10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í B-deild Alþingistíðinda. (506)

18. mál, lagning byggðalínu milli Norður- og Suðurlands

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að endurtaka margt af því sem ég sagði hér áðan. Það er hvorki á mínu færi né annarra að skapa fjármuni sem ekki eru til né heldur að taka lán fyrir ríkissjóð sem ekki eru heimildir fyrir. Allar heimildir, sem voru í fjárlögum til lántöku voru notaðar. Þetta mál var í afgr. í samráði við Rafmagnsveitur ríkisins og iðnrn., að undanteknum ráðh., hann var fjarverandi þegar var verið að fjalla um þetta mál. Þá var um að ræða tilfærslur til að stöðva ekki önnur verk sem Rafmagnsveiturnar töldu að yrði að framkvæma. Þetta er staðreynd, það voru notaðir allir þeir möguleikar sem til voru. Hitt er rétt, að iðnrh. samþ. þetta ekki. Ég skýrði frá því í umr. um stjórnarmyndun á sl. sumri, að til þess að koma þessu verki áfram yrði að útvega fjármuni.

Í öðru lagi get ég sagt að það hefur alltaf verið rætt um Grundartangaverksmiðjuna í sambandi við þessa linu, enda gerir hún línuna miklu ótvíræðari og traustari en ella mundi verða.