10.05.1975
Efri deild: 84. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3793 í B-deild Alþingistíðinda. (2930)

260. mál, uppsögn fastráðins starfsfólks

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Og enn kvað hv. þm. Ólafur Ólafsson og ekki var söngurinn síðri en á dögunum. Ég þakka honum að vísu fyrir ágætt boð austur á Hvolsvöll til að sjá afrek hans þar. Ég þakka honum einnig þá góðverkaupptalningu sem hann var með hér áðan og einnig fróðlegan fyrirlestur um bifreiðaverkstæði og rekstur þeirra. Þetta er allt saman þakkarvert.

En þegar hv. þm. fór að tala um að ég hefði hér hellt úr skálum reiði minnar, þá ætla ég aðeins að benda á eitt atriði og er það alveg nægilegt. Hafi þetta verið svo og ég hafi gert þetta á eins ódrengilegan hátt og hann vildi vera láta, þá ætla ég að benda hv. þm. á það að hæstv. forseti sá enga ástæðu til þess að áminna mig í nokkru fyrir málflutning í þessum ræðustól, en það varð hann að gera því miður tvívegis varðandi þennan hv. þm. sem var að ljúka máli sínu. Og ég held að það segi sína sögu um málflutning okkar hvort um sig í þessum ræðustól.

Ég hef því miður ekki mína ræðu sem ég flutti við upphafi þessa máls, en þó man ég ekki til þess að ég hafi orðað það þannig að hér væri um árás á launafólk í landinu að ræða. Ég talaði, að mig minnir, um hroka gagnvart launafólki, og ég held að það hafi verið mjög vægt til orða tekið að í þessari ræðu hv. þm. hafi komið fram hroki. En það var ekki almenn árás á launafólk í landinu eða það sem hann kallar svo eða það sem ég sagði um hroka í garð launafólks, sem er það rétta, sem varð þess valdandi að ég stóð hér upp og hafði uppi nokkur orð, heldur fyrst og fremst að hér voru rakin mjög ítarlega úr þessum ræðustól persónuleg dæmi sem mér þótti óhæfa og forseti hafði þegar undirstrikað að voru óhæfa í þessum ræðustól. Það var það sem olli því fyrst og fremst að ég stóð hér upp til andmæla. Við getum svo deilt um það hver framdi árás og hver ekki austur á Selfossi, eins og hv. ræðumaður minntist á áðan. Ég hygg að sú niðurstaða, sem fengin er í því máli, sanni allvel hver þar hefur upphafinu valdið.

Mér þykir hins vegar afskaplega leiðinlegt og hef orðið var við það með ýmsa forustumenn samvinnuhreyfingarinnar í landinu, að hvernig sem gagnrýni er sett fram á þessa ágætu hreyfingu og það hef ég oft sett fram, t. d. í mínu kaupfélagi, þá er henni ávallt mætt á einn veg, hversu hreinskilin, hversu hóflega sem hún er fram sett, hún er talin árás. Það er verið að æsa lýðinn, eins og þeir segja, gegn þessum sjálfkjörnu fulltrúum fólksins í samvinnuhreyfingunni. Ég skal fúslega játa að ég hef verið einlægur fylgismaður samvinnuhugsjónarinnar. En svo má brýna deigt járn að bíti. Ef þessir forustumenn mega aldrei og á engan hátt heyra neina gagnrýnisrödd, ekki fá neitt orð í eyra, þó að það sé mælt af hreinskilni og sanngirni, án þess að þeir telji það til árása, án þess að þeir telji það til andstöðu við sjálfa hugsjónina, þá fer ég að efast stórlega um að ég eigi mikið sameiginlegt með þessum mönnum. Ég hélt það hins vegar einu sinni og var ákveðinn í þeirri trú. Og málflutningur þessa hv. fulltrúa samvinnuhreyfingarinnar, sem ég kallaði víst hér í ræðustól sérlegan fulltrúa og verður ekki annað betra orðalag, held ég, fundið, háttalag hans og viðbrögð öll sanna mér þetta kannske betur en allt annað sem ég hef hingað til reynt. Ég get nefnilega sagt þessum hv. þm. það að mistök og röng vinnubrögð samvinnuhreyfingarinnar snerta mig miklu meira en röng vinnubrögð og mistök einkafyrirtækja t. d. Mér sárnar miklu meira ef þessi samtök fremja ranglæti á fólki heldur en þótt einhverjir einkaaðilar geri það, og það er einfaldlega vegna þess að ég hef talið mig samvinnumann.

En síðan skal ég ekki hafa þessi orð öllu fleiri. Ég sagði í fyrri ræðu minni að í raun og veru hefði áminning forseta átt að vera nægileg um þann málflutning sem hér var uppi hafður og að full ástæða var til þess að hér væri staðið upp til andmæla og það harðra andmæla. E. t. v. hafa andmæli mín ekki verið nógu hörð þrátt fyrir það að þessi hv. þm. hafi talað um að ég hafi jafnvel hellt úr skálum reiði minnar. Hann veit þá sem betur fer ekki, þó að ég geti verið kannske myndarlegur og ég man ekki hvað hann sagði annað frekar hér, að ég get orðið reiður ef ég reiðist. Og ef ég færi að hella úr skálum reiði minnar varðandi þetta mál, þá mundi ég hafa annan hátt á en ég hafði við fyrri umr. þessa máls.

Allar ásakanir um að kommúnistar, eins og þessi ágæti maður hafði hér uppi um okkur Alþb.-menn og hefur þar sýnilega gengið í góðan skóla Morgunblaðsins, en það var einmitt sálufélag við þá Morgunblaðsmenn, sem ég var að gagnrýna samvinnuhreyfinguna fyrir með allgildum rökum, — allar slíkar ásakanir læt ég mér í léttu rómi liggja. Ég held áfram hvar og hvenær sem er að halda uppi þeirri gagnrýni á samvinnuhreyfinguna og forustumenn hennar sem mér sýnist og geri það vegna þess að ég vil þessari hreyfingu vel, — fyrst og fremst vegna þess. Annars væri ég ekki að elta ólar við það, ef um fyrirtæki væri að ræða sem skipti mig enga. En í öllum bænum þá ætla ég að biðja forsvarsmenn samvinnuhreyfingarinnar að fara ekki að blanda saman vöggunni og veruleikanum, þ. e. a. s. vöggunni og þar á ég við hugsjón samvinnuhreyfingarinnar eins og hún kom fram hjá forustumönnum samvinnuhreyfingarinnar í árdaga, og þeim veraleika sem blasir við okkur allt of víða og á allt of mörgum stöðum í dag, m. a. eins og ég tók skýrt fram — ef það heitir að hella úr skálum reiði sinnar — í félagi við vafasama aðila einkaframtaksins í hlutafélögum eins og samvinnuhreyfingin hefur gert allt of mikið að. Væri gaman að vita hvort þessi hv. sérlegi fulltrúi samvinnuhreyfingarinnar mundi vilja mæla slíku bót hjá þessari almenningshreyfingu.

En sem sagt, ástæðan til þess að ég stóð hér upp við fyrri umr., var einfaldlega sú að hér var vegið ómaklega að ég taldi og óréttlátlega að ákveðnum mönnum sem hér gátu ekki og höfðu ekki tök á að svara fyrir sig. Og það var það sem olli minni umtöluðu reiði. Ég skal þá ítreka að sú reiði getur greinilega magnast meira ef forkólfar samvinnuhreyfingarinnar halda áfram svipuðum málflutningi og hér hefur verið uppi hafður og með svipuðum dæmum sem ég gæti rakið ótalin dæmi af hingað og þangað.