03.12.1974
Sameinað þing: 16. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í B-deild Alþingistíðinda. (389)

310. mál, samkomulag Íslands og Bandaríkjanna um varnarmál

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Rétt hefur þótt að birta í heild samkomulag það, sem undirritað var í Reykjavík hinn 22. okt. s.l. milli ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna um varnarmál, og vil ég af því tilefni aðeins segja þetta:

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. frá 29. ágúst 1974 segir svo, með leyfi forseta:

„Öryggi landsins skal tryggt með aðild að Atlantshafsbandalaginu. Hafa skal sérstakt samstarf við Bandaríkin meðan starfrækt er hér varnar- og eftirlitsstöð á vegum Atlantshafsbandalagsins. Haldið skal áfram viðræðum um fyrirkomulag varnarmálanna með það fyrir augum að Keflavíkurstöðin geti gegnt hlutverki sínu í samræmi við öryggishagsmuni Íslands á hverjum tíma. Stefnt skal að því, að íslendingar taki við þeim verkefnum af varnarliðinu, sem ekki eru hernaðarlegs eðlis. Öllum aðgerðum í þá átt skal hraðað svo sem kostur er. Varnarliðsmenn verði búsettir á vallarsvæðinu strax og aðstæður leyfa. Greina skal á milli starfsemi varnarliðsins á flugvellinum og almennrar flugvallarstarfsemi.“

Hinn 26. sept. s.l. átti ég viðræður við bandarísk stjórnvöld um varnarmál. Skýrði ég frá því, að ríkisstj. Íslands hefði horfið frá þeirri stefnu að tímasetja brottför varnarliðsins. Ríkisstj. hefði komist að þeirri niðurstöðu, að að svo stöddu væri rétt að ganga frá nauðsynlegum breytingum innan ramma varnarsamningsins frá 1951. Af þeirri stefnubreytingu leiddi það, að breytingu 7. gr. varnarsamningsins um endurskoðun á honum yrði lokið og samningurinn tæki fullt gildi aftur, ef samkomulag næðist varðandi þær breytingar í framkvæmd, sem nauðsynlegar teldust. Viðræður um ýmsar breytingar hefðu þegar farið fram á fyrri fundum og raunar allt frá myndun ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar og væri nú hægt að halda þeim áfram.

Niðurstöðurnar af viðræðunum voru, að gengið var frá texta erindaskipta um endurskoðun skv. 7. gr. varnarsamningsins um að endurskoðun skv. 7. gr. varnarsamningsins væri lokið. Jafnframt var gengið frá orðalagi samkomulags og bókunar, sem undirrituð voru hinn 22. okt. 1974. Erindaskiptin hljóða þannig, — þeim hefur að vísu verið útbýtt, en ég ætla að leyfa mér að lesa þau, til þess að þau komist einnig inn í umræðupart þingtíðindanna:

„1. Orðsending sendiherra Bandaríkjanna til utanrrh.

Reykjavík, 22. okt. 1974. Herra ráðherra. Ég leyfi mér að vísa til viðræðna, sem nýlega áttu sér stað milli fulltrúa ríkisstjórna Bandaríkjanna og Íslands skv. ákvæðum 7. gr. varnarsamnings þess, sem í gildi er milli landanna og undirritaður var í Reykjavík hinn 5. maí 1951.

Ríkisstjórnir okkar eru sammála um, að núverandi ástandi heimsmála svo og öryggismála Íslands og þeirra ríkja, sem aðild eiga að Atlantshafsbandalaginu, sé þannig háttað að enn sé þörf fyrir þá aðstöðu, sem varnarliðið 4 Íslandi hefur notið skv. ákvæðum samningsins, á þann hátt, sem báðir aðilar geta sætt sig við.

Samkvæmt framansögðu hafa ríkisstjórnir okkar gert með sér samkomulag, er felur í sér áframhaldandi framkvæmd varnarsamningsins, og hafa þar með lokið endurskoðun samningsins samkv. ákvæðum 7. gr. hans.

Ég leyfi mér að leggja til að þessi orðsending og staðfesting yðar skuli fela í sér samkomulag milli ríkisstjórna okkar, svo sem að framan segir.“ — Undirskrift.

Annað skjalið er svar utanrrh. til sendiherra Bandaríkjanna, og þar er staðfest móttaka orðsendingar dags. sama dag, en að öðru leyti er skjalið eins, svo að ég sé ekki ástæðu til að þreyta hv. þm. á því að lesa það upp.

Í þriðja lagi er svo texti samkomulagsins: „Ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Íslands hafa gert með sér eftirfarandi samkomulag varðandi áframhaldandi nýtingu á aðstöðu varnarliðsins á Íslandi skv. ákvæðum varnarsamningsins frá 5. maí 1951:

1. Bandaríkin munu leitast við að fækka liðsmönnum varnarliðsins á þann hátt, sem ríkisstj. báðar hafa komið sér saman um.

2. Ríkisstjórnirnar eru sammála um, að innan hæfilegs tíma muni íslenskir starfsmenn, er þá hafi öðlast til þess nægilega starfshæfni og þjálfun, taka við tilteknum störfum á vegum varnarliðsins, sem bandarískir starfsmenn gegna nú. Hins vegar munu Bandaríkin ekki leitast við að ráða til starfa eða halda í vinnu fleiri bandarískum eða íslenskum starfsmönnum en aðstæður réttlæta og kunna því að breyta fjölda starfsmanna og skipulagi starfsgreina á vegum varnarliðsins innan ákvæða 3. og 4. gr. varnarsamningsins frá 1951.

3. Bandaríkin munu leitast við að byggja íbúðarhúsnæði innan hins umsamda svæðis, er nægi til að hýsa fjölskyldur varnarliðsmanna, sem rétt eiga á slíku húsnæði. Þessar byggingarframkvæmdir skulu háðar nauðsynlegum fjárveitingum, svo og því hvort nauðsynlegt efni og íslenskt vinnuafl er fyrir hendi. Á meðan ekki hefur verið lokíð við byggingu þessa íbúðarhúsnæðis, skal bandarískum hernaðaryfirvöldum heimilt að annast milligöngu fyrir hönd þeirra starfsmanna, er búa utan hins umsamda svæðis, með það fyrir augum að tryggja hæfilegt húsnæði, sanngjarna húsaleigu og hæfilega leiguskilmála.

4. Eftir því sem fjárveitingar leyfa munu Bandaríkin leitast við að gera þær ráðstafanir, sem báðir aðilar koma sér saman um, til að skilja að á raunhæfan hátt starfrækslu farþegaflugstöðvarinnar og rekstur þann og aðstöðu, sem varnarliðið sjálft hefur með höndum á hinu umsamda Keflavíkursvæði. Þegar farþegaflugstöðin og starfsemi varnarliðsins hafa verið aðskilin, skulu aðgerðir beggja ríkisstjórna varðandi starfsemi lögregluyfirvalda og lögsögu þeirra fara eftir þeim ákvörðunum, sem báðir aðilar koma sér saman um, og skulu þær miðast við þær breyttu aðstæður, sem þá kunna að hafa skapast innan hins umsamda svæðis.

5. Eftir því sem fjárveitingar leyfa mun ríkisstj. Bandaríkjanna leitast við að láta í té tiltekinn búnað, sem á 10 ára tímabili muni skapa þá aðstöðu á Keflavíkurflugvelli, að hún fullnægi kröfum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar fyrir flugrekstur skv. flokkun nr. II.

6. Þetta samkomulag öðlast gildi þann dag, sem það er undirritað.

Undirritað í Reykjavík hinn 22. okt. 1974.

Fyrir ríkisstj. Íslands, Einar Ágústsson.

Fyrir ríkisstj. Bandaríkjanna, Frederick Irving.“

Þá er það í fjórða og síðasta lagi samþykkt bókun.

„Eftirfarandi bókun var gerð um viðræður milli ríkisstjórna Bandaríkjanna og Íslands skv. ákvæðum 7. gr. varnarsamnings þess, sem í gildi er milli landanna:

A. Varnarliðið mun fækka liði sínu um 420 menn og í stað þeirra komi hæfir íslenskir starfsmenn eftir því sem þeir verða til reiðu til slíkra starfa. Varnarliðið mun annast þjálfun íslenskra starfsmanna, eftir því sem þörf krefur.

B. Ríkisstjórn Bandaríkjanna mun leita eftir fjárveitingum til byggingar íbúðarhúsnæðis á fjárhagsárunum 1975, 1976 og 1977 með það endanlega markmið fyrir augum, að öllum bandarískum hermönnum verði séð fyrir íbúðarhúsnæði innan takmarka varnarstöðvarinnar. Bandaríkin gera ráð fyrir, að eftir að fækkað hefur verið í varnarliðinu svo sem að framan greinir, muni viðbótarþörf íbúðarhúsnæðis innan takmarka varnarstöðvarinnar nema um það bil 468 húsnæðiseiningum. Sem vísbending um góðan ásetning Bandaríkjanna í þessu tilliti er í fjárlagafrv. fyrir fjárhagsárið 1975 að finna beiðni um fjárveitingu vegna byggingar 200 húsnæðiseininga, vegna undirritunar þeirra orðsendinga og þess samkomulags, sem hér um ræðir.

C. Ríkisstjórn Bandaríkjanna mun leitast við að finna leið til þess að vinna að því í samvinnu við íslensku ríkisstjórnina að aðskilja svæði þau, þar sem rekstur farþegaflugs og starfsemi varnarliðsins fer fram. Ríkisstjórn Bandaríkjanna mun taka þátt í byggingu nýrrar farþegaflugstöðvar, eftir því sem fjárveitingar heimila og varnarliðsrekstur krefst. Í þessu sambandi var rætt um að Bandaríkin kosti lagningu aðkeyrslubrauta fyrir flugvélar, byggingu flugvélastæða, lagningu vega, þar með talinn nýr bilvegur, svo og endurnýjun á kerfi því sem flytur eldsneyti að flugvélum.

D. Ríkisstjórn Bandaríkjanna samþykkir að athuga möguleika á því að festa kaup á heitu vatni til afnota fyrir varnarliðið, svo fremi að slík þjónusta verði látin í té af hálfu íslensku ríkisstj. á Reykjanessvæðinu.

E. Báðar ríkisstjórnirnar munu athuga leiðir til þess að efla samvinnu milli varnarliðsins annars vegar og íslensku landhelgisgæslunnar, almannavarna og flugmálastjórnarinnar hins vegar.

F. Viðræður um framkvæmd þeirra samkomulagsatriða, sem nefnd eru hér að framan, munu fara fram milli sendiherra Bandaríkjanna og yfirmanns varnarliðsins annars vegar og utanrrh. Íslands og tilnefnds fulltrúa hans hins vegar.“

Undirritað í Reykjavík af tilnefndum fulltrúum samningsaðila hinn 22. okt. 1974.

Með skjölum þessum er lagður grundvöllur að stöðugri athugun á þessum málum innan ramma varnarsamningsins, og verða málin tekin til ferkari athugunar á þeim grundvelli í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstj.

Jafnframt því að birta þetta, herra forseti, tel ég mig hafa efnt loforð það, er ég gaf hv. 3. þ:n. Reykn. úr þessum ræðustól fyrir nokkru um það að þessi tilteknu atriði og málefni gætu komið til umr. hér á hv. Alþingi.