26.11.1974
Sameinað þing: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (263)

303. mál, vistunarrými fyrir langlegusjúklinga

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Ég verð að segja að mér létti stórum og þakka hæstv. heilbrrh. fyrir hans ágætu upplýsingar. Mér skilst á honum að það vanti 59 pláss fyrir langlegusjúklinga í landinu. Þetta þýðir að það vantar hvergi pláss nema í Reykjaneskjördæmi því að nýbúin er að fara þar fram könnun á högum þessa fólks og þar kom í ljós að það vantaði eitthvað í kringum 60–70 pláss. Þetta ætti að þýða að þá væri þessu fullnægt annars staðar á landinu.

Það má fá ýmislegt fram með tölum og ég gat um það áður í sambandi við fyrirspurn líka þessari að tölur frá útlöndum gagna okkur ekki alltaf sem skyldi. Eitt er víst, að þegar ég kem til starfsbræðra minna og segi þeim, að hér sé ekki skortur á vistrými fyrir langlegusjúklinga, þá munu þeir reka upp stór augu örugglega og ekki telja svo vera í raun.

Ég efast ekki um að með þeirri miklu viðbót í Hátúni 10 eftir áramótin, sem verður þó vafalaust fyrst og fremst endurhæfingarheimili fyrir Landspítalann, muni bætt nokkuð úr þörfinni, en þeir, sem þekkja til, geta ekki gert sér í hugarlund að hér sé ekki stórkostleg vöntun á vistunarrými fyrir hjúkrunarþurfandi aldrað fólk, fyrir utan alla þá aðra sem við vitum að þurfa ýmist að dvelja í heimahúsum eða í óheppilegum stofnunum vegna skorts á slíku rými. Því er ekki að neita að í undirbúningi eru aðgerðir á þessu sviði, en ég tel þær vera miklu brýnni en fram kemur í þeim upplýsingum sem hér komu fram.