27.11.1974
Neðri deild: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (323)

54. mál, skylduskil til safna

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þó að ég óskaði eftir greiðri afgreiðslu á þessu máli í hv. þd. mega hv. þm., sem sæti eiga í menntmn., né heldur aðrir hv. þdm. ekki skilja orð mín svo sem ég vilji mælast undan því að eðlilegur tími verði tekinn til þess að skoða þetta mál. Það var ekki ætlunin. Það verður alltaf að fara eftir því sem þm. sjálfir meta fært og ekki síst hv. nm. í menntmn.

Skylduskilin áður voru svolítið breytileg, þau voru frá 4 eintökum á tilteknu prenti, smáprenti, og upp í 12 eintök mest. Þannig eru ákvæðin í þeirri löggjöf sem nú gildir. Hugsunin á bak við þetta frv. er annars vegar það, sem ég lagði sérstaka áherslu á og er megintilgangurinn að gera alveg glöggt hvað fyrir löggjafanum vakir hvernig skuli fara með varðveisluna. Það er höfuðatriðið. Hins vegar er svo það að mönnum þykir sú kvöð, sem lögð er á bókaútgefendur með lögunum eins og þau eru núna, ekki alls kostar eðlileg. Það er ekki svo lítið fjármagn sem er t.d. bundið í 12 eintökum af þeim dýru og vönduðu bókum sem nú er tekið að gefa út hér á landi, a.m.k. þeim allra dýrustu. Menn þurfa auðvitað að gera upp hug sinn gagnvart þessu atriði ekki síður en öðrum atriðum sem frv. fjallar um, hvað þeim sýnist um þetta. Þá er spurningin hvort það sé eðlileg kvöð að hinu leytinu að leggja á þau söfn, sem hafa fengið skyldueintök, en nú er ráðgert að fella niður, þá kvöð að varðveita allt prentað mál sem út er gefið á Íslandi og hvort það er í raun og veru framkvæmanlegt til frambúðar, eins og nú er komið.

Mismunur er á eintakafjöldanum, 12 þegar mest er, og því sem kemur fram í lögunum. Landsbókasafnið hefur fengið 2 eintök til nota hjá sér, Háskólabókasafnið 1 og svo amtsbókasöfn. Þetta eru 7. Afgangurinn, þegar um 12 eintök er að ræða, þau 5 eintök hafa verið notuð að meginparti, — ég er ekki viss um, að það sé alveg tæmandi, — en að meginparti til bókaskipta við erlenda aðila og t.d. hvað það út af fyrir sig snertir hljóta menn mjög að velta því fyrir sér hvort sé eðlilegt að ætla bókaútgefendum að standa undir slíkum viðskiptum, þó að þau séu hagkvæm fyrir þá sem þeirra njóta.

Hv. 4. þm. Vestf. drap á að það væri í sjálfu sér einfaldara mál að skila söfnunum þessum eintökum, sem þau hafa nú fengið, heldur en fara að hækka fjárveitingar til bókasafnanna. Á þessu máli eru auðvitað fleiri hliðar. Það má t.d. varpa fram þeirri spurningu hvort það sé eðlilegra að þessi 3 tilteknu söfn fái þessa sérstöku fyrirgreiðslu, sem er mjög mikil miðað við það sem öll önnur söfn fá, og halda uppi slíkum mismun á milli hinna ýmsu safna á landsbyggðinni ellegar drífa síg í það, sem ég vona að hv. Alþ. geri í vetur, að ljúka endurskoðun á l. um almenningsbókasöfn og auka fjárframlög til þeirra almennt. Það mundi án alls efa koma jafnar niður en þótt þessu væri haldið og minna eða ekkert gert að því að hækka fé almennt til bókasafnanna.

Þetta eru allt atriði sem koma til álita og menn hljóta að íhuga áður en þeir gera upp við sig afstöðuna til þeirra ákvæða, sem frv. felur í sér, og þar með til frv. sjálfs. — Ég vildi láta þetta koma fram til viðbótar.