14.05.1975
Efri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4074 í B-deild Alþingistíðinda. (3329)

253. mál, þjóðminjalög

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta er stjórnarfrv. sem var flutt í Nd. og fékk þar ágætar undirtektir.

Árið 1975 hefur verið kallað húsafriðunarár hér og í nálægum löndum. Íslendingar hafa vissulega í mörg horn að líta um varðveislu bygginga, sögulegra minja og verðmæta. Þeim málum hefur áður verið sýndur skilningur með því að fella inn í lög um Þjóðminjasafn Íslands ákvæði um húsafriðunarnefnd. Þessi n. hefur haft yfir mjög litlu fjármagni að ráða til þessa, en með þessu frv. er lagt til að stofna svokallaðan Húsafriðunarsjóð er starfa mundi undir stjórn þessarar n. og þar með undir hatti Þjóðminjasafns Íslands.

Ég vil leyfa mér að leggja til að þessu frv. verði vísað til hv. menntmn. að lokinni þessari 1. umr.