15.05.1975
Neðri deild: 91. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4331 í B-deild Alþingistíðinda. (3574)

109. mál, sjóður til aðstoðar við drykkjusjúka

Frsm. minni hl. (Guðmundur H. Garðarsson) :

Herra forseti. Það, að fram koma tvö álit frá heilbr.- og trn., stafar ekki af því að við séum ekki efnislega sammála öll í n. um nauðsyn þess að stórauka fjárframlög til þess að vinna gegn drykkjusýki. Það, sem hér er um að ræða innan n., er að við vorum ekki öll sammála um leiðir. Við vorum öll í n. sammála einnig um það markmið sem kemur fram í frv., að það beri að aðstoða drykkjusjúklinga mun meira en nú er. En það, sem okkur í minni hl. fannst ekki viðeigandi og ekki rétt, var í fyrsta lagi að tengja fjáröflun við þann sjúkdóm sem hér er um að ræða, þ. e. a. s. tengja fjáröflunina við það að áfengi væri selt og það selt í miklu magni sem gæfi þá heildarupphæð sem gert er ráð fyrir í frv. Auk þess er hér um markaðan tekjustofn að ræða, en það er skoðun okkar sumra þm. að það beri frekar að afleggja þann sið á hv. Alþ. samþ. hér markaða tekjustofna heldur en að auka við þá.

Það þarf ekki að brýna fyrir hv. þm. að greiða atkv. samkv. sannfæringu í máli sem þessu. Ég hugsa að flestir hv. þm. hafi kynnst þeim vandamálum, sem hér er um að ræða, meira og minna og gæti sérhver þm. örugglega flutt hér hugnæma ræðu, annaðhvort út frá persónulegri reynslu sinni eða vegna sorglegra tíðinda í flestum fjölskyldum hérlendis. Ég ætla þess vegna að láta vera að tala um þetta mál af tilfinningahita og halda mig fyrst og fremst við þá staðreynd sem hér er til umræðu, sem er ekki markmiðið í sjálfu sér, heldur fjáröflunarleiðin. Þess vegna var það, þegar þetta mál var til umr. og afgreiðslu í heilbr: og trn., að við Þórarinn Sigurjónsson, 2. þm. Sunnl., skárum okkur út úr með þeim hætti að við mynduðum svokallaðan minni hl. og þessi minni hl., þ. e. a. s. Þórarinn Sigurjónsson og ég, leggur fram minnihlutaálit, sem er svo hljóðandi:

„Í trausti þess að séð verði fyrir nægjanlegu fjármagni á fjárl. hverju sinni til þeirra þarfa, sem frv. gerir ráð fyrir, leggjum við til að því verði vísað til ríkisstj.

Við gerum þetta auðvitað í trausti þess að ríkisstj. sinni þessu máli með þeim hætti sem að framan er lýst og væntum þess að það hljóti góða og skjóta afgreiðslu hjá ríkisstj.