10.12.1974
Sameinað þing: 21. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (546)

69. mál, bygging kvenlækningadeildar Landsspítalans

Flm. (Geirþrúður H. Bernhöft):

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér er til umr., er þess efnis að ríkisstj. geri þegar í stað ráðstafanir til að lokið verði við byggingu fæðingar- og kvensjúkdómadeildar Landsspítalans eða kvenlækningadeildar, eins og læknarnir vilja nefna deild þessa. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að gera þegar í stað ráðstafanir til að lokið verði við byggingu kvenlækningadeildar Landsspítalans á árinu 1975.“

Ástæðan til þess, að þessi þáltill. er flutt, er mjög brýn þörf þess að fyrrnefndri byggingu verði lokið svo fljótt sem unnt er. Allt fram til ársins 1949 fæddu flestar konur í heimahúsum. Nokkur fæðingarheimili hafa þó verið rekin, bæði úti á landi og í Reykjavík, upphaflega mest fyrir forgöngu ljósmæðra.

Fyrsta fæðingarheimilið hér í Reykjavík var að Baldursgötu 20. Jónína Jónsdóttir setti það á fót árið 1929. Voru þar aðeins tvö rúm og aðallega ætluð ógiftum og umkomulausum mæðrum. Rak Jónina fæðingarheimili þetta í tvö ár.

Árið 1932 setti Ása Ásmundsdóttir á stofn fæðingarheimili við Tjarnargötu. Hún fékk sjúkrahúsleyfi og var stofnunin nefnd Sólheimar. Á þessu sjúkrahúsi voru m.a. tvö rúm fyrir sængurkonur.

Helga Níelsdóttir ljósmóðir hóf rekstur fæðingarheimilis að Eiríksgötu 37 árið 1933. Það var fyrsta fæðingarheimilið á landinn sem byggt var sem slíkt. Rak Helga Níelsdóttir það fæðingarheimili þar til í ársbyrjun 1940. Tveimur áratugum síðar var Fæðingarheimili Reykjavíkur sett á stofn í sama húsnæði og Helga hafði áður rekið sitt.

Guðrún Halldórsdóttir setti einnig á fót fæðingarheimili á Rauðarárstig um 1950, og Guðrún Valdimarsdóttir ljósmóðir rak fæðingarheimili um nokkurra ára skeið í Stórholti.

Allar höfðu þessar konur samvinnu við lækna. Hafa ljósmæður þannig reynt að bæta úr mikilli þörf eftir bestu getu með rekstri fæðingarheimila á meðan sjúkrahúspláss var ekki til.

Sömu sögu má segja á landsbyggðinni. Víða á landinu hafa verið rekin fæðingarheimili ljósmæðra á s.l. tveim til þrem áratugum.

Árið 1981 var opnuð fyrsta fæðingardeild landsins á 3. hæð Landsspítalans. Þar voru aðeins 14 rúm, enda var frá upphafi ætlast til að þangað kæmu eingöngu konur sem búast mætti við afbrigðilegum fæðingum hjá. Flestöllum öðrum konum var því áfram ætlað að fæða börn sin í heimahúsum. Mjög fljótlega fór þó að bera á þrengslum á þessari litlu deild. Aðsókn kvenna fór sífellt vaxandi, enda gerðu konur sér fljótlega ljóst hvílíkt öryggi var í því fólgið að geta fætt þar sem hægt var að fá fullkomnustu læknishjálp ef eitthvað bar út af, en um slíkt er ómögulegt að segja fyrir fram með neinni vissu. Fæðing getur alltaf verið lífshættuleg, þann möguleika er aldrei hægt að útiloka. Það er því ósköp auðskilið að konur óski eftir öllu því öryggi sem læknavísindi og mannlegur máttur geta veitt.

Í lok síðustu heimsstyrjaldar var vandræðaástand í þessum málum orðið slíkt að heilbrigðisyfirvöld hófu undirbúning að byggingu núv. fæðingardeildar. Var hún tekin í notkun árið 1949. Þessi nýja fæðingardeild var einnig ætluð konum með kvensjúkdóma og hafði alls 53 sjúkrarúm. Hún bætti þá úr mjög brýnni þörf þótt mörgu væri að vísu ábótavant þegar í upphafi og er þar af leiðandi enn. M.a. má nefna að allri hreinlætisaðstöðu er þar mjög ábótavant.

Aðsókn að núv. fæðinga- og kvensjúkdómadeild hefur sífellt farið vaxandi, enda var svo komið árið 1972 að minna en 2% kvenna á öllu landinu fæddu í heimahúsum. Miklu fleiri konur hafa fætt á deildinni en viðunandi aðstaða er til að taka á móti. Þekkja margar konur þrengslin af eigin raun þar sem fjöldi kvenna hefur fætt annaðhvort á baði eða göngum deildarinnar, og allar konur, sem legið hafa á deildinni, vita hvernig hreinlætisaðstaðan er. Auk þess hefur þurft að vísa konum frá fæðingardeildinni þegar útilokað hefur verið að bæta fleiri rúmum við á bað eða ganga og er það vitaskuld óviðunandi ástand.

Hinn þátturinn í starfi fæðingardeildarinnar eru kvensjúkdómar. Hefur sá þáttur farið vaxandi með hverju ári og sérstaklega eftir að krabbameinsleitarstöðin tók til starfa. S.l. ár komu næstum allar konur á landinu, sem voru með krabbamein í legbol eða leghálsi, til meðferðar á vegum læknadeildarinnar, í bili þó í húsi handlækningadeildar Landsspítalans eða þar til nýja viðbyggingin verður tekin í notkun. Öll aðstaða þar er mjög ófullkomin, vægast sagt. Mörg hundruð kvenna eru stöðugt á biðlista. Nærri má geta um líðan þeirra kvenna sem neyðast til að bíða langtímum saman eftir e.t.v. lífsnauðsynlegri læknishjálp í fullri óvissu um hvernig fer. Getur hver sagt sér það sjálfur hversu slík bið er óviðunandi, bæði fyrir konuna sjálfa og alla aðstandendur.

Árið 1975 er kvennaár Sameinuðu þjóðanna. Ef hv. Alþ. og hæstv. ríkisstj. vilja minnast íslenskra kvenna í tilefni ársins, tel ég að það verði best gert fyrst og fremst með því að bæta aðstöðu kvenna í þjóðfélaginu þar sem brýnust er þörfin, þ.e. að tryggja íslenskum konum fullkomnustu læknishjálp við fæðingu og einnig nýfæddum börnum þeirra, ef voða ber að höndum. Öllum hlýtur að vera ljóst að oft þarf skjótra aðgerða við til þess að mögulegt sé að bjarga mannslífi. Jafnnauðsynlegt er einnig að stytta biðtíma þeirra kvenna sem bíða eftir sjúkrarúmi á kvensjúkdómadeild.

Nýbygging eða viðbygging fæðinga- og kvensjúkdómadeildar Landsspítalans hófst árið 1971. Þegar gengið er um bygginguna í dag finnst manni að aðeins vanti herslumun til að byggingunni sé lokið, en þó mun áætlaður kostnaður við að fullgera bygginguna vera um 130 millj. kr. Kunnugir telja þó að hann kynni að verða minni ef unnt reyndist að hraða framkvæmdum.

Flestöll lækningatæki eru þegar fengin og eru í geymslu, en þó mun eitthvað af sjúkrarúmum og fleiru liggja hér í vörugeymslu þar sem fé skortir til að leysa það úr tolli.

Í upphafi voru það samtök kvenna sem áttu stærstan þátt í því að bygging Landsspítalans varð að veruleika. Það voru enn samtök kvenna sem hófu fjársöfnun um land allt til að hrinda í framkvæmd nýbyggingu fæðinga- og kvensjúkdómadeildarinnar sem nú er í byggingu. Áformað var í upphafi að byggingin tæki 3 ár. Það hefur því miður ekki tekist. Þess vegna er nú skorað á hæstv. ríkisstj. að gera þegar í stað ráðstafanir til að lokið verði við byggingu kvenlækningadeildar Landsspítalans á næsta ári.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði vísað til hv. fjvn.