnir og í öðru lagi að hve miklu leyti þjóðfélagið vildi viðurkenna hæfni konunnar til þess að meta og vega sínar eigin aðstæður. Það er einkar athyglisvert í þessu sambandi að fyrir 40 árum voru deilurnar fyrst og fremst um það að hve miklu leyti konunni væri treystandi til þess að móttaka fræðslu um getnað og barneignir, og þær röksemdir, sem færðar voru gegn því fyrir 40 árum að konan væri andlega fær til þess að meta það sjálf hvort hún hefði þörf fyrir slíka fræðslu, þær hinar sömu röksemdir eru nú notaðar fyrir því að kona sé ekki andlega hæf til þess að dæma um það sjálf hvort aðstæðurnar leyfi henni að eignast barn og ala það upp. Röksemdirnar eru hinar sömu nú og þá, nema hvað þar sem rætt var um getnaðarvarnir á árunum 1934 og 1935 er nú rætt um fóstureyðingar.

Meginþráðurinn í l. frá 1935, þeim l. sem enn gilda lítið breytt í þessu efni, er að konan fái að ráða því sem mest sjálf hvort hún eignast barn. Haraldur Guðmundsson atvmrh., sem mælti fyrir þessu frv. á þingi, lýsti því þannig í ræðu á fundi Ed. Alþ. hinn 14. nóv. 1934 að með frv. væri verið að viðurkenna þann tvímælalausa rétt konunnar að ráða því sjálf hvort hún yrði barnshafandi eða ekki. Þessi réttur er konunni fenginn í þessu frv. — núgildandi l. — með tvennum hætti: í fyrsta lagi með því að gera læknum skylt, ég legg áherslu á: skylt, ekki heimilt, að veita konum fræðslu um getnaðarvarnir æski þær þess sjálfar. Það er meginkjarni laganna frá 1935 með nákvæmlega sama hætti og I. kafli þess frv., sem hér er til umr , er meginatriði þess.

Í öðru lagi er í gildandi l., frv. frá 1935, undantekningarákvæði frá þeirri meginreglu að kona, sem ekki vill eða telur sig ekki geta eignast og alið upp barn, skuli gera það með vörn gegn getnaði og eigi kost á að fá fræðslu þar um. Í l. frá 1935 eru þessi undantekningarákvæði fólgin í því að heimila fóstureyðingu undir ákveðnum kringumstæðum þar sem m. a. er tekið tillit til félagslegra aðstæðna. Í grg. með frv. frá 1934 er vakin sérstök athygli á því að félagslegar ástæður varði ekki síður heilsufarslega hæfni konu til þess að eignast og ala upp börn en líkamlegir ágallar einir saman. Þar er sagt berum orðum að félagslegar ástæður séu í raun ekkert síður heilsufarslegt atriði en líkamsstyrkur eða andleg heill konunnar. Þar er sagt að mjög erfitt sé að skilja þar á milli þannig að fóstureyðing vegna félagslegra ástæðna sé í raun fóstureyðing vegna heilsufarslegra ástæðna.

Hv. 5. þm. Vestf. sagði fyrr í dag að hann væri alfarið á móti því að taka mætti tillit til félagslegra ástæðna móður í sambandi við veitingu heimildar til fóstureyðinga. Hann telur sem sé ekki ástæðu til þess að taka tillit í því sambandi til atriða svo sem eins og ómegðar, drykkjuskapar, eiturlyfjaneyslu, fátæktar og annars slíks þótt ljóst sé og mönnum hafi verið ljóst fyrir 40 árum að slíkt valdi ekki síður vanheili heimilisins sem uppeldisstofnunar en líkamlegur sjúkleiki móður. Með þessari afstöðu vill hv. þm. Karvel Pálmason hverfa meira en 40 ár aftur í tímann. Og það er mér alger ráðgáta hvað veldur því að þessi hv. þm. telur nú brýna nauðsyn bera til þess að hverfa aftur til þess tíma sem var áður en hann komst til vits og ára.

Það er ljóst að meginkjarni gildandi l. er sá að viðurkenna í reynd sjálfsákvörðunarrétt konunnar til barneigna með því í fyrsta lagi að veita fræðslu til að fyrirbyggja getnað, í öðru lagi veita heimildir til fóstureyðinga ef af getnaði hefur orðið. En hver er reynslan af þessari lagasetningu? Hafa núgildandi lög getað þjónað þeim tilgangi sem ég áðan lýsti að hefði verið markmið þeirra manna sem að þessari lagasetningu stóðu? Í fyrsta lagi held ég að það vefjist ekki fyrir neinum að sú fræðsla um kynferðismál, sem gert er ráð fyrir í l. að veitt sé, hefur verið og er allsendis ófullnægjandi. Þróunin er sú að sífellt yngri konur verða mæður og flestar þeirra hafa litla sem enga fræðslu fengið um getnaðarvarnir og kynlíf nema þá frá félögum sínum með óeðlilegum og pukursfullum hætti. Það meginatriði l. frá 1935 að kona, sem ekki vill eignast barn, geti fyrirbyggt það með getnaðarvörnum að fengnum upplýsingum og fræðslu um kynlíf og barneignir hefur því ekki náð tilgangi sínum. Fræðsluna hefur skort, þekkingunni hefur verið ábótavant. Í ljósi reynslunnar er því eðlilegt að meginatriði þess máls að konur ráði sjálfar um barneign sína sé nú endurskoðað eins og verið er að gera með 1. kafla þess frv. sem hér er til umr. Ég legg áherslu á það eins og aðrir hv. þm. að góður vilji enga gerir stoð, góð lagasetning nær ákaflega skammt ef ekki fylgir góðum vilja Alþ. góður vilji framkvæmdavalds og fjárveitingavalds.

Reynslan af þessum þætti hinnar 40 ára gömlu löggjafar ásamt þeim nýju aðstæðum, sem orðið hafa, hafa því gert það nauðsynlegt að meginþáttur þessara laga um þungunarvarnir sé endurskoðaður. Um það er enginn ágreiningur hjá hv. þm. Spurningin er því einfaldlega sú hvort reynslan og nýjar aðstæður hafi ekki einnig gert tímabært að endurskoða undantekningarákvæði sömu l., ákvæðin um fóstureyðingar. Ég tel að svo sé. Ég tel reynsluna hafa leitt í ljós í fyrsta lagi að gildandi lög hafa ekki getað komið í veg fyrir þann óeðlilega og óæskilega hátt sem hafður hefur verið á þeim málum og þau áttu að útrýma. Í annan stað sýnir reynslan okkur að löggjöfin er yfirleitt túlkuð mjög þröngt þannig að jafnvel konum, sem af heilsufarsástæðum sjálfra sín eða líklegu heilsufarsástandi fóstursins hafa óskað fóstureyðingar, hefur verið neitað, og má í því sambandi nefna nýlegt og mjög átakanlegt dæmi sem ég hygg að sé á vitorði flestra hv. þm. Þar sem l. ern túlkuð svo þröngt varðandi hreinar heilsufarsástæður má nærri geta hvernig litið hefur verið á félagslegar aðstæður, enda mörg dæmi um hvernig þar hefur verið gengið á snið við hinn raunverulega vilja þeirra sem stóðu að setningu gildandi 1. eins og hann kom m. a. fram í umr. um málið á Alþ. fyrir 40 árum. Í þriðja lagi eru svo nýjar aðstæður komnar sem m. a. gera konum fært að leita slíkrar aðgerðar í nálægum löndum hafi neitun komið héðan. Þessar nýju aðstæður gera það að verkum að það getur farið eftir fjárhagsástæðum konunnar hvort eigið mat hennar á aðstöðu sinni til að eiga barn og ala það upp er látið gilda eða mat hins íslenska vottorðavalds.

Hinn 6. mars árið 1933 ritaði þáv. landlæknir yfir Íslandi, Vilmundur Jónsson, sem einnig var höfundur frv. um þungunarvarnir og fóstureyðingar sem lögfest var 1935, Læknafélagi Íslands bréf þar sem hann ræddi m. a. um hvers vegna nauðsynlegt væri að setja löggjöf sem heimilaði fóstureyðingar. Ástandinu, sem Vilmundur Jónsson telur brýna þörf á að bæta úr með slíkri löggjöf, lýsir hann svo í þessu bréfi, með leyfi hæstv. forseta. Hann segir svo:

„Vek ég athygli Læknafélagsins á eftirfarandi atriðum, þ. e. a. s. atriðum, sem gera það knýjandi nauðsyn að setja lög, sem heimili fóstureyðingar:

1. Einn læknirinn neitar að vinna það læknisverk og telur til glæpaverka, sem annar framkvæmir viðstöðulaust.

2. Aðgerðirnar fara a. m. k. stundum fram í pukri eins og óbótaverk, og ef þar bætast við blygðunarlausar kröfur um gjald fyrir má fara nærri um hvert álit stéttin skapar sér með slíku framferði.

3. Heilsu og jafnvel lífi þeirra kvenna, er þessara aðgerða leita, er a. m. k. stundum stefnt í voða.

4. Ósanngjarn og þjóðfélaginu skaðlegur aðstöðumunur fátækra og ríkra, sem þessarar hjálpar leita.“

Það eru þessi fjögur atriði sem þáv. landlæknir notar sem rökstuðning fyrir því fyrir 40 árum að brýna nauðsyn beri til að setja löggjöf er heimili fóstureyðingar. En ég spyr: Er þetta ástand ekki lengur fyrir hendi? Er hér verið að lýsa ástandi sem íslendingar þekkja ekki lengur, kannast ekki lengur við? Hafa lögin, sem sett voru fyrir 40 árum, megnað að bæta það, og hafa nýjar aðstæður, sem skapast hafa í þjóðfélaginu, ekki stuðlað að því að það héldist í raun óbreytt?

Við skulum víkja aftur að hverjum lið fyrir sig. Ég ætla ekki að fella sleggjudóma. Ég ætla að spyrja og biðja þm. að svara sjálfa í hugskoti sínu. Er þetta röng lýsing á ástandinu í dag:

Einn læknirinn neitar að vinna það læknisverk og telur til glæpaverka sem annar læknir framkvæmir viðstöðulaust? Er þetta 40 ára gömul lýsing sem ekki heyrir nútímanum lengur til?

Aðgerðirnar fara a. m. k. stundum fram í pukri eins og óbótaverk, og ef þar við bætast blygðunarlausar kröfur um gjald fyrir, má fara nærri um, hvert álit stéttin skapar sér með slíku framferði. Á þessi lýsing ekki heldur lengur við?

Heilsu og jafnvel lífi þeirra kvenna, er þessara aðgerða leita, er a. m. k. stundum stefnt í voða. Á þessi lýsing ekki heldur við nútímann sem við lífum í?

Ósanngjarn og þjóðfélaginu skaðlegur aðstöðumunur fátækra og ríkra, sem þessarar hjálpar leita. Er ekki staðreyndin sú að við stöndum nú m. a. vegna breyttra aðstæðna í sömu sporum að miklu leyti eins og menn stóðu í fyrir setningu l. frá 1935?

Ef nauðsyn hefur verið að bæta úr þessu ástandi m. a. með þeim leiðum sem lagt er til að gert verði í þessu frv., er ekki sama nauðsynin fyrir hendi nú í dag þegar aðstæðurnar eru svipaðar og jafnvel um sumt enn þá verri? Vilmundi Jónssyni, höfundi þess frv., sem hér um ræðir, gildandi laga, sem áttu að ráða hót á því ástandi sem svona var lýst, var það einnig ljóst þegar hann samdi þetta frv. fyrir röskum 40 árum að svo kynni að vera að það yrði þess ekki umkomið að ráða bót á þessu ástandi sem hér er lýst. Þess vegna segir hann svo orðrétt í grg. með frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Nú vil ég taka fram til að koma í veg fyrir misskilning að persónulega lít ég mjög frjálslega á þetta mál. Mundi ég fyrir mitt leyti jafnvel geta fallist á þá löggjöf um fóstureyðingar, er þeir heimta, sem lengst vilja ganga og láta konur með öllu sjálfráðar um, hvort þær vilja verða mæður eða ekki, enda yrðu þá settar hagkvæmar reglur þar að lútandi til tryggingar sómasamlegri framkvæmd þeirrar löggjafar.“

Þetta sagði landlæknirinn yfir Íslandi fyrir 40 árum. Hann er höfundur núgildandi l. um þungunarvarnir og fóstureyðingar, og honum var það ljóst þegar er hann samdi þessi lög að m. a. vegna nýrra aðstæðna, sem áður hefur verið lýst, og vegna þeirrar framkvæmdar, sem uppi hefur verið höfð, kynni svo að fara að lög þessi gætu ekki bætt úr því ástandi sem hann taldi nauðsynlegt að bæta úr og því lýsti hann því yfir sem sinni skoðun í grg. með frv. að hann væri í rauninni fús til þess að fallast á sömu lausn og minni hl. heilbr.- og trn. nú leggur til að farin verði, sem sé að láta konur með öllu sjálfráðar um hvort þær vilji verða mæður eða ekki, enda verði settar hagkvæmar reglur þar að lútandi til tryggingar sómasamlegri framkvæmd slíkra laga.

Þótt deila megi um einstök orð eða framsetningarmáta í umræddri brtt. hv. minni hl. heilbr.- og trn., hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar, þá tel ég að reynslan hafi kennt okkur og nýjar aðstæður hafi gert það að verkum að við hljótum að verða að fallast á þá niðurstöðu að í þeim undantekningartilvíkum, þegar kona hefur orðið þunguð gegn vilja sínum, þá ráði hennar eigið mat á högum sínum og aðstæðum úrslitum um hvort hún elur barnið, en opinbert vottorðavald eigi ekki að hafa síðasta orðið um þau mál, vottorðavald sem engum skyldum hefur síðan að gegna, hvorki móðurina né barnið. Því fráleitara er þetta þegar tekið er tillit til þess að hafi konan yfir nægu fé að ráða getur hún sniðgengið þetta vottorðavald og þar með íslensk lög, þar sem hins vegar kona, sem ekki nýtur slíkra forréttinda, verður að sætta sig við úrskurði um eigin hagi þvert gegn sannfæringu sinni og gegn því sem hún sjálf veit sannast og réttast. Að sjálfsögðu verður að setja hagkvæmar reglur þar að lútandi til tryggingar sómasamlegri framkvæmd slíkra laga, eins og Vilmundur Jónsson komst að orði, en það tel ég að gert sé í brtt. minni hl. heilbr.- og trn.

Ég sagði í upphafi ræðu minnar að það hefði vakið athygli mína við lestur umr. frá 1934 og 1935 hversu þær röksemdir, sem þá voru færðar gegn því að konum væri veitt fræðsla um kynlíf, barneignir og getnaðarvarnir, væru einkar áþekkar þeim sem nú eru notaðar gegn því að konum sjálfum sé treystandi til þess að meta hvort þær séu þess umkomnar að ala börn. Þær röksemdir, sem fram voru færðar gegn því að konur yrðu aðnjótandi fræðslu um getnaðarvarnir árið 1935, þykir okkur nú við lestur þeirra umr. fráleitar og jafnvel hlægilega fjarstæðukenndar. Þó er það staðreynd að þessar sömu röksemdir eru nú notaðar óbreyttar að öllu öðru leyti en því að þar sem rætt var um fræðslu um getnaðarvarnir árið 1935 og getnaðarvarnirnar sjálfar er nú talað um fóstureyðingar.

Árið 1935 var mikið rætt um siðfræði þess að konur fengju ekki aðeins að ráða því sjálfar hvort þær vildu verða þungaðar heldur var einnig deilt hart um hvort það væri siðlegt að konur fengju eitthvað að vita frá ábyrgum aðilum um hvernig getnaður ætti sér stað og hvernig mætti koma í veg fyrir hann. Og þá skorti ekki heldur frekar en nú ábendingar frá ýmsum aðilum í þjóðfélaginu, svo sem Læknafélagi Íslands, um hvaða ógn það mundi hafa í för með sér ef vottorðavaldið ætti ekki að hafa síðasta orðið um hvort kona væri fær um að meðtaka fræðslu um getnaðarvarnir eða ekki. Ég kem að því síðar í máli mínu.

Í umr. fyrir 40 árum var mikið um það fjasað í sölum Alþ. hvílík ósköp mundu dynja yfir þessa þjóð ef konur öðluðust rétt til þess að fá leiðbeiningar um hvernig mætti koma í veg fyrir barnsgetnað. Lýsingarnar á því hvernig þá yrði umhorfs í landinu minna helst á lýsingarnar á mannlífinu í Sódómu og Gómorru og beinlínis gefið í skyn að ef konum yrði veittur sá réttur að geta leitað til læknis um fræðslu um getnaðarvarnir mundi syndaflóðið færa allt Ísland í kaf, ef mannauðn vegna stöðvunar barnsfæðinga yrði þá ekki fyrri til. Lausung, spilling og hvers kyns siðferðileg upplausn mundi tröllríða þjóðinni vegna þess að konum væri ekki treystandi til þess að umgangast þennan sinn nýja rétt, að fá að vita hvernig börn yrðu til og hvernig mætti koma í veg fyrir það að börn yrðu til, nema ósköp yfir dyndu. Við skulum bera niður í nokkrum ummælum hv. þm. frá þessum árum og hafa það þá um leið hugfast að þar eru þeir að ræða um atriði núgildandi laga, sem heimilar konum að leita sér fræðslu um getnaðarvarnir hjá lækni sínum. En við skulum líka bera það í minni að þessi ummæli gætu allt eins verið tekin úr ræðum þeirra sem nú hafa hvað hæst um að konum sé ekki treystandi til þess að kunna sjálfar að meta aðstæður sínar varðandi barneignir.

Hinn 20. okt. 1934 sagði Magnús Torfason alþm. svo um rétt konunnar til að hljóta fræðslu um getnaðarvarnir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég tel ekki rétt að skylda lækna til þess að gefa slíkar leiðbeiningar og þykir jafnvel vafasamt að það sé unnt. Ég vil ekki láta lögleiða slíka leiðbeiningaskyldu hér, síst þar sem grg. frv. bendir til þess að slík skylda tíðkist hvergi í Guðs kristni. Ég er ekki í neinum vafa um, að lögleiðing slíks ákvæðis sem þessa mundi leiða til stórkostlega mikilla skemmda á þeim hluta mannkynsins, sem hér á hlut að máli, og jafnvel hinum líka“, — þ. e. a. s. bæði karlþjóð og kvenpeningi. „Ég er í engum vafa um, að kynsjúkdómar mundu aukast stórkostlega, ef þetta væri í lög leiti, og ég vil sérstaklega benda á það, að sveitirnar eru algerlega varnarlausar gegn þeim vágesti.“

En nú leyfi ég mér að spyrja: Kannast einhver við áþekkar röksemdir og þessar úr þeim umr. sem fram hafa farið bæði hér á Alþ. og úti meðal þjóðarinnar um þau mál sem hér liggja fyrir?

Við skulum halda eilítið áfram. Í ræðu í Ed. Alþ. hinn 14. nóv. 1934 sagði Guðrún Lárusdóttir, einn helsti andstæðingur þess að konum væri skýrt frá því hvernig börn yrðu til. m. a. á þessa lund um að konum væri veitt fræðsla um notkun getnaðarvarna, — tilvitnunin er svo, með leyfi forseta:

,,Ég vil víkja nokkrum orðum að þeirri hættu sem í þessu ákvæði felst. Hugsum okkur að í Reykjavík yrði sett upp leiðbeiningastöð um þessi efni sem gæfi konum og þá væntanlega körlum líka upplýsingar um hvernig ætti að beita getnaðarvörnum.“ — Hugsið ykkur annað eins! — „Ég vil þá spyrja hv. þm. í fyllstu alvöru, hvort þeir séu ekki smeykir við að lausung og sjúkdómahætta aukist af þessum ósköpum.“

Það var sem sé hámark alls hins versta sem yfir þjóð vora og fósturland gat dunið ef sá voðalegi atburður gerðist að leiðbeiningastöð um kynlíf, barneignir og notkun getnaðarvarna yrði sett upp í Reykjavík. Nú veit ég ekki betur en slík stöð sé starfandi í höfuðborginni og hafi starfað þar um nokkurt árabil og ekki er syndaflóðið komið enn.

Síðar í sömu ræðu segir svo um þann rétt konu að geta aflað sér þekkingar á getnaðarvörnum og notað þær — og hlustið þið nú. Tilvitnunin hljóðar svo með leyfi hæstv. forseta:

„Oftast mun það vera svo, að á bak við þá konu, sem fer til læknis í þessum erindagerðum,“ og ég vil enn rifja upp að hér er ekki verið að tala um fóstureyðingar, heldur þær erindagerðir að fara til læknis til þess að fá upplýsingar um hvernig megi koma í veg fyrir barnsgetnað, — „oftast mun það vera svo, að á bak við hverja þá konu, sem fer til læknis í þessum erindagerðum stendur einhver karlmaðurinn, sem ýtir henni áfram, eða þá hún fer til þess að þurfa ekki að óttast afleiðingar þess spillingarlífernis, sem hún ætlar sér að lifa.“ Þarna liggur hættan falin. Af þessu má sjá að hér er um býsna alvarlegt atriði að ræða.

Það má vera að mönnum komi bros á vör þegar þeir lesa slíkar 40 ára gamlar röksemdir gegn því að veita konum fræðslu um getnaðarvarnir. En ég spyr: Eru þetta ekki því nær nákvæmlega sömu röksemdirnar og nú eru notaðar gegn því að veita konum rétt til þess að ákveða sjálfar hvort þær vilji ala börn? Og ég spyr: Skyldi ekki verða brosað að þeim eftir 40 ár með sama hætti og nú er brosað að þessum?

Ég drap á það hér áðan að árið 1934 hafi ekki skort umsagnir hinna svonefndu ábyrgu aðila þar sem þess var farið á leit að menn gaumgæfðu mjög vanhæfi kvenna til þess að meta það sjálfar — ekki hvort þær vildu láta framkvæma fóstureyðingu, heldur hvort þær teldu sig þess umkomnar að veita viðtöku fræðslu um takmörkun barneigna. Bandalag kvenna hafði sitt til málanna að leggja, Ljósmæðrafélag Íslands ekki síður og þá ekki hvað síst Læknafélag Íslands sem mér skilst að muni hafa skoðanir á þeim málum sem nú er deilt um.

En hvað hafði Læknafélag Íslands að segja um málin árið 1934? Þá gerði Læknafélagið mjög alvarlega aths. við 1. gr. þess frv. sem þá var verið að ræða um. Sú gr. fjallar um það að ef kona vegna sjúkleika eða af öðrum orsökum leitaði til læknis til fræðslu um getnaðarvarnir væri viðkomandi lækni skylt að veita þá fræðslu. Þetta gat Læknafélagið ekki sætt sig við. Það sendi frá sér umsögn þar sem eindregið er mælst til þess að skyldukvöðin yrði felld niður úr frv. Ég spyr: Hefur ekki þetta sama félag verið að ræða eitthvað um skyldukvöð nú? Þess í stað yrði læknum heimilað að veita konum slíka fræðslu að eigin mati. M. ö. o.: Læknafélag Íslands krafðist þess 1934 eins og það krefst þess 1974 að vottorðavaldið fengi að ráða því hvort kona, sem leitaði læknis til þess að fá upplýsingar um getnaðarvarnir, fengi undirtektir við ósk sína eða yrði rekin á dyr. Hún átti ekki að fá að ráða því sjálf hvort hún fengi þessar upplýsingar eða ekki. Vottorðavaldið skyldi hafa æðsta vald. Læknirinn skyldi meta hvort konan væri fær um að veita slíkum upplýsingum og slíkri fræðslu viðtöku eða ekkí. M. ö. o.: að áliti Læknafélagsins frá árinu 1935 var konunni ekki frekar treystandi til þess að meta þörf sína á þessari þekkingu þá en henni á að vera treystandi til þess nú að mela það sjálf án yfirdóms vottorðavaldsins hvort hún sér sér fært að ala barn og veita því sómasamlegt uppeldi. Þessi afskipti vottorðavaldsins fyrir 40 árum urðu til þess ásamt öðrum slíkum umsögnum frá svonefndum ábyrgum aðilum að sú furðulega brtt. fæddist við 1. gr. og var borin fram á þskj. 217 að ef kona, sem ósjúk væri, leitaði til læknisins um leiðbeiningar um þungunarvarnir, þá skyldi lækninum skylt að gefa ekki konunni, heldur eiginmanni hennar og barnsföður leiðbeiningar gegn barnsgetnaði. Það er víst þetta sem menn eiga við þegar rætt er um að skipa nefnd til þess að samræma hin ólíku sjónarmið, eins og hefur m. a. verið gert í sambandi við það mál sem hér er til umr. Afkvæmi slíkrar samræmingar að fengnum till. hinna ábyrgu aðila verður sem sé gjarnan eins og þessi makalausa málamiðlunartill. milli ákvæða frv. frá árinu 1935 um leiðbeiningar um þungunarvarnir og álits þeirra sem taldir voru geta gefið orðum sínum vigt í krafti sinnar sérþekkingar. Þannig má með samræmingunni ná fram niðurstöðum eins og þeirri sem að framan var lýst og svo geta menn deilt um það hvorir hafi náð merkilegri árangri, samræmingarnefndarmenn á því herrans ári 1975 eða samræmingarpostular þeir sem ætluðu hér að leysa úr deilunum árið 1935 um hvort kona ætti að fá aðgang að upplýsingum um getnaðarvarnir með því móti að lögleiða að ef kona óskaði slíkra upplýsinga hjá lækni sínum skyldi læknirinn senda hana heim, en kveðja til sín eiginmann hennar eða barnsföður blásaklausan og leiða hann svo í réttan sannleika sem konunni væri fyrirmunað að fá vitneskju um nema þá út frá því væri gengið að eiginmanninum væri laus tungan.

Mér hefur gerst nokkuð tíðrætt um lög um varnir gegn barneignum og um fóstureyðingar frá 1936 svo og þær umr. sem fram fóru ummálið á Alþ. fyrir tæpum 40 árum. Ástæðan er tvíþætt: Í fyrsta lagi vildi ég vekja athygli á því hvað fyrir lagasmiðunum vakti með setningu þessarar löggjafar, benda á að bæði reynslan af framkvæmd hennar svo og nýjar aðstæður í þjóðfélaginu hefðu orðið þess valdandi, að lögin náðu ekki tilgangi sínum, og rökstyðja þannig nauðsyn þess að taka nú til endurskoðunar ekki aðeins þann kafla þeirra sem fjallar um fræðslu um barneignir, heldur einnig þau undantekningarákvæði laganna sem lúta að fóstureyðingum og ófrjósemisaðgerðum.

Í annan stað vildi ég með því að vitna í umr. þær, sem fram fóru um málið fyrir 40 árum, vekja athygli hv. þm. á því hversu áþekkar þær umr. eru þeim sem nú fara fram um skyld mál. Ég vildi einkum og sér í lagi benda á þá staðreynd að þau rök, sem árið 1935 voru færð gegn því að konan öðlist rétt til þess að leita sér sjálf fræðslu um kynlíf og barneignir, eru nú færð fram að mestu eða öllu óbreytt gegn því að konan öðlist sjálf rétt til þess að meta aðstæður sínar til þess að eiga og ala upp barn sem getið hefur verið gegn vilja hennar. Meiri hl. Alþ. tók ekki þessar röksemdir gildar árið 1935 og þótt þeim sé nú beitt varðandi annað atriði í sjálfsákvörðunarrétti konunnar til þess að fæða börn, þá tel ég það eitt út af fyrir sig ekki breyta því að þær röksemdir eru a. m. k. í mínum huga jafnléttvægar og þær voru í vitund þeirra sem lög settu um varnir gegn barneignum og fóstureyðingum á því herrans ári 1935.

Ég ætla ekki að fara að lengja þessar umr. að óþörfu með því að endurtaka þær röksemdir sem færðar hafa verið fram með og móti till. um sjálfsákvörðunarrétt kvenna um fóstureyðingar, innan vissra takmarka þó því að vissulega er sá réttur töluvert takmarkaður eins og flm. till., hv. þm. Magnús Kjartansson, hefur lýst hér. Ég þarf ekki að taka það fram að ég styð þá till. Ef ég færi að rekja röksemdir frekar yrðu umr. að mestu endurtekningar á röksemdum sem allar eru þegar komnar fram. Þó get ég ekki látið hjá líða að minnast á örfá atriði, sum smávægileg, en önnur stærri.

Ég hef lýst því áður að ég styð till. heilbr.- og trn. um orðun I. kafla frv. um fræðslu um kynferðismál o. fl., sem ég tel meginefni þessa frv., svo og síðari kafla þess. Einnig þykir mér flest það, sem n. hefur gert brtt. um við II. kafla, um fóstureyðingar, til bóta og mun greiða þeim till. atkv. verði þær till. minni hl. þessarar n., sem eru mér meira að skapi, felldar. Þrátt fyrir þetta vil ég þó aðeins nefna tvö atriði, annað í brtt. n. og hitt í frv. sjálfu, sem koma mér einkar spánskt fyrir sjónir.

Fyrra atriðið er varðandi 9. gr. frv. og hefur raunar áður verið á það bent hér. Þar gerir n. till. um að fella niður úr 9. gr., b-lið, orðið „fátæktar“ þannig að setningin orðist svo: „Eigi konan við að búa bágar heimilisástæður vegna ómegðar eða alvarlegs heilsuleysis annarra á heimilinu.“ Þarna er verið að tala um eina af félagslegum ástæðum þess að fóstureyðing verði heimiluð. Eftir því sem mér skilst mun ástæðan fyrir þessari niðurfellingu ekki vera sú að þeir nm. séu þeirrar skoðunar að fátækt eigi ekki að vera jafngild ástæða til að heimila fóstureyðingar og þær aðrar sem upp eru taldar í b-lið 9. gr., heldur fremur hitt að þeir veigri sér við að nefna þetta orð, „fátækt“, í íslenskri löggjöf, væntanlega vegna þess að þeir efast um það sjálfir að fátækt sé hér lengur til. Ég vil nú leyfa mér að draga það mjög í efa að þótt þjóðin hafi vissulega komist úr örbyrgð til bjargálna á fáum áratugum þá þekkist fátækt ekki lengur í landi voru. A. m.k. verður henni ekki útrýmt með því að gera heiti hennar að feimnisorði, og vekur það raunar furðu mína að það eina orð, sem virðist særa blygðunarsemi hv. nm. í öllum þessum lagabálki, sé orðið „fátækt“. Ég mundi telja miklu æskilegra að það orð særði frekar réttlætiskennd þessara ágætu heiðursmanna með þeim afleiðingum að þeir sneru sér frekar að því að ryðja félagslegum forsendum þeirrar nafngiftar úr vegi en að meðhöndla orðið sjálft með svipuðum hætti og menn hafa nú meðhöndlað z-una sællar minningar.

Í annan stað virðast mér ákvæði 6. gr., 3. tölul., stangast talsvert á við efni og anda frv. eins og það kemur frá hendi n. Þar segir svo, með leyfi forseta: „Ráðgjöf fyrir fólk, sem íhugar fóstureyðingu eða ófrjósemisaðgerð, tekur til þess, sem hér segir.“ Síðan er talið upp: „3. Ráðgjafar- og stuðningsviðtöl“ — stuðningsviðtöl til þeirra sem íhuga fóstureyðingu.

Ég leyfi mér að spyrja hvernig það geti samrýmst skoðunum hv. um. á efni þess máls, sem hér er um fjallað, að breyta í einni andránni ákvæðum frv. í þá veru að leiða vottorðavaldið aftur til hásætis til þess að ríkja yfir kvenþjóðinni, en leggja í næstu andrá til að þetta sama vald eða a. m. k. angi þess eigi stuðningsviðræður við þá konu sem afráðið hefur að óska eftir fóstureyðingu. Þarna virðist mér sem sé að töluvert stór dólpungur hafi sloppið í gegnum net n. En e. t. v. á hún einhverja þá skýringu á þessu sem ekki liggur í augum uppi því að vart held ég að það geti dulist neinum að það er ekki algerlega í anda frv. eins og það kemur frá n., að rætt sé um í öðru orðinu að vottorðavaldið skuli ríkja, og í hinu orðinu, að angi þessa sama valds skuli hefja stuðningsviðræður við konu þá sem óskar eftir fóstureyðingaraðgerð.

Þá vil ég að síðustu víkja með örfáum orðum að nokkrum þeim röksemdum gegn rýmkun á sjálfsákvörðunarrétti kvenna varðandi barneignir sem komið hafa fram hér og annars staðar.

Í fyrsta lagi virtist mér koma fram í ræðu hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur áðan að látið sé að því liggja að ef frv. yrði samþ. í upphaflegri gerð þess, þ. e. a. s. í þá veru sem minni hl. heilbr.- og trn. flytur till, um, þá sé verið að skylda lækna og aðrar heilbrigðisstéttir til þess að framkvæma fóstureyðingar, þ. á m. þá lækna sem teldu slíka aðgerð stríða á móti siðferðiskennd sinni og siðareglum. Þetta er algerlega rangt. Eftir núgildandi lögum getur læknir neitað að vinna slíkt verk þótt heimild hafi fengist. Fyrir því eru dæmi. Í frv. því, sem nú liggur fyrir frá meiri hl. n., gildir hið sama og sama máli gegnir þótt frv. yrði samþ. með þeim breytingum minni hl. heilbr.- og trn. sem ég styð. Það er rangt að í samþykkt þeirra till. felist sú kvöð að læknar verði að framkvæma fóstureyðingar sem heimilaðar hafa verið, hvort heldur þeir vilji eða ekki. Sá læknir, sem ekki vill vinna slíkt verk, getur skotið sér undan því eftir sem áður með nákvæmlega sama hætti og hann getur gert slíkt nú. Samþykkt á frv. í upphaflegri gerð þess breytir þess vegna engu að þessu leytinu til.

Í öðru lagi er sagt að opinberar skýrslur, sem gerðar hafa verið í nágrannalöndunum um fóstureyðingar eftir að ákvæði þeirra laga hafi verið rýmkuð, leiði í ljós að fóstureyðingum hafi fjölgað mjög eftir að hin rýmkuðu fóstureyðingarákvæði hafi tekið gildi. Rýmkun fóstureyðingarlöggjafarinnar leiði því óhjákvæmilega til fjölgunar fóstureyðinga og gjalda beri varhug við þeirri þróun.

Hv. þm. Magnús Kjartansson hefur þegar bent á að þessar fjölganir fóstureyðinga samkv. opinberum skýrslum erlendis frá geti einfaldlega átt sér þá skýringu að nú fyrst eftir rýmkun löggjafarinnar séu tiltækar opinberlegar skýrslur um raunverulegar fóstureyðingar í viðkomandi löndum. Áður fyrr hafi þær margar farið fram í laumi og því eðlilega ekki náð að komast á blað hjá opinberum skýrslugerðarmönnum. Sjálfsagt er þessi skýring mjög svo rétt þótt svo vera kunni að sjálfum fóstureyðingunum kunni eitthvað að hafa fjölgað við rýmkun heimildarákvæðanna. Við skulum a. m. k. láta svo vera. En ég hlýt að vekja athygli á því að þeir, sem nota þessa fjölgun fóstureyðinga í opinberum skýrslum í kjölfar rýmkaðra ákvæða um heimildir til fóstureyðinga sem röksemd gegn því að slík ákvæði séu verulega rýmkuð hér á landi, nota nákvæmlega sömu niðurstöðu, þ. e. a. s. fjölgun fóstureyðinga samkv. opinberum skýrslum hér á landi að undanförnu, sem rökstuðning fyrir því að ekki þurfi að rýmka þessa löggjöf hér ýkjamikið þar sem túlkun hennar og framkvæmd sé hvort sem er að þróast í frjálslyndari og þá væntanlega réttari átt.

Ég verð nú að segja eins og er að ég á ekki ýkjaauðvelt með að skilja samhengið í þessari röksemdafærslu. Þær tilvísanir til erlendra heimilda um fjölgun fóstureyðinga, sem notaðar eru sem rökstuðningur gegn því að við íslendingar fylgjum hinu erlenda fordæmi um rýmkun heimilda til fóstureyðingar og þær eru harðlega fordæmdar af viðkomandi aðilum, eru þegar litið er á innlendar skýrslur notaðar af sömu aðilum til þess að fullvissa menn um að þrátt fyrir þær hömlur, sem hér ríkja í þessu sambandi, fari þó frjálslyndið ört vaxandi, öllu miði nú í rétta átt, þannig að þar fyrir sé engin ástæða til lagabreytinga svo að neinu nemi, Hérna sýnist mér að eitt reki sig talsvert illilega á annars horn í rökstuðningi. Væru menn sjálfum sér samkvæmir ættu þeir frekar að hafa af því þungar áhyggjur, hve fóstureyðingum fjölgar hér á landi og í beinu framhaldi af því að fara þess eindregið á leit að heimildarákvæði í þeim efnum yrðu stórlega þrengd frá því sem nú er.

Þá ættu menn einnig að gera sér grein fyrir ástæðum þess að löglegum fóstureyðingum hefur farið fjölgandi í landinu undanfarin ár. Ekki er það vegna þess að lögum hafi verið breytt. Þau hafa verið óbreytt í 40 ár. Væntanlega heldur enginn því fram að ástæðan sé sú að neyð í landinu, líkamlegt heilsufar kvenna og félagsleg aðbúð þeirra hafi farið hríðversnandi á þessum árum. En hver er þá skýringin? Hver er þá skýringin á því að þrátt fyrir óbreytta löggjöf og þrátt fyrir það að við vitum að hagur kvenna í landinn hefur ekki farið versnandi á þessum 40 árum, heldur síður en svo, — hver er þá skýringin á því að samt skuli fóstureyðingum hafa farið fjölgandi á þessu tímabili? Líklegasta skýringin er að sjálfsögðu sú að um talsverða hugarfarsbreytingu hafi orðið að ræða, ekki hjá konunum, heldur hjá vottorðavaldinu, m. ö. o. að vottorðavaldið sýni nú meiri tilhneigingu til þess að taka mark á mati kvennanna sjálfra á eigin högum en það gerði fyrir fáum árum. Á framkvæmd á atriði eins og þessu að ráðast af því hvernig þetta vottorðavald er skapi farið hverju sinni, hvort það hefur vinsamlegri afstöðu í dag til hæfni kvenmanns, sem til þess leitar í neyð sinni, að dæma í sinni eigin sök heldur en það hafði í gær? Á framkvæmdin sem sagt að ráðast af kerfisduttlungunum hverju sinni? Og þeir sem í öðru orðinu láta í ljós ánægju sína með þessa jákvæðu þróun, þennan stöðugt vaxandi skilning vottorðavaldsins, hvernig geta þeir í hinu orðinu fordæmt það að skilningurinn verði látinn vera sem skarpastur, matið sem óvilhallast? Ef þróunin stefnir að áliti þessa fólks í rétta átt með því að vottorðavaldið sé nú skilningsríkara á ástæður þeirra, sem undir það þurfa að sækja, en áður var, hvernig geta þá þessir hinir sömu menn andmælt því að eilítið lengra sé gengið í þá sömu og að þeirra eigin áliti réttu átt?

Deilurnar snúast ekki um það hvort eigi að leyfa fóstureyðingar. Þær eru leyfðar. Deilurnar snúast ekki heldur um það hvaða ástæður geti orðið til þess að slíkar heimildir séu veittar. Deilurnar snúast aðeins um það hvort skylt sé að taka tillit til vilja konunnar, hvort skylt sé að gera ráð fyrir því að hún sé sjálf þess umkomin að meta aðstæður sínar öðrum betur eða hvort það sé aðeins heimilt.

Á leiðinni heim í kvöldmatinn í kvöld heyrði ég útvarpsauglýsingu frá samvinnunefnd gegn reykingum, þar sem kvenfólk var hvatt til þess að hætta að reykja. Auglýsingin hófst með orðunum: „Konur, sýnið nú skynsemi á kvennaárinu.“ Undirtónninn var sem sé sá að ekki mætti ætlast til að konur gætu sýnt skynsemi nema við sérstaklega hátíðleg tækifæri. Það er einmitt sama afstaðan til skynsemi konunnar sem ræður ferðinni hjá þeim sem telja að vottorðavald, sem enga ábyrgð hefur, hvorki gagnvart konu né væntanlegu barni hennar, muni hæfara til þess að taka ákvörðun um hagi konunnar en konan sjálf.

Ég vil svo ljúka máli mínu með því að vitna enn í þann mann sem ég hef vitnað hér í oft áður, Vilmund heitinn Jónsson landlækni. Í grg. með frv. frá 1935 sagði hann orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimurinn er enn ekki svo eftirsóknarverð vistarvera, að minna megi krefjast til handa hverju barni, sem fæðist, en að það sé a. m. k. aufúsugestur móður sinnar, hvað sem föðurnum líður.“

Skyldu þessi orð Vilmundar heitins Jónssonar ekki hafa staðist tímans tönn eins og ýmislegt fleira sem frá þeim ágæta manni hefur komið?