06.11.1974
Neðri deild: 6. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

3. mál, Lánasjóður sveitarfélaga

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég tel vissulega, að það frv., sem hér liggur fyrir, sé spor í rétta átt og stuðningur við sveitarfélögin. Ég held þó, að það komi að því, að Alþ. verði að endurskoða afstöðu til sveitarfélaganna, þannig að tekjumöguleikar þeirra og lánamöguleikar verði auknir mun meira en hér er gert ráð fyrir.

Ég tel mjög eðlilegt, að tiltekinn hluti af því fjármagni, sem Byggðasjóði er nú ætlað, verði látinn renna til Lánasjóðs sveitarfélaga, ekki sem lán, heldur sem beint framlag, sem Lánasjóðurinn hefði þá til ráðstöfunar til útlána handa sveitarfélögum. Ég vil benda á það, að sveitarfélögin eru ein elsta stofnun í landinn, og þær kröfur, sem almenningur gerir til sveitarfélaganna, fara með svo að segja ári hverju vaxandi. Fram undan eru mörg og stór verkefni, sem sveitarfélögin verða að leysa og almenningur ætlast til að þau leysi. Hér hefur verið bent á aukna gatnagerð úr varanlegu efni, og er það vissulega rétt, að það er stórátak fyrir mörg sveitarfélög að koma þeim málum í það horf, sem eðlilegt er og almenningur getur með nokkrum rétti gert kröfu til. Ég hygg, að mörg sveitarfélög þurfi í framtíðinni einnig að útvega sér allverulegt og kannske mjög mikið fjármagn sum þeirra í sambandi við hitaveitur og fleiri framkvæmdir, sem sjáanlega eru fram undan.

Ég vildi vekja á þessu athygli við 1. umr. þessa máls, að ég tel, að málið sé nokkru stærra eða verði í framtíðinni nokkru stærra en hér er gert ráð fyrir með þessu frv., og sérstaklega undirstrika það sem skoðun mína, að ég tel, að hluti af framlagi Byggðasjóðs eigi að renna sem framlag til Lánasjóðs sveitarfélaga til endurlána í sambandi við framkvæmdir þessara aðila.

Ég sé ekki, hvers vegna sveitarstjórnarmenn þurfa endilega að vera að fara til Byggðasjóðs með sín mál og sækja þar eftir fyrirgreiðslu, hvort heldur hún er í lánsformi eða öðru. Ég mundi telja miklu eðlilegra, að þeir færu til sinnar eigin stofnunar og legðu mál sín þar fyrir og fengju afgreiðslu í gegnum sinn eigin lánasjóð.

Ég skal ekki fjölyrða um það neitt að ráði meira. En hér hefur verið komið inn á tekjustofna sveitarfélaga og því verið haldið fram, að sú breyting, sem gerð var á þeim lögum í tíð fyrrv. ríkisstj., hefði orðið sveitarfélögum til góðs. Vissulega var rétt, að það var sveitarfélögum til hægðarauka, þegar létt var af þeim útgjöldum bæði í sambandi við lögreglukostnað og heilbrigðismál. En með lögunum voru að mínum dómi allt of mikið bundnar hendur sveitarstjórnarmanna í sambandi við tekjuöflun. Sveitarstjórnarmenn geta í dag engu um það ráðið, hverjar tekjur sveitarfélaganna verða. Útsvörin eru stærsti og aðalliðurinn í tekjuöflunarmöguleikum sveitarfélaganna, og það er bundið í lögum, hvað sá tekjustofn gefur sveitarfélögum. Það er eingöngu eftir heildartekjum í hverju sveitarfélagi, hvað þau fá í útsvör hverju sinni. Ég tel, að það þurfi að rýmka á þessu aftur, að sveitarstjórnir hafi nokkuð meira um það að segja, hvernig þær vilji afla tekna til þeirra framkvæmda, sem almenningur krefst, að sveitarfélögin standi fyrir.

Ég held, að það sé reynsla sveitarstjórnarmanna, að sú breyting, sem gerð var á l. um tekjustofna sveitarfélaganna, bindi hendur sveitarstjórnarmanna of mikið.

Hér hafa komið fram raddir bæði nú og áður frá sveitarstjórnarmönnum, að fjárhagur sveitarfélaganna hafi versnað mjög mikið hin síðari ár. Ég held, að ein af ástæðunum fyrir því, að svo er komið, sé, að hendur sveitarstjórnarmanna til tekjuöflunar eru hreinlega bundnar. Þeir hafa lítið um það að segja, hverjar tekjur sveitarfélaganna verða á fjárhagsárinu, á hverju ári, þar sem útsvörin eru nú ákveðin með lögum og miðast við heildartekjur í sveitarfélaginu. Ég held einnig, að það þurfi að koma til endurskoðunar á þessum lögum og skoða það mjög vel, hvort ekki er eðlilegt, að þeim verði breytt aftur, þannig að sveitarstjórnarmena hafi frjálsari hendur til tekjuöflunar fyrir sín sveitarfélög en nú er. En aðalatriðið og það, sem ég vil undirstrika, er, að ég tel, að það beri að stefna að því, að hluti af framlagi til Byggðasjóðs, sem nú hafa verið áætlaðar mjög miklar tekjur, þar sem um er að ræða 2% af útgjöldum fjárlaga, — að hluti af þessu fjármagni verði látinn ganga beint til Lánasjóðs sveitarfélaga og til útlána í sambandi við framkvæmdir sveitarfélaganna.