28.04.1975
Neðri deild: 75. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3406 í B-deild Alþingistíðinda. (2496)

93. mál, iðnfræðsla

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í tilefni þess nál. sem hér liggur fyrir og ég átti hlut að sem einn af nm. í menntmn.

Ég vil taka það fram út af ummælum hv. 5. þm. Vestfjarða að þetta frv. til l., sem er borið fram af honum sjálfum, var engan veginn tekið eins og hann gaf í skyn, illa í menntmn. Það fékk fyllilega jákvæðar undirtektir þó að þessi yrði niðurstaðan sem hv. frsm. n. hefur skýrt hér á undan svo að ég þarf ekki að endurtaka það. Ég held að við öll í n. höfum verið einróma samþykk því að þörf Barðastrandarsýslna og Patreksfjarðar var ótvíræð fyrir að geta haldið uppi þessari fræðslu. Ég hygg að staðarmenn á Patreksfirði hafi ástæðu til að ætla, að menntmrn. taki vel þeirra málaleitunum að þetta verði lagfært með nýrri iðnfræðslulöggjöf. Ég skírskota til okkar Vestfjarðaþm. allra, þ. á m. þm. Karvels Pálmasonar, að fylgja þessu máli eftir við iðnfræðslunefnd og menntmrn. og ég fyrir mitt leyti hef ekki áhyggjur að því að sú viðleitni okkar beri ekki árangur.

Ég tel það fyllilega fullnægjandi rök okkar úr menntmn. að vegna þess að verið er að fjalla um þessi mál í þar til kjörinni n., þá væri óeðlilegt að taka út þarna einn iðnskóla af 5–6 öðrum sem nákvæmlega eins er ástatt um. En ég endurtek að ég er bjartsýn um að barðstrendingar fái þessu kippt í lag og þeirra iðnskóli fái lagalega staðfestingu á næstunni eða þegar umrædd n. hefur lokið störfum og að við munum geta beitt okkar áhrifum, allir Vestfjarðaþm., í þá átt.