10.12.1974
Sameinað þing: 21. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

73. mál, kaup á farþegaskipi er sigli milli Íslands, Færeyja, Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég lýsti í fyrra eindregnum stuðningi við þessa till., enda er mér málið nokkuð skylt. Tvær ástæður liggja til þess aðallega. Sú fyrsta að hv. flm. gerir mínum heimastað svo hátt undir höfði að betur verður ekki gert. Það er reyndar vissa okkar gömul, byggð á reynslu fyrri tíma siglinga, að Reyðarfjörður er hin ágætasta höfn og liggur sérlega vel við í þessu efni.

Önnur ástæða fyrir þessu er sú, að jómfrúræða mín hér fyrir 17 árum fjallaði einmitt um fastar skipaferðir milli Austfjarða og útlanda og Reyðarfjörður var vitanlega nefndur í því sambandi, en þar var reyndar um vöruflutninga að ræða sem aðaluppistöðuna í sambandi við þá till.

Margt hefur breyst síðan og eins og hv. flm. benti á hefur hringvegurinn opnað nýja möguleika, alveg sérstaklega fyrir raunverulega ferðamenn. Með raunverulegum ferðalöngum á ég við þá sem vilja sjá og skoða eigið land og svo önnur lönd til viðbótar og geta gert það á þennan hátt í sömu ferðinni. Það er einmitt þessi tegund ferðalanga sem ég vil hlynna að og greiða fyrir sem allra mest, á sama tíma. Hef ég lýst því yfir að ég vilji skattleggja sérstaklega Suðurlandaferðir og er sömuleiðis litt hrifinn af einhverri flóðbylgju erlendra ferðamanna hingað, að ekki sé talað um hugsjónir í líkingu við Kleifarvatnsloftkastalann sem við höfum nú haft fyrir augum nýlega. En nóg um það.

Hringvegurinn hefur þegar sannað gildi sitt og þegar höft hans eru horfin og góður vegur er alla leið héðan af mesta þéttbýlissvæðinu á Reyðarfjörð, þá held ég að hér sé aðeins um sjálfsagða og ákjósanlega ferðaleið að ræða. Ég reikna með því að flm. hugsi sér þetta þannig, að menn fari á bíl sínum austur, fari svo með bílinn til Norðurlanda, aki þar um sér til ánægju, komi svo heim hingað á ný og aki norðurleiðina til baka. Þetta væri mjög ákjósanlegt í alla staði. Sömuleiðis væri auðvitað um hinn möguleikann að ræða, en mér dettur hann nú í hug þegar hv. þm. Stefán Valgeirsson ber í borðið, að fara norðurleiðina fyrst og suðurleiðina til baka. — Spurningin um vetrarsamgöngurnar á þessum leiðum er auðvitað meiri og í því sambandi vakna eflaust upp nokkrar efasemdir.

Ég vil upplýsa hv. flm. um það að Reyðfirðingar, mínir heimamenn, hafa fagnað þessari till. mjög og eru honum ákaflega þakklátir fyrir. Þeir undirbúa nú einmitt hafnarframkvæmd sem m.a. mundi tryggja góða aðstöðu þessa umrædda skips. Við höfum fleira í huga þessu skylt. Við álítum t.d. að þar ætti annað aðalsetur Skipaútgerðar ríkisins að vera, hitt aðalsetrið ætti að vera á Vestfjörðum, og við álítum líka og höfum um það von að Eimskip geri alvöru úr því að gera Reyðarfjörð að umskipunarhöfn, virkilegri umskipunarhöfn, eins og það hefur reyndar lýst yfir að það ætli að gera með ákveðinni dreifingu á vörum til nágrannastaða. Ef eitthvað af þessu kæmist í framkvæmd þá renndi það vitanlega allt stoðum undir betri aðstöðu í landi í hvívetna slíku farþegaskipi til handa.

Svo aðeins til viðbótar get ég ekki stillt mig um það að lýsa þeirri skoðun minni hér að þetta muni vera ólikt farsælli atvinnugrein fyrir reyðfirðinga en sú óhugnanlega hugmynd, sem nú hefur skotið upp kollinum hjá Norsk Hydro, að fá leyfi til að flæma okkur burt úr firðinum með álbræðslu. Ég fagna sem sagt till. og vona að hún nái fram að ganga. Sú staðreynd, að Austfirðir liggja nær Norðurlöndum en Reykjavík, ætti að vera nokkuð ljós óneitanlega og ferðamátinn, sem till. gerir ráð fyrir, er ekki óraunhæfur. Hann er þvert á móti að mínu viti bæði æskilegur og sjálfsagður.