14.05.1975
Neðri deild: 87. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4135 í B-deild Alþingistíðinda. (3388)

258. mál, Viðlagatrygging Íslands

Frsm. (Guðmundur H. Garðarsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umr. mikið, en vil þó segja hér nokkur orð vegna ummæla hv. 5. þm. Vestf. og hv. 3. þm. Reykv.

Vegna ummæla hv. 5. þm. Vestf. um að það sé verið að hraða þessu frv. með óeðlilegum hætti gegnum þingið og það hafi ekki hlotið þá meðferð, sem æskilegt sé að það fái, þá vil ég vekja athygli á því að við undirbúning þessa frv. störfuðu mjög hæfir menn sem heilbr.- og trmrh. skipaði til þeirra starfa með bréfi dags. 30. des. 1974. Voru það þeir Ásgeir Ólafsson forstjóri, Benedikt Sigurjónsson hæstaréttardómari og Bjarni Þórðarson tryggingafræðingur. Ég vil einnig vekja athygli á því að Ed. hefur fjallað um þetta frv. og fékk það mjög góðar undirtektir í þeirri d. (Gripið fram í.) Án þess að draga í efa hæfni Helga Bergs bankastjóra á ýmsum sviðum, þá dreg ég stórlega í efa að hans orð ein eða umsögn hafi meira gildi en störf þeirra þriggja manna, sem hafa undirbúið frv., eða afgreiðsla Ed. á þessu máli. Ég leyfi mér að draga það stórlega í efa, enda vil ég ekki gera ráð fyrir því að þótt til séu kvaddir bankastjórar ríkisbankanna og þó að þeir hafi starfað sem slíkir við ákveðin störf, eins og hv. bankastjóri á vegum Viðlagasjóðs, þá þurfi þm. yfirleitt í n. að fara einfarið eftir þeirra ráðum eða fyrirmælum. Ég veit að hv. 3. þm. Reykv. er mér algjörlega sammála um þetta. (Gripið fram í: Það komu engin fyrirmæli frá þeim.)

En varðandi það atriði, að ekki hafi verið til kvaddir á okkar fund þeir þrír menn sem undirbjuggu frv., þá verð ég að segja það að þegar betur var að gáð og litið til þeirra aths. sem Helgi Bergs og Erlendur Lárusson komu fram með á nefndarfundi í heilbr: og trn., þá voru þær ekki svo flóknar að ástæða væri til að kalla til þessa þrjá sérfræðinga. Ég segi fyrir mitt leyti, að þær aths. voru frekar léttvægar og alls ekki það tæknilega flóknar, að nm. heilbr: og trn. gætu ekki um þær aths. fjallað óstuddir. Hér var yfirleitt um matsatriði að ræða, ákvörðunaratriði, en ekki flókin tæknileg atriði.

Þess vegna held ég að hv. þm. í Nd. sé algjörlega óhætt að treysta á dómgreind nm. í heilbr.- og trn. og svo á eigin dómgreind. Það getur verið að sumir hv. þm. treysti sér ekki til þess, svo sem 5. þm. Sunnl., en þá verður hann að eiga það við sig, en ég beini þessum orðum mínum til annarra hv. þm.

Ég vil taka það fram strax vegna ummæla hv. 3. þm. Reykv. að ég var algjörlega ósammála þeim Helga Bergs sérstaklega og Erlendi Lárussyni um flestar aths. sem þeir komu með á nefndarfundi í heilbr.- og trn., að undanskildu einu atriði sem er ákvæði 13. gr. Ég get tekið undir þá aths. hv. 3. þm. Reykv. að það er ekki hægt að leggja á mann skyldur án þess að hann fái rétt á móti. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að miðað við gildistöku laganna sé unnt og frambærilegt að endurskoða þetta ákvæði strax í upphafi þings í haust. Að mínu mati er aðalatriðið það að yfirstandandi Alþ. samþykki þessi mikilsverðu lög og festi þar með þá mikilvægu tryggingu sem lögin gera ráð fyrir. Og það er mín skoðun einnig og ég veit að það hlýtur að vera skoðun meiri hl. hv. þm. í Nd. að með þessu lagafrv., ef samþ. verður, verði stigið merkilegt spor í tryggingamálum þjóðarinnar. Ég efast ekki um að allir hv. alþm. verði sammála um það þrátt fyrir minni háttar ágreining.