12.11.1974
Sameinað þing: 6. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Út af ræðu hv. 3. þm. Reykn., Gils Guðmundssonar, og þeim tilmælum, sem hann beindi til mín, þá vil ég lýsa því hér yfir nú, að ég mun mjög bráðlega og eins fljótt og verða má gefa Alþ. skýrslu um viðræðurnar í Washington og efni þeirra orðsendinga og fundargerða í heild, sem fóru á milli mín og sendiherra Bandaríkjanna í framhaldi af þeim viðræðum. Ég vona þess vegna að hv. þm. og hv. aðrir þm. geti fallist á að umræður um varnarmálin hér á Alþ. bíði eftir því, að ég gefi þessa skýrslu, sem ég mun ekki draga, og að Alþ. geti þá gefið sér góðan tíma til að ræða þessi mál í heild. Ég hygg að það sé samdóma álit allra þeirra flokka, sem fulltrúa eiga á Alþ., að til þess sé full ástæða.