10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3854 í B-deild Alþingistíðinda. (3002)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það hefur verið mjög sérkennilegt að fylgjast með þeim umr. sem hafa átt sér stað um það frv. sem hér liggur frammi til breyt. á l. um atvinnuleysistryggingar. Ég geng þess ekki dulinn að allmikill tvískinnungur hefur verið í þeim málflutningi. Ýmsir hv. ræðumenn hafa lýst því yfir að þeir teldu að þeir mundu greiða þessu atkv. að lokum, hvernig svo sem liði um þá gagnrýni sem þeir beina að fjárhagsatriði málsins, sem í þessu tilfelli snertir Atvinnuleysistryggingasjóð.

Það er auðvitað ljóst að hér er um mikilsvert hagsmunamál að ræða. Og það á a. m. k. ekki við um alla, það sem hv. þm. Svava Jakobsdóttir sagði, að áhugi einstakra þm. á málinu væri alveg nýr. Ég hafði það að atvinnu minni um hálfs annars áratuga skeið að veita forstöðu verkalýðssambandi. Ég hafði hlotið smáskólun áður en ég tók til þess starfa, sem var hjá vinnuveitendasamtökum. Þar kynntist ég strax þeirri staðreynd að fæðingarorlofs nutu konur sem störfuðu hjá því opinbera, og einnig kynntist ég því að sjálf samtökin, sem ég vann hjá, gerðu svo vel við sínar stúlkur sem barnshafandi urðu um þetta leyti og ólu börn sín og nutu kaupgreiðslu frá þessum sömu vinnuveitendasamtökum. Þess vegna var það undireins, að þegar ég gekk í þjónustu verkalýðssamtakanna, þá setti ég þetta fram sem eina höfuðkröfu í kjaradeilu eftir kjaradeilu og allt til loka þess að ég átti að gegna störfum þar. En aldrei náði þetta fram að ganga, þetta sjálfsagða réttlætismál Ég fullyrði ekki að það hafi einvörðungu verið vegna þess að vinnuveitendur voru svo staðir. Auðvitað vorn þeir það. Það fór ekki hjá því að mér þætti á skorta einnig nægjanlegt atfylgi við þetta réttlætismál í eigin röðum.

Því betur sem ég skoða hug minn um þetta, þeim mun sannfærðari verð ég um að þetta réttlætismál nær ekki fram að ganga nema með lagasetningu. Og það er kjarni þessa máls sem við erum að ræða hér. Það er af gersamlegri vanþekkingu á sögu verkalýðshreyfingarinnar fyrr og síðar þegar hv. þm. Svava Jakobsdóttir harmar að allur rétturinn skuli ekki nást í einu, skuli ekki nást þessi réttur til handa öllum konum í einu. Það hefur aldrei náðst í sögu verkalýðshreyfingarinnar. Það hefur alltaf náðst í áföngum, smám saman, og nú yrði það gífurlega mikill ávinningur, sem mundi létta alla framtíðarbaráttu, að ná þessu fram til handa konum í verkalýðssamtökunum, — gífurlega mikill ávinningur sem mundi knýja á um að allar konur næðu þessum sjálfsögðu réttindum sem fæðingarorlof er.

Ég nefndi tvískinnung í þessu sambandi, og menn skella hálfpart í góm yfir því að hér sé ekki um full laun að tefla, t. d. ekki eins og hjá skrifstofustúlkum. En þegar kemur að því að eigi að greiða þetta þá þykir þetta vera hniskja í lagi, sem nemur 150–170 millj. kr. Og menn telja allsendis ófært að leggja þetta á þann sjóð sem hér er gert ráð fyrir, Atvinnuleysistryggingasjóð. Ég ætla að taka það fram að ég álít að Atvinnuleysistryggingasjóður hafi mjög mikilvægu hlutverki að gegna, og eftir þeim kunnugleikum sem ég hef af starfsemi hans, sem eru nokkrir, þá er ég í engum vafa um að á hans málum hefur ákaflega vel verið haldið og til fyrirmyndar. Og ég vil ekki leggja neitt það á Atvinnuleysistryggingasjóð sem kemur til með að skerða getu hans til þess að sinna hlutverki sínu, sem hann hefur getað á undanförnum árum, að neinu marki til frambúðar. En ég álít svo mikilvægt að ná fram lagasetningu um þetta réttlætismál að ég mundi samt ekki skoða hug minn um það í bili að gera honum þetta að skyldu, að annast þetta verkefni, en mundi síðan, þegar séð verður hvað raunverulega um ræðir hér í fjárframlögum og álögum á sjóðinn, vera til þess þegar í stað reiðubúinn að stuðla að því að honum yrði aflað þeirra tekna sem nægjanlegar mundu vera til þess að hann gæti áfram haldið að gegna þeim mikilvægu hlutverkum sem hann vissulega hefur gegnt.

En þegar menn eru hneykslaðir yfir þeim álögum, sem með þessari tillögugerð eru lagðar á Atvinnuleysistryggingasjóð, og telja ósvinnu að leggja slíkt til án þess um leið að sjá fyrir nægjanlegum tekjustofnum, þá er það vissulega annar tónn en oft kveður við þegar hv. stjórnarandstæðingar eru að leggja fram till.. sinar um tugmilljóna, ef ekki hundraða millj. kr. álögur á galtóman ríkiskassann. Þá þarf ekki að sjá fyrir tekjustofnum.

Nei, ég legg ekki mjög eyrun við því þótt það sé reynt að nota sem gagnrýni á þessa tillögugerð að hún skuli ekki bera með sér þessi réttindi til handa öllum konum. Vissulega hefur verkakonan eða konur í verkalýðsstéttum nokkra sérstöðu, því verður alls ekki neitað. Og aðalatriðið er þetta, að þótt ekki náist öll réttindin fram til handa allri kvenþjóðinni í einu, þá er þetta þó það stórt skref að enginn vafi er á að ræður úrslitum til þess að áður en liður munu allar aðrar konur ná þessu fram. Og þegar borið er niður hjá Atvinnuleysistryggingasjóði um þessar álögur, þá álít ég það vera að sínu leyti mjög rökrétt, líka af því að ég er sammála hv. þm. Eðvarð Sigurðssyni um að Atvinnuleysistryggingasjóður er fyrst og fremst eign verkalýðshreyfingarinnar. Þó að hún greiði ekki til hans, heldur sé hann fjármagnaður með öðrum hætti, að 1/4 frá vinnuveitendum, að hálfu frá ríki og 1/4 frá sveitarfélögum, þá varð þessi sjóður til, þessi lífsnauðsynlegri sjóður, fyrir gífurlega harða baráttu verkalýðssamtakanna og ef ég man rétt í lengsta verkfalli sem hér hefur verið háð, allsherjarverkfalli á árinu 1955. Og enda þótt hann sé ekki alfarið undir stjórn verkalýðshreyfingarinnar, þá lit ég og hef raunar litið svo til frá upphafi að hann væri fyrst og fremst hennar eign. Þess vegna er það að þegar verið er að leggja til að konur í verkalýðssamtökunum njóti þessara réttinda, þá er ekkert eðlilegra en að fyrst sé borið niður hjá Atvinnuleysistryggingasjóði.

Mér býður í grun að það ætti að liggja nokkurn veginn ljóst fyrir, t. d. á hausti komanda, hvað miklar álögur á sjóðinn hér yrði um að tefla, og fram til þess tíma getur ekki verið um svo þungar búsifjar honum til handa að ræða að hann fái ekki undir þeim risið. Verði þá hægt að sýna fram á að fenginni reynslu og þeim útreikningum, sem þá er hægt að leggja til grundvallar, að þá þurfi á auknum tekjustofnum að halda, þá skal ég verða fyrstur manna til þess að leggja lóð á þá vogarskál.

Það er ekkert nýtt að það sé mjög fjargviðrast yfir því að hlutirnir kosti mikið. En ég verð að segja það að þegar svona réttlætismál er í boði, þá vil ég ekki í sama orðinu hafa frammi tvískinnungslegt tal um það að þjóðfélagið fái ekki undir því risið því að vitanlega er þessi sjóður almannaeign þó að verkalýðshreyfingin eigi þar fyrsta rétt.

Það var sagt af hv. þm. Svövu Jakobsdóttur að það væri nóg komið af áföngunum. Eins og ég sagði, það er staðreynd og það geta menn kynnt sér í allri sögu verkalýðshreyfingarinnar, að ekkert hefur náðst í einu skrefi. Þetta hefur unnist með harðri og langri baráttu smám saman fram til þess að yfirleitt verða menn að telja að nú sé verkalýðshreyfingin sæmilega sett í réttindamálum sínum, en kannske síst að þessu leyti, hvað varðar greiðslur til kvenna vegna barnsburðar. Þess vegna er það með tilliti til þess, sem ég hef nú sagt, að ég legg til að þetta frv. verði að lögum á þessu þingi.

Hv. þm. Eðvarð Sigurðsson greindi frá fjárhagsástæðum sjóðsins. Það þarf og má e. t. v endurskoða lög um hann líka. T. d. er ég ekki fullkomlega sannfærður um að það sé réttlætanlegt að gera honum að skyldu að verja svo miklu af ráðstöfunarfé sínu til íbúðabygginga eða kaupa skuldabréfa Byggingarsjóðs eins og gert er. Ég held að þessi sjóður sé miklu skyldari atvinnulífinu í landinu en svo, að ástæða sé til að gera honum að skyldu að festa svo mjög fjármögnun í steinsteypu og þá mest á Reykjavíkursvæðinu, sem hefur verið mestur spennuvaldurinn í íslensku efnahagslífi um hríð og dæmi eru til um áður. Samt þóttist ég taka eftir því að mörkuð útgjöld hans væru eftir lögum og þeirra áætlunum 633 millj., en ráðstöfunarfé hans yrði um 870 millj., þannig að þarna væru umfram um 237 millj. Hann gat þess að í mörg önnur horn þyrfti að líta og ekki verður það í efa dregið. En ég kunni ekki við þann tón, þann bankastjóratón sem ég vil kalla, að vera að hafa á orði hálfgildings hótanir um það að ef sjóðnum yrði gert að standa undir þessum álögum, þá skyldi öðrum brýnum umsóknum, sem þar lægju inni til nauðsynlegra verka, verða neitað, bæði frá Reykjavíkurborg og í hafnarsjóð o. fl. Það var heldur óviðkunnanlegur hótunartónn sem greinilega átti að vega þungt í andstöðunni við frv. sem hér liggur fyrir til afgreiðslu.

Ég endurtek það að mér finnst höfuðatriði þessa máls að ná því fram að konur í verkalýðsstétt eignist þessi réttindi. Hallist á á fjárhagshliðinni, og það fáum við að sjá áður en líður, þá verður enginn vandi að ná samkomulagi um að rétta þann halla af.