14.05.1975
Efri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4078 í B-deild Alþingistíðinda. (3333)

240. mál, ríkisreikningurinn 1972

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur tekið frv. til l. um samþykkt á ríkisreikningnum fyrir árið 1972 til athugunar og mælir með því að það verði samþ. Jón Sólnes og Ragnar Arnalds voru fjarstaddir þegar málið var afgr.

Ég vil láta það koma fram að það kom fram í umr. í n. að það er nokkur óánægja með hvernig þessum málum er komið fyrir. Við alþm. fáum hér í hendur ríkisreikninga áritaða af yfirskoðunarmönnum. Það var álit okkar í n. að það væri eðlilegra að ríkisendurskoðunin heyrði beint undir Alþingi íslendinga og að ríkisendurskoðunin gæfi okkur þm. skýrslu um rekstur og afkomu hinna ýmsu stofnana ríkisins á hverju ári. Með því væri ríkisendurskoðunin gerð að hlutlausri stofnun sem ætti að skrifa sínar skýrslur hingað beint til þingsins, en ekki til rn. Það eru miklar deilur hér á hverju þingi um það hvernig fjárveitingar skuli vera í það og það skiptið, og það er ekki minna mál hvernig þessum fjárveitingum er varið, á hvern hátt þær nýtast og hver verður árangur af þeim. Því er nauðsynlegt að gefnar séu yfirgripsmiklar skýrslur til Alþ. um þessi mál, og því vil ég leggja áherslu á þá skoðun sem kom fram í n. að þessum málum yrði betur fyrir komið í framtíðinni.