21.04.1975
Neðri deild: 69. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3050 í B-deild Alþingistíðinda. (2306)

223. mál, almenningsbókasöfn

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson) :

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um almenningsbókasöfn, en það er stjórnarfrv. Þetta frv. á sér alllanga sögu að baki, Ég mun ekki rekja hana hér að þessu sinni.

Ég hygg að allir séu sammála um hvort tveggja, almenna þörf fyrir vönduð og vel uppbyggð bókasöfn og svo hitt að fjárframlög ríkisins til bókasafnanna séu og hafi verið um alllangt árabil óeðlilega lág.

Löggjöf sú um almenningsbókasöfn, sem nú er í gildi, er frá árinu 1963. Ákvæði þeirra laga um fjárhagslegan stuðning hins opinbera við almenningsbókasöfn eru fyrir löngu úrelt orðin, enda í engu samræmi við þróun verðdagsmála á þessu tímabili.

Samkv. athugun Fjárlaga- og hagsýslustofnunar hefur þetta frv. í för með sér 72 millj. kr. útgjaldaauka fyrir ríkissjóð, en framlög til allra almenningsbókasafna á landinu eru í fjárlögum 1975 aðeins tæplega 10 millj. kr. Hér er því, ef frv. þetta verður að lögum óbreytt, að þessu leyti um gagngera stefnubreytingu að ræða. En þessi ákvæði ræði ég aðeins nánar síðar. Þetta frv. miðar að því að sett verði um almenningsbókasöfn rammalöggjöf, en um framkvæmdaatriði í fjölmörgu verði nánar kveðið á í reglugerð.

Í l. gr. þessa frv. segir svo:

„Almenningsbókasöfn skulu starfa í öllum byggðum landsins til sjávar og sveita. Almenningsbókasöfn eru mennta-, upplýsinga- og tómstundastofnanir fyrir almenning. Þau skulu gefa fólki sem bestan kost á að lesa og færa sér í nyt bækur og veita afnot af nýsigögnum, svo sem hljómplötum, segulböndum og öðrum miðlunargögnum til fræðslu og dægradvalar.“

Hér er reynt í örstuttu máli að gera grein fyrir megintilgangi frv. og um leið starfsemi almenningsbókasafna í landinu. Það er mál manna, hygg ég að sé óhætt að segja, að almenningsbókasöfn hafi sífel1t þýðingarmeira hlutverki að gegna í þjóðfélaginu þrátt fyrir allt. Góð bókasöfn eru t. d. engu þýðingarminni í þéttbýli en í strjálbýli, nema síður sé, og þéttbýli auðveldar raunar stöðu og sameiginleg not alls almennings af slíkum söfnum. Bókasöfnin hljóta nú ekki síður en áður að koma til hjálpar þar sem geta almennings til bókakaupa þrýtur og tryggja að unnt sé að fullnægja lestrarþörf og lestrarþrá ungra og gamalla. Söfnin hljóta að verða í ríkari mæli upplýsingamiðstöðvar fólks í leit að margvíslegum fróðleik og tómstundaverkefni.

Í 1.–6. gr. frv. þessa er í mjög stuttu máli mælt fyrir um það hvernig skipa skuli bókasafnsumdæmum og starfsemi safnanna almennt. Þessar gr. gera ekki ráð fyrir neinum stórbreytingum frá því kerfi sem nú er í gildi. Þvert á móti eru almenningsbókasöfnin flokkuð í samræmi við gildandi lög. Ráðandi stefna á undanförnum árum hefur verið sú að efla héraðsbókasöfnin svo að þau verði fær um að annast bókasafnsþjónustu í dreifbýli í vaxandi mæli. Þessi starfsemi hefur reynst heilladrjúg þar sem söfn eru einhvers megnuð á annað borð, og er talið eðlilegt að flýta þessari þróun. Nokkur héraðsbókasöfn hafa þegar reynst þessu hlutverki vaxin, en það byggist þá á alveg sérstökum skilningi og fyrirgreiðslu heima í héraði.

Eins og ég hef þegar tekið fram hafa fjárframlög ríkisins til safnmálanna verið mjög lítil á undanförnum árum.

Í grunnskólalögunum eru sérstök ákvæði um skólabókasöfn og ýmsir skólar hafa þegar eignast allmyndarleg bókasöfn. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að skólabókasöfn og almenningsbókasöfn geti haft sameiginlegan rekstur ef forráðamenn beggja telja slíkt æskilegt og menntmrn. samþ. það.

Í sem allra stystu máli sagt gerir þetta frv. ráð fyrir því að í öllum byggðum landsins skuli starfa bókasöfn og einnig í öllum sjúkrahúsum, hælum, vistheimilum og fangahúsum, Á öðrum stöðum eru ákvæði um bókasöfn í skólum, eins og ég hef þegar vikið að. En það er einkenni á þessu frv. að ákvæði um rekstur safnanna eru mjög fáorð og rúm og gert er ráð fyrir að nánar verði kveðið á um fjölmörg atríði í reglugerð, og þá verður að sjálfsögðu höfð hliðsjón af því hvað hagkvæmast telst í hverju einstöku tilviki á hverjum stað og tíma.

Í frv. er gert ráð fyrir því að almenningsbókasöfnin séu rekin af sveitarfélögunum og að sveitarstjórnirnar kjósi bókasafnsstjórnir, en þó er heimilt að gömlu lestarfélögin, sem allvíða starfa sem sjálfstæð félög, starfi áfram á svipuðum grundvelli og verið hefur og þá í samráði við hreppsnefndirnar. Hinum mörgu litlu og sjálfstæðu lestrarfélögum hefur nú fækkað smátt og smátt. Það má búast við því að sú þróun haldi áfram. Ákvæði frv. um þetta efni eru sett með það fyrir augum að eðlileg þróun geti átt sér stað að þessu leyti þegar tímar líða fram.

Í 8. gr. frv. er svo að finna ákvæði um lágmarksfjárframlög sveitarfélaga til almenningsbókasafna, og í 9. gr. er kveðið á um hluta ríkissjóðs, en hann skal vera þriðjungur af lögboðnum rekstrarfjárframlögum sveitarfélaganna eins og þau eru tiltekin í 8. gr. og skv. skýrslum og manntali frá síðasta ári á undan.

Það er gert ráð fyrir því að lítilli fjárhæð af ríkisframlagi megi árlega verja til verkefna í þágu allra bókasafna landsins í heild skv. ákvörðun rn, hverju sinni. Þetta ákvæði er sett inn í frv. í samræmi við reynslu undanfarinna ára. Stofnkostnaður skráningarmiðstöðvar bókasafna, sem nú er tekin til starfa og er þjónustustofnun fyrir öll bókasöfn í landinu, var þannig fenginn með sérstöku leyfi Alþ. og rn. Sama máli gegnir raunar um þau námskeið fyrir starfandi bókaverði, sem haldin hafa verið, og nokkra útgáfustarfsemi í þágu safnanna, Þetta yrði lítill spónn úr aski hvers einstaks safns, en það safnaðist nokkuð til heildarátaka fyrir söfnin öll þegar saman kæmi.

Það er reynt að hafa útreikninga á framlögum til rekstrar safnanna einfalda og glögga og auðvelda í framkvæmd. Sveitarfélögin skulu greiða framlög miðað við íbúafjölda, eins og segir í frv. og ég eyði ekki tíma í að rekja hér. Þetta eru lágmarksfjárframlög sveitarfélaga og um leið ríkissjóðs, og um það eru ákvæði í 8. gr. að þau skuli endurskoða árlega og færa til samræmis við verðlag í landinu skv. útreikningum Hagstofu Íslands, Að sjálfsögðu geta orðið skiptar skoðanir um ákvæði eins og þetta, bæði hversu há framlögin skuli vera og einnig um hitt hvort setja beri í lög ákvæði um árlegan framreikning eða endurskoðun þessara framlaga. En með vísun til þeirrar bitru reynslu undanfarinna ára af þróun þessara mála eru nú í þessu frv. gerðar till. um slíkan framreikning. Þar sem í frv. er um mjög miklar breyt. að ræða í hækkunarátt þótti rétt að kveða svo á að ákvæðin um fjárframlög kæmu til framkvæmda á þremur árum frá gildistöku l., smátt og smátt, Ætti það þá að vera viðráðanlegra fyrir alla sem hér eiga hlut að máli. Það verður að telja að mestu máli skipti að hið bráðasta sé mörkuð ákveðin stefna um stöðu og raunar framtíðargrundvöll íslenskra almenningsbókasafna. Það er meginatriðið, en ekki hitt hversu hratt verður brugðist við um hækkun framlaga.

Í frv. er gert ráð fyrir því að sveitarfélög reki söfnin, eins og áður segir, og einnig að sveitarfélög reisi bókhlöður og búi þær nauðsynlegum húsbúnaði og tækjum. Heimilt er að kaupa eða leigja húsnæði fyrir söfnin. Það er gert ráð fyrir því að ríkissjóður greiði helming byggingarkostnaðar bókhlöðu eftir því sem fé er veitt til á fjári., enda hafi þá áætlanir og teikningar verið samþ. af menntmrn. skv. nánari ákvæðum í reglugerð. Mér er vel ljóst að um þetta ákvæði, eins og raunar fleiri í frv., kunni að verða skiptar skoðanir, en ég lít svo á að tilvist og rekstur almenningsbókasafna í nútíma þjóðfélagi sé í raun og veru engu þýðingarminni heldur en rekstur sjálfra skólanna og þess vegna sé eðlilegt og tímabært að taka hér af skarið með slíku lagaákvæði. Síðan verður það að sjálfsögðu fjárveitingavaldið sem afmarkar hraðann við þessa uppbyggingu — við uppbyggingu bókasafnshúsanna alveg sérstaklega — við afgreiðslu fjárl. hverju sinni,

Frv. gerir ráð fyrir að sérstakur bókafulltrúi, sem starfi í menntmrn., fari með málefni almenningsbókasafna eins og áður, en auk þess er gert ráð fyrir því að til komi ákveðin ráðgjöf um málefni safnanna frá sveitarfélögum og frá Bókavarðafélagi Íslands sem er að hluta til a. m. k. samtök sérfróðra manna um málefni bókasafna. Má geta þess hér að ákvæði um hliðstæðar samstarfsnefndir hafa verið tekin inn í fleiri lög, svo sem grunnskólalögin og lög um menntaskóla.

Frv. gerir ráð fyrir því að ríkissjóður standi einn undir greiðslum til rithöfunda vegna afnota af bókum þeirra í almenningsbókasöfnum. Þetta gæti talist eins og viðbótarframlag til safnanna. Eðlilegt þykir að ákvæði um stjórn Rithöfundar sjóðs Íslands, úthlutun úr honum og starfshætti sjóðsstjórnar, sé reglugerðaratriði, enda er hér um að ræða samningamál á milli ríkisvalds og rithöfundasamtaka eins og kunnugt er.

Ég vil að lokum árétta að þetta frv. er mjög fáort. Hér er ekki um að ræða ítarlega útfærslu í einstökum smáatriðum á tilvist og rekstri almenningsbókasafna. Frv. gerir ráð fyrir því, sem teljast verður að ég hygg öllu eðlilegra, að öll slík nánari fyrirmæli séu sett með reglugerð.

Eins og ég gat um í byrjun á þetta mál sér alllanga sögu. Nú er allmjög liðið á þingtímann, en ég vil þó vænta þess að sú hv. þn., sem fær þetta mál til meðferðar, sjái sér fært að taka það til nokkurrar skoðunar. Sú athugun gæti greitt fyrir afgreiðslu málsins þegar þing kemur saman næsta haust. Ég hlýt að leggja ríka áherslu á að frv. verði afgr. á þessu ári þannig að unnt reynist að haga fjárveitingum til almenningsbókasafna á fjárl. fyrir árið 1976 með tilliti til nýrrar löggjafar, hver svo sem verður eða yrði niðurstaða Alþ. um t. d. upphæðir eða önnur einstök atriði þessa frv. Það verður auðvitað að koma í ljós. En ég legg mjög mikla áherslu á að málið í heild verði afgr. á þessu ári.

Virðulegi forseti. Ég hef þessa framsögu ekki lengri, en leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. menntmn.