10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3867 í B-deild Alþingistíðinda. (3009)

225. mál, Hússtjórnarkennaraskóli Íslands

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson); Hæstv. forseti. Þetta frv. er komið hingað frá Ed. Megintilgangur þess er að samræma ákvæðin um kennslu hússtjórnarkennara ákvæðum í væntanlegum lögum um hússtjórnarskóla annars vegar og svo hins vegar að aðlaga ákvæði um starf og tilhögun í Hússtjórnarkennaraskóla Íslands þeim breyttu viðhorfum ýmsum til hússtjórnar eða heimilisfræðanáms sem vissulega hafa orðið frá því að lög um Húsmæðrakennaraskóla Íslands voru sett á sínum tíma. Ég gerði grein fyrir einstökum atriðum þessa frv. við 1. umr. þess í Ed. Sú ræða liggur nú fyrir í Alþingistíðindum og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka hana hér.

Ég legg til að málinu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.