14.05.1975
Efri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4087 í B-deild Alþingistíðinda. (3344)

251. mál, ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð frsm. meiri hl. að mér er ljóst að þetta mál þolir ekki bið og hefði verið betur ef það hefði verið afgr. fyrr frá Alþ. En ég hins vegar harma það að n. beggja d. skyldu ekki hafa þann hátt á eins og flestar aðrar stærri n. þingsins að halda sameiginlega fundi um þetta mál. Það hefði mjög getað flýtt fyrir afgreiðslu þessa máls og orðið til þess að auðvelda afgreiðslu þess í þessari deild.

Ég mun ekki gera að umtalsefni frv. þetta í heild, heldur fyrst og fremst gera grein fyrir þeim brtt., sem ég flyt ásamt hv. þm. Steingrími Hermannssyni, enda hefur frsm. meiri hl. gert ítarlega grein fyrir málinu.

Það má skipta frv. þessu í þrennt:

Í fyrsta lagi er skipting þess fjármagns, sem kemur á reikning ríkissjóðs skv. ákvæðum 2. gr. l. nr. 2 1975, um ráðstafanir vegna ákvörðunar um breyt. á gengi íslenskrar krónu. Um réttmæti þessarar skiptingar má lengi deila og ætla ég ekki að rekja það frekar hér. Það er hins vegar mjög jákvætt og stefnubreyting sem felst í ákvæðum 1. gr. í b-lið þar sem stendur að 950 millj. kr. skuli ráðstafað til þess að létta stofnfjárkostnaðarbyrði eigenda fiskiskipa, sem orðið hafa fyrir gengistapi vegna erlendra og gengistryggðra skulda, með skilyrðum sem rn. setur. Það mun vera ætlun rn. að þessum upphæðum verði þinglýst sem kvöð á þessi skip þannig að þessar upphæðir komi til greiðslu sérstaklega ef skipin eru t.d. seld úr landi og þessar upphæðir komi til með að hvíla á skipunum sem kvöð alla tíð. Þarna er verulega komið til móts við það sjónarmið að rétt væri að jafnvel lána þetta fé með lágum vöxtum til langs tíma.

Á þskj. 731 flytjum við brtt. við ákvæði d-liðar. Þessi líður fjallar um það að bæta skuli eigendum fiskiskipa það tjón sem þeir verða fyrir ef skip þeirra eru dæmd ónýt, enda sé tjónið ekki bætt með öðrum hætti. Okkur þykir rétt að kveðið sé á um það að þetta fé skuli greitt til Fiskveiðasjóðs og leggjum því til, að upphaf gr. orðist svo: „Til Fiskveiðasjóðs Íslands til að bæta eigendum fiskiskipa.“

Hér er í fyrsta skipti viðurkennd sú staðreynd að það eru miklir erfiðleikar fyrir þá aðila sem eru með ónýt fiskiskip, en þau eru ekki bætt með tryggingu, að halda áfram útgerð. Þetta er vissulega spor í áttina, en því miður hrekkur þessi upphæð sjálfsagt skammt. En aðalatriðið er í upphafi að viðurkenna þessa erfiðleika.

í öðru lagi fjallar frv. þetta um útflutningsgjald í því skyni að greiða niður olíu til fiskiskipa. Með þessari ákvörðun er aukið við sjóðakerfi sjávarútvegsins sem þegar er orðíð verulegt vandamál. Sjómenn og útvegsmenn hafa iðulega samþ. að freista þess að draga úr hinu mikla sjóðakerfi. Það er að mínum dómi eðlilegt að sjómenn og útvegsmenn freisti þess að leysa þessi mál innan sinna eigin vébanda, og ég legg traust mitt á það að þeim takist það á þessu ári. En ef það tekst ekki hlýtur að koma til kasta Alþ. að finna skynsamlega leið að hinu reyndu. Ég vil hins vegar taka það fram að það er vissulega alvarlegt — ef rétt er — ef um miklar tilfærslur er að ræða milli hinna ýmsu greina sjávarútvegsins, þ.e.a.s. milli bátaflota, milli minni skuttogara og milli stærri skuttogara. Ég hef beðið um upplýsingar um það hversu mikið bátar leggja í þennan olíusjóð og fái hins vegar úr honum, en því miður ekki fengið þær enn. En ég óttast að þar sé um verulegar færslur að ræða frá bátaflotanum sérstaklega yfir á stærri togarana.

Kjör bátasjómanna eru fremur slæm. Þeir skila erfiðum vinnudegi og eiga mjög góð kjör skilið. Það verður ekki skilið í milli manns og báts og þess vegna verðum við að hafa það í huga að kjör þessara manna séu sem allra best svo að þessi útgerð, bátaútgerðin, megi blómstra í framtíðinni.

Í þriðja lagi fjallar frv. þetta um nokkur ákvæði til bráðabirgða. Þar er ákvæði sem ekki hefur verið áður í tilsvarandi lagasetningu. Það er 3. tölul. sem er á þessa leið, eins og hann kemur breyttur frá Nd., með leyfi hæstv. forseta:

„Ákvæði b-liðar 1. málsgr. 2. gr. l. nr. 2 13. febr.1975, um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breyt. á gengi íslenskrar krónu, um 20% frádrátt vegna gengismunar skulu taka til afurða framleiddra úr loðnu sem landað hefur verið fyrir 16. febr. 1975. Sjútvrn. skal setja reglur um framkvæmd þessa liðar þar sem m.a. verði kveðið á um hvernig meta skuli það afurðamagn sem framleitt hefur verið úr hráefnisbirgðum loðnuverksmiðja eins og þær voru um miðnætti 15. febr. 1976.“

Við flm. brtt. við þessa málsgr. leggjum til að þar við bætist: „Reglur þessar skulu við það miðaðar að ofangreindur frádráttur verði ekki hærri en sem svarar mismun á hráefnisverði fyrir og eftir 16. febr.“ — til þess að hér verði tekin af öll tvímæli.

Í lögum um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breyt. á gengi íslenskrar krónu, sem samþ. voru á Alþ. 13. febr. s.l., segir svo í upphafi 2. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Þá er skilað er til banka gjaldeyri fyrir útfluttar sjávarafurðir skal hann greiddur útflytjanda á því kaupgengi sem í gildi er þegar skjölin eru afgreidd í banka við gjaldeyrisskil að frádregnum gengismun, sem hér segir:

a. Fyrir afurðir framleiddar fyrir 1. sept. 1974 skal frádráttur nema 34%.

b. Fyrir afurðir framleiddar á tímabilinu 1. sept. 1974 – 15. febr. 1975 skal frádráttur nema 20%.

Undanþegnar eru þó afurðir þorskveiða sem framleiddar eru frá og með 1. jan. 1975.“

Hér er sem sagt eingöngu rætt um afurðir sem eru framleiddar á tímabilinu 1, sept. — 15. febr. Hráefni í þróm loðnuverksmiðja og óunninn fiskur í húsi er ekki framleiðsla og er því vafasamt að lögin nái til þessa hráefnismagns. Ákvæði 3. liðar í ákv. til brb. stangast því á við ákvæði l. frá 13. febr. 1975. Það er ætíð vandasamt að draga mörk og á það ekki síst við í þessu tilfelli. Sú regla hefur ætíð gilt við svipaðar ráðstafanir að draga mörkin við birgðamagn fullunninna afurða. Breyting í þessu efni krefst aðgæslu og fyllstu vandvirkni, ef sanngirni skal gætt. Eins og lögin voru lögð fram í upphafi var gert ráð fyrir að 20% frádrátturinn skyldi ná til allra afurða sem framleiddir eru eftir 15. febr. hafi hráefnis verið aflað fyrir 15. febr. Verksmiðja með 2 þús. tonna afkastagetu og 2 þús. tonna þróarrými skildi þannig skila 20% af verðmæti afurðanna sem framleiddar voru daginn eftir gengisfellinguna en verksmiðja með 7 þús. tonna þróarrými og 5 þús. tonna afkastagetu skyldi skila 20% af verðmæti afurðanna sem framleiddar voru í 14 daga eftir gengisfellinguna. Ef til væri verksmiðja með 20 þús. tonna þróarrými og 500 tonna afkastagetu hefði hún átt að skila 20% af verðmæti afurðanna í 40 daga eftir gengisfellinguna. Þessi ákvörðun er rökstudd þannig á bls. 6 í aths. með frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Sú loðna, sem á land var komin 16. febr. s.l., var greidd á eldra verði sem miðaðist við eldra gengi og aðföng til vinnslunnar voru einnig keypt með sama hætti á eldra gengi fyrir þennan tíma. Telst því sanngjarnt að afurðir framleiddar úr loðnu sem landað hefur verið fyrir 16. febr. s.l., greiðist á eldra gengi.“

Við fyrstu sýn virðast vera færð fremur gild rök, en við nánari athugun kemur í ljós að hér er ekki gætt þeirrar vandvirkni sem er nauðsynleg við slíkar ákvarðanir. Það hráefnismagn, sem komið var í þrær fyrir 16. febr. og var óunnið, var u.þ.b. 80 þús. tonn. Verð á loðnu hækkaði við gengisfellinguna úr 1.90 kr. á hvert kg í 2.45 kr., þ.e. 55 aura hvert kg, eða 63 aura, ef bætt er við framlagi í Stofnfjársjóð. Það er því staðreynd sem ekki verður á móti mælt að gengishagnaður er á þessu hráefni og nemur sá hagnaður 63 aurum á hvert kg eða 50.4 millj. kr. Varðandi aðföng til verksmiðjanna gegnir öðru máli. Hæsti kostnaðarliður vegna vinnslu loðnuverksmiðju er vinnulaun ef ekki er tekið tillit til stofnkostnaðar, afskrifta, vaxta og þess háttar kostnaðarliða. Vinnulaun breyttust ekki, hvorki hjá verksmiðjum sem keyptu hráefni daginn fyrir eða daginn eftir gengisfellingu. Þar var engin breyt. á eins og hv. alþm. er kunnugt um. Olía er hins vegar mjög hár kostnaðarliður og stór þáttur aðfanganna. Verksmiðjurnar áttu í miklum erfiðleikum á s.l. ári. Það var erfiðleikum háð að koma þeim af stað og því ekki um það að ræða að safna birgðum af rekstrarvörum. Flestar verksmiðjurnar kaupa olíu eftir mæli og olíufélögin eiga birgðirnar. Síldarverksmiðjur ríkisins munu hins vegar hafa átt einhverjar birgðir af olíu. Í flestum tilfellum hækkar því olían við gengisfellinguna. Umbúðir og rotvarnarefni og fleiri slíkir liðir eru ekki stór þáttur í heildarkostnaði, en í því sambandi vil ég vísa til bréfs nokkurra fiskmjölsframleiðenda til hæstv. ráðh. sem sjútvn. Ed. barst afrit af, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Flestar verksmiðjurnar, sem á annað borð voru með loðnu í þróm 10. febr., höfðu verið í fullri starfrækslu í u.þ.b. 3–4 vikur. Umbúðir, rotvarnarefni og önnur aðföng, sem til höfðu verið í byrjun vertíðar og keypt höfðu verið á eldra gengi, hafa einmitt notast að verulegu leyti upp á fyrstu vikunum og hafa flestar þess vegna verið farnar að nota aðföng sem enn voru á ógreiddum erlendum víxlum þar sem fjárhagur verksmiðjanna hafði ekki að undanförnu leyft birgðasöfnun rekstrarvara.“

En jafnvel þótt eitthvað smávægis hafi verið til að þessum vörum, sem ég get því miður ekki fullyrt um — til þess hefur skort tíma að afla slíkra fullnægjandi upplýsinga — þá er hér um frekar óverulegan lið að ræða í heildarkostnaði vinnslunnar. En það er hins vegar ljóst að þær fullyrðingar, sem lagðar voru fram um að aðföngin væru keypt á eldra gengi, hafa verið settar fram án þess að náin athugun hafi verið framkvæmd í þeim efnum. Er það miður. En hins vegar var að sjálfsögðu mögulegt að koma breytingum að í meðferð frv.

Það var viðurkennt í meðferð málsins í Nd. að hér væri ekki rétt að farið. Augljóst væri að 20% frádrátturinn legðist misþungt á verksmiðjur eftir því hversu miklu magni hefði verið tekið á móti í þrær. Það hefði því augljóslega verið hagkvæmt fyrir verksmiðjur að taka á móti minna magni ef ákvæði þessi hefðu náð fram að ganga. Sem betur fer er sú hugsun rík og efst í huga í öllum sjávarþorpum í landinu að það sé skylda íbúanna að bjarga eins miklu á land og hægt er. Ef mikið berst á land, þá er unnið sleitulaust og unglingar fá frí í skólum. Þennan hugsunarhátt á þjóðfélagið að þakka og virða og gæta þess að hegna mönnum ekki fyrir slíka hugsun.

Nd. tók ákvæði 3. liðar ákv. til brb. til endurskoðunar og gerði nokkrar breytingar á, en sú túlkun, sem fylgdi með, er að mínum dómi vafasöm og því flyt ég ásamt hv. þm. Steingrími Hermannssyni brtt. á þskj. 731 í því skyni að taka hér af allan vafa. Það ákvæði ásamt aths., sem bætt var við í meðförum Nd., hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Setja skal með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessa liðar þar sem m.a. verði kveðið á um hvernig meta skuli það afurðamagn sem framleitt hefur verið úr hráefnisbirgðum loðnuverksmiðja eins og þær voru um miðnætti 15. febr. 1976.“

Eftirfarandi aths. voru gerðar við þetta ákv. til brb., og ætla ég að lesa þær upp hér, með leyfi hæstv. forseta:

„Ákvæði þetta er nokkuð óvenjulegt þar sem það felur nánast í sér túlkun á því hvað felist í orðinu „framleiðsla“ í skilningi l. nr. 2 frá 1975, um ráðstafanir vegna gengisbreytingarinnar 14, febr. s.l.

Þegar þess er gætt að af þeim 155 þús. tonnum af loðnu, sem á land voru komin að kvöldi hins 15. febr. s.l., eru allt að 80 þús. tonn talin hafa verið í þróm verksmiðjanna er eðlilegt að sett séu sérstök ákvæði um meðferð þeirrar framleiðslu sem rekja má til þessa magns sem allt var að sjálfsögðu verðlagt á hráefnisverði sem miðaðist við eldra gengi.“

Síðan segir:

„Vitaskuld verður framleiðslan ekki til á örskotsstund og því margs að gæta í þessu sambandi.“

Þetta er að sjálfsögðu rétt. En framleiðsla hráefnis í þróm verður aldrei kölluð framleiðsla að mínum dómi og er því komin, ef svo er, algjörlega ný skilgreining á hugtakinu „framleiðsla“.

„Enginn vafi er á því að framleiðslan“ — ef ég held áfram lestri mínum — „úr þessum 80 þús. tonnum hefur orðið til við skilyrði afar lík þeim sem giltu fyrir þá framleiðslu sem komin var í birgðir eða hafði verið flutt út fyrir 15. febr. 1975, þótt nokkuð af aðföngum til vinnslunnar kunni að hafa verið greidd eftir gengisbreytinguna. Því er lagt til að settar verði sérstakar reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

Gert er þannig ráð fyrir að reglurnar verði í aðalatriðum reistar á tvenns konar heimildum. Annars vegar verði byggt á skýrslum Fiskifélags Íslands um móttekið hráefnismagn á miðnætti 15. febr. 1976 og nm fullunna framleiðslu og birgðir loðnuafurða hverrar verksmiðju á sama tíma. Með því að áætla það hráefnismagn, sem farið hefur í fullunnar afurðir skv. framleiðsluskýrslum, og draga það frá tölum um móttekið hráefnismagn fæst áætlun um hráefni í birgðum. Hins vegar verði byggt á upplýsingum loðnunefndar um laust þróarrými hjá hverri verksmiðju á þessum tíma. Sé þessi stærð dregin frá áætluðu heildarþróarrými fæst áætlað magn hráefnis í þrónum.“

Síðan segir:

„Vegna óhjákvæmilegrar óvissu um þessar áætlanir og til þess að fyllstu sanngirni sé gætt er reiknað með því að hráefnismagnið verði í þessu skyni metið sem 2/3 þess magns sem beinar áætlunartölur, samkv. því sem áður sagði, gefa sem niðurstöður. Síðan verði áætlað afurðamagn úr þessu hráefni metið á grundvelli þeirrar nýtingar talna sem taldar voru gilda um vikuna 9/2–15/2 1975, þ.e.a.s. 15% mjöl og 5.3% lýsi. Því afurðamagni, sem þannig fæst, verði síðan bætt við birgðamagnið hjá hverri verksmiðju og það magn allt gert upp á eldra gengi við gjaldeyrisskil.“

Gengismunur, sem áætlaður er af þeim afurðum sem framleiddar voru úr hráefni sem var í þróm þann 16. febr., er talinn verða u.þ.b. 116 millj. kr. Í aths. um breyt. Nd., sem ég hef nú rétt upp lesið, sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna óhjákvæmilegrar óvissu um þessar áætlanir og til þess að fyllstu sanngirni sé gætt er reiknað með því að hráefnismagnið verði í þessu skyni metið sem 2/3 þess magns sem beinar áætlunartölur, samkv. því sem áður sagði, gefa sem niðurstöður.“

Samkv. þessu skal hráefnisverðið metið sem 2/3 af 116 millj. kr. eða tæplega 80 millj. kr., en samkv. því, sem ég sagði áður, er gengismunur á hráefninu sjálfu u.þ.b. 50 millj. kr.

Rökstuðning fyrir 2/3 hlutum er ekki að finna í aths. að öðru leyti en því að vísað er til óvissu um þessar áætlanir og að fyllstu sanngirni skuli gæta. Bak við allar áætlanir hlýtur að vera einhver hugsun ef á þeim á að byggja. Hinn raunverulegi verðmunur fyrir og eftir gengisbreytingu er 63 aurar pr. kg, en samkv. aths. með samþykkt Nd., sem ég hef áður rakið, skal þessi munur talinn 1 kr. Þessi verðmunur er fenginn á eftirfarandi hátt: Hráefnisverðbreytingin, sem varð eftir gengisfellinguna tók mið að því að verð á mjöli hafði lækkað úr 4.25 dollurum í 4 dollara og lýsi hafði einnig lækkað úr 513 dollurum í 450–460 dollara tonnið. Ef þessi verðlækkun hefði ekki átt sér stað hefði verðbreytingin orðið a.m.k. 1 kr. Hins vegar var þessi verðlækkun staðreynd og því augljóst að verðlækkun á hráefni hefði orðið hvort sem gengið hefði veríð fellt eða ekki.

Því hefur verið haldið fram í þessu sambandi að sala afurðanna verði í svipaðri röð og öflun hráefnisins, þannig selji verksmiðjurnar, sem afla hráefnisins fyrst, sínar afurðir fyrr en aðrar verksmiðjur. Þessu vil ég mótmæla sem rökum fyrir þeim útreikningum sem ég hef áður rakið, og hef ég fengið það staðfest af starfsmanni í viðskrn. Allir skynsamir framleiðendur selja eitthvað magn fyrir fram. Fyrirframsölur gengu illa á s.l. ári. Minna hlutfall af áætlaðri framleiðslu var selt nú en oft áður. í júlímánuði á s.l. ári eru seld ca. 9 þús. tonn af mjöli og eru það fyrstu fyrirframsölur. Verksmiðjur við Faxaflóa áttu um 2 500–3 000 tonn í þessari sölu, Vestmannaeyjar ca. 4. þús. tonn og verksmiðjur á Suðurnesjum, Austfjörðum og annars staðar eitthvert magn.

Þessar fyrirframsölur sýna að verksmiðjur alls staðar á landinn selja fyrir fram og því ekki raunhæft að blanda sölumálum inn í ákvörðun um gengismun á hráefni.

Brtt. mín og hv. þm. Steingríms Hermannssonar gengur út á að það skuli kveðið skýrt á um það að frádráttur vegna hráefnis verði einungis sem svarar verðmismun á hráefninu sjálfu. Við teljum að önnur regla valdi mismunun á milli framleiðenda eftir því hvað mikið magn var í þróm, en hins vegar teljum við eðlilegt að verksmiðjurnar greiði gengismun sem svarar verðmun á hráefninu sjálfu.

Það má kannske spyrja í framhaldi af þessu hvaðan það fjármagn, sem þarna um ræðir og er u.þ.b. 30 millj., skuli fengið. Ég hafði gert ráð fyrir því að það mundi reynast nauðsynlegt að lækka þá skiptingu, sem felst í ákvæðum 1. málsgr. Hins vegar verður ekki annað séð á útreikningi á gengismun en þar sé reiknað með því að birgðir sjávarafurða samkv. birgðaskýrslum séu um 4.5 milljarðar. Sú birgðaskýrsla, sem þessi tala er byggð á, er heldur hærri og er það sjálfsögð varfærni. Þar er gert ráð fyrir allmiklu magni af loðnulýsi og loðnumjöli, sem virðist samsvara nokkurn veginn því magni sem hafði verið unnið úr á þessum degi, eða um 76 þús. tonnum. Í þessari áætlun er hvergi gert ráð fyrir gengismun af afurðum sem eru framleiddar úr loðnu, sem var í þróm, eftir þennan tíma, en hins vegar skal þess getið, að það hefur orðið allveruleg verðlækkun á einhverjum liðum þessara útreikninga frá því að þeir voru gerðir og ber að sjálfsögðu að taka tillit til þess. Verði lögð fram gögn sem sanni að sú upphæð sé meiri en sem nemur þeim 50 millj. kr. sem við leggjum til að renni í gengismunarsjóð er ég að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að leggja fram till. í því skyni að þess verði gætt að þetta fjármagn sé fyrir hendi.

Herra forseti. Ég hef nú lokið máli mínu. Ég tel að hér hafi verið farið inn á nýja braut sem ég vil ekki mótmæla að neinu leyti í sjálfu sér, að það sé tekinn gengismunur af hráefnismagni þar sem um svo gífurlegt magn var hér um að ræða. En menn verða að gæta þess þegar svo er gert að þar sé gætt vandvirkni og sanngirni því að satt best að segja hafa áður verið sett lög, þann 13. febr. 1974, þess efnis að það skuli eingöngu tekinn gengismunur af framleiðslunni sjálfri. Ef ekki er farið að með fyllstu varkárni hér, þá er mikil hætta á því að slíkt muni draga málaferli á eftir sér.