12.05.1975
Neðri deild: 85. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3933 í B-deild Alþingistíðinda. (3151)

104. mál, almannatryggingar

Frsm. (Guðmundur H. Garðarsson):

Hæstv. forseti. Heilbr.- og trn. hefur fjallað um þetta frv., en frv. um þetta sama efni hafa oft áður verið flutt á Alþ., m.a. á síðasta þingi, en þrátt fyrir góðar undirtektir þingnefnda og áskorun íþróttasamtakanna eigi náð fram að ganga. Hefur barátta fyrir þessum sjálfsögðu réttindum íþróttafólks staðið í marga áratugi. Það er álit n. að tímabært sé að íþróttafólk njóti þeirra trygginga sem frv. gerir ráð fyrir. Íþróttir og íþróttaiðkanir gegna veigamiklu hlutverki í uppeldiskerfi þjóðarinnar. Ber því að hlúa að þessari starfsemi eftir föngum. Heilbr.- og trn. leggur til að frv. verði samþ. óbreytt og nái fram að ganga á þessu þingi.