09.05.1975
Neðri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3734 í B-deild Alþingistíðinda. (2866)

285. mál, lán fyrir Flugleiðir hf.

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen) ; Herra forseti. Með frv. því, sem hér liggur fyrir, leitar ríkisstj. eftir heimild Alþ. til þess að veita Flugleiðum h. f. ríkisábyrgð, þ. e. a. s. sjálfskuldarábyrgð, á lánum að fjárhæð 18.5 millj. bandaríkjadala vegna flugvélakaupa og til að bæta rekstrarfjárstöðu félagsins.

Flugleiðir hf. áforma nú að kaupa til landsins tvær flugvélar af gerðinni DC-8-63 CF sem verið hafa t notkun allt frá árinu 1970 á flugleiðum félagsins. Um vélar þessar hefur gilt kaupleigusamningur þannig að viss hluti verðs vélanna hefur verið greiddur með leigugjaldi.

Eins og fram kemur í aths. með frv. var verðmæti þeirra tveggja véla, sem hér um ræðir, áætlað 21 millj. bandaríkjadala við gerð kaupleigusamningsins, en félagið á nú 13.5 millj. dala ógreiddar af því verði til þess að eignast flugvélarnar.

Forráðamenn Flugleiða hf. sneru sér til ríkisstj. í okt. s. l. og greindu henni frá þessum áformum. Jafnframt gerðu þeir ríkisstj. grein fyrir fjárhagslegum erfiðleikum í rekstri fyrirtækisins síðari hluta ársins 1974 og á árinu 1976.

Rekstur Flugleiða hf. hefur ekki farið varhluta af þeim erfiðleikum sem flugfélög víða um heim hafa átt í á undanförnum mánuðum í kjölfar aukins rekstrarkostnaðar, einkum af völdum eldsneytishækkana og almenns efnahagssamdráttar sem viðast hefur leitt af sér samdrátt í farþegaflugi. Vegna erfiðrar rekstrarstöðu tóku Flugleiðir hf. rekstraráform sín fyrir árið 1975 til endurskoðunar á síðari hluta ársins 1974. Þessi endurskoðun leiddi til þess að fækkað var um eina DC-8 flugvél í sumaráætlun 1975 og verða þær nú þrjár í stað fjögurra áður. Þrátt fyrir endurskoðuð rekstraráform ársins 1975 til lækkunar útgjalda taldi félagið að til þess að tryggja reksturinn yfir vetrarmánuðina og á þessu ári þyrfti félagið, auk árstíðabundinna lána, lán til 5 ára að upphæð 5 millj. bandaríkjadala.

Ríkisstj. tók áðurnefnda málaleitan Flugleiða hf. til skoðunar og könnuð var fjárhagsstaða fyrirtækisins og önnur þau atriði í rekstri þess sem snerta þetta mál. Það varð meginniðurstaða að fyrirgreiðsla ríkisins við útvegun rekstrarfjármagns yrði ekki skilin frá fyrirsjáanlegum og nauðsynlegum flugvélakaupum félagsins á þessu ári og með því að nýta ekki kaupréttinn á flugvélunum, sem áður er getið, fyrirgerði félagið þeim möguleika á aukningu á eigin fé sem það hafði þegar greitt í formi leigu á flugvélunum. Það var einnig mat ríkisstj. að áætlanir félagsins um rekstrarfjárþörf væru raunhæfar.

Með hliðsjón af þessu athuguðu ákvað ríkisstj. að leggja fram þetta frv. og óska eftir heimild Alþ. til að veita Flugleiðum hf. sjálfsskuldarábyrgð fyrir hinum umbeðnu lánum, annars vegar til flugvélakaupanna og hins vegar til að bæta rekstrarfjárþörf félagsins svo sem áður er lýst. Það vegur þó þyngst um þá ákvörðun ríkisstj. að leggja fram þetta frv. að sú hefur jafnan verið stefna íslenskra stjórnvalda að tryggja yrði íslendingum forræði í samgöngum við umheiminn. Í samræmi við þessa meginstefnu hefur ríkisstj. komið flugfélaginu til aðstoðar við flugvélakaup og ábyrgð á rekstrarlánum um langt árabil. Flugsamgöngur sem atvinnuvegur og móttaka erlendra ferðamanna eru í dag þýðingarmikill liður í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Þess má geta að á árinu 1974 var hlutur Flugleiða hf. í reglubundnu farþegaflugi yfir Norður-Atlantshafið um 3%. Félagið flutti hingað um 68000 útlenda farþega og um 13 000 farþegar Flugleiða á leiðinni milli Evrópu og Ameríku höfðu viðkomu í landinu í lengri eða skemmri tíma á árinu 1974. Þessir viðkomufarþegar hefðu varla komið hingað til lands ef þeir hefðu ekki verið farþegar Flugleiða hf. Á árinu 1974 fluttu Flugleiðir hf. samtals yfir 600 000 farþega til og frá landinu og innanlands, þar af rúmlega 400 þús. farþega í millilandaflugi. Í árslok störfuðu hjá félaginu samtals 1628 starfsmenn við þennan flugrekstur og skylda starfsemi, þar af 1167 á Íslandi. Ekkert erlent flugfélag heldur nú uppi reglubundnu farþegaflugi til Íslands á eigin spýtur.

Ég vil taka það fram að ríkisstj. telur rétt, þar sem hér er um óvenjuháa ábyrgðarveitingu að ræða, að setja jafnframt skilyrði fyrir henni um eftirlit með fjárhagslegum ákvörðunum félagsins, ákvörðunum um rekstur og um að hlutafé í Flugleiðum hf. verði aukið.

Frá þessu öllu hefur forráðamönnum Flugleiða verið greint. Um það má deila hver afskipti ríkisvaldsins eigi að vera af rekstri Flugleiða hf. og annarra slíkra fyrirtækja. Ég tel þó að hér sé um svo stórt mál að ræða að ríkisvaldinu sé bæði rétt og skylt að binda ábyrgðarveitingu þeim skilyrðum sem í frv. felast.

Í grg. frv. er nánari útlistun á máli þessu. Ég legg til, hæstv. forseti, að máli þessu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.