17.12.1974
Efri deild: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

84. mál, útvarpslög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Þegar við hófum þessa 3. umr. fór hún fram eins og aðrar umr. hér með nokkrum friði og spekt, og sérstaklega var eins og vænta mátti hæstv. menntmrh. hógvær og vildi sem minnst um þetta mál ræða. Ég gladdist því mjög þegar ég varð þess var hér í ræðustólnum, að hv. 12. þm. Reykv. barði í borðið á því sama augnabliki og ég nefndi tiltekið sjónvarp, nánar tiltekið Kanasjónvarpið, og hlakkaði svo sannarlega til að heyra hina einu sönnu rödd frelsishyggjunnar hér í hv. d. En þessi hv. þm. hefur sjálfsagt fallið frá orðinu og ætlar ekki að lofa okkur að heyra sinn fagnaðaróð. Það er kannske ekki nema von, vegna þess að hann minntist þess með söknuði að hann er búinn að missa sitt rórill og útreiðin í hans eigin flokki hefur auðvitað fengið mest á hann. Svona geta nefnilega vegvísar frelsis fengið á sig laumukomma úr öllum áttum, höft og bönn, eins og þessi hv. þm. mátti reyna í Sþ. ekki alls fyrir löngu.

Ég var að nefna sárabætur í þessu sambandi varðandi Kanasjónvarpið. Ég er nefnilega alveg sannfærður um að það gleður hjörtu margra þeirra, sem nú sakna og syrgja, þegar núv. útvarpsráðsmeirihluti verður ekki lengur til staðar, þegar þeir t.d. þurfa ekki lengur að horfa á þær óskaplegu áróðursmyndir, sem þeir kalla, sem sýna t.d. hvernig þeirra heittelskuðu vinir í Bandaríkjunum haga sér á vissum landssvæðum í heiminum. Ég er viss um að hv. þm. hefur ætlað að reyna hér eitthvað úr að bæta.

Við vitum að Ríkisútvarpið okkar, bæði hljóðvarp og sjónvarp, er sameign íslensku þjóðarinnar og veltur á miklu hvernig stjórn þess er. Það veltur líka á miklu hvert efnisval þess er, hvernig það rækir skyldur sínar við hlustendur sem horfendur. Það fer ekkert á milli mála að þetta eru voldugir fjölmiðlar og áhrifamáttur þeirra er ótrúlegur. Við leggjum áherslu á að þessir fjölmiðlar séu menntandi og skemmtandi í senn. Þeir þurfa kannske umfram allt að vera vakandi í sinni fréttamiðlun og skýra þar frá af sem mestri óhlutdrægni. Það þekkja víst allir, hvernig t.d. fréttir geta verið með mjög svo mismunandi blæ, jafnvel þannig að frétt getur breytt um eðli og inntak eftir því hvernig hún er sögð, eftir því hvernig hún er skýrð. Margt hefur einmitt verið um þessa þjónustu útvarpsins sagt og vægast sagt misjafnt. Ég held að það hafi ekki svo mjög komið til tals varðandi þann meiri hluta útvarpsráðs, sem nú er verið að illskast út í og hefur reyndar verið gert ótæpt s.l. 3 ár. Ég held nefnilega ekki, að það verði með sanni sagt að hægri öflin í landinu hafi orðið nokkuð út undan varðandi fréttaþjónustu þessara fjölmiðla yfirleitt, síður en svo. Ég man meira að segja mjög vel eftir því, að lengi voru fréttir svo einlitar um eitt viðkvæmt mál, sem ég minntist á áðan, Víetnam-stríðið, af vissu tilliti til voldugra vina okkar, að þeir, sem hlustuðu aðeins á útvarpið og horfðu á sjónvarpið sitt og lásu svo blessað Morgunblaðið sitt á morgnana, fengu ekki nema eina mynd þar af og hana mjög svo skrumskælda, alla á þann veg, sem þessum voldugu vinum okkar var í hag. Ég tel að einmitt á þessu hafi orðið breyting undir stjórn núv. útvarpsráðs. M.a. þetta mál hefur verið lagt þar fyrir á nýjan hátt og hlutlausan. Það hefur verið gert á fleiri sviðum.

Ég minni aðeins á þetta hér vegna þess, að nú stöndum við andspænis því að hér eigi e.t.v. um að skipta, taka upp nýja stefnu með tilliti til þeirrar kollsteypu sem nú hefur orðið í íslenskum utanríkismálum, að nú verði á nýjan leik farið að á sama veg og áður var. Íslensku ríkisfjölmiðlarnir voru því miður mettaðir af bandarískum áróðri, og þeir gætu svo vissulega orðið það enn ef þau öfl yrðu þar ríkjandi sem ég óttast að verði.

Það hefur verið nokkuð um það kvartað hér og kannske ekki að ástæðulausu að menn hafi ekki verið nógu málefnalegir í umr. sínum, og e.t.v. flokkast þessi orð mín einnig þar undir. Ég hef bent á það áður, af hvaða ástæðu það er, og sá ágæti maður, mælskumaður og orðglaði á margan veg, hæstv. menntmrh., hefur sannað þetta hér í ræðustól hvað eftir annað að málefnið, sem hér er um að ræða, er sáraómerkilegt í sjálfu sér, ef hinn rétti tilgangur er ekki skoðaður. En einmitt að það skuli hafa verið vakin athygli á hinum rétta tilgangi þessa frv., það hefur farið mjög í taugarnar á mörgum, jafnvel í taugarnar á þeim annars rólynda manni hæstv. menntmrh. (Gripið fram í: Hann hefur gengið út aftur, ég skal kalla á hann). Já, ég veit það. Oft er í holti heyrandi nær. Hann getur verið hér nálægt okkur. Ég hef hann ærið oft nálægt mér og sakna hans ekkert sérstaklega hér, meðan ég ber ekki fram fyrir hann sérstakar spurningar.

En til þess nú að vera örlítið málefnalegur og hverfa nú burt frá þessu pexi okkar, sem hér höfum verið að tala, þá held ég að færi vel á því að við færum örlítið aftur í tímann og athuguðum nánar, hvað um þetta mál var sagt á þinginu 1970–71, þegar einmitt þessi breyt. á útvarpsl., sem nú er verið aftur að gera bráðabirgðabreytingu á, skulum við segja, — því að það þarf sjálfsagt að gera þær margar, ef svona á að halda áfram, — þegar þessi útvarpslög voru þá til umr. Ég er svo heppinn að hafa mér hér til vitnisburðar tvo valinkunna menn. Og það er m.a. skýringin á því að ég þarf ekki á hæstv. núv. menntmrh. að halda hér í d., að ég ætla — með leyfi hæstv. forseta — að vitna í hæstv. fyrrv. menntmrh., ekki þann síðasta, heldur þann sem þar áður gegndi embætti og gegndi því ærið lengi, hv. þm. Gylfa Þ. Gíslason. Þegar hann mælti fyrir frv. sem nú á að breyta, sagði hann svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þetta frv. gerir ráð fyrir því að Ríkisútvarpið verði sjálfstæðari stofnun í framtíðinni en það hefur verið hingað til. Það er eindregin skoðun n.“ — þ.e.a.s. nefndarinnar sem samdi frv., og ég skal geta þess hér, að þar áttu sæti útvarpsstjóri, Andrés Björnsson, formaður útvarpsráðs, Benedikt Gröndal og dr. Þórður Eyjólfsson, ekki var nú liðið amalegt. En Gylfi Þ. Gíslason heldur áfram: „Það er eindregin skoðun n., að svo skyldi vera, og ég er því fyrir mitt leyti og ríkisstj. sammála að að því skuli stefnt.“ — Það vita auðvitað allir hvaða ríkisstj. var þarna um að ræða, ríkisstj. þeirra sjálfstæðismanna og alþýðuflokksmanna. Og Gylfi heldur áfram: „Ríkisútvarpið gegnir mjög mikilvægu hlutverki í íslensku menningarlífi og íslensku þjóðlífi, og það er heppilegt og eðlilegt að slíkar stofnanir séu sem óháðastar, að sem allra minnst hætta sé á afskiptum stjórnmálayfirvalda af stofnunum sem þessari. Íslenska ríkið hefur skv. öðrum lögum einkarétt á starfrækslu útvarps, og með þessu frv. er gert ráð fyrir því að þessi einkaréttur sé afhentur Ríkisútvarpinu.“

Þarna segir sem sagt dr. Gylfi Þ. Gíslason mjög ákveðið, að sem allra minnst hætta sé á afskiptum stjórnmálayfirvalda af stofnunum sem þessari, en nú er verið að messa yfir okkur æ ofan í æ, að útvarpsráð þurfi alveg skilyrðislaust að vera hin eina rétta spegilmynd pólitíkurinnar í landinu. Fyrrv. menntmrh. og núv. eru greinilega ekki sammála um þetta atriði.

„Þá er það nýmæli í frv.,“ heldur dr. Gylfi áfram, „eina nýmælið, sem ég tel orka nokkuð tvímælis og vil beina sérstaklega til hv. n. að athuga rækilega,“ — sem og var gert, — „en það er ákvæði frv. um breyt. á reglum um kosningu í útvarpsráð. Hingað til hefur sérhvert nýkjörið Alþ. kosið útvarpsráð og menntmrh. skipað formann þess, og hefur þetta verið gert til að jafnan sé tryggt gott samstarf á milli stjórnvalda, sem fara með umboð á Alþ., annars vegar og svo yfirstjórnar útvarpsins hins vegar, — gott samstarf, vegna þess hve mikið er undir því komið að gott samstarf sé milli þessara aðila. Þetta hefur verið svo um langt skeið. Hér hefur hins vegar verið gert ráð fyrir því skv. till. n., sem frv. samdi, að útvarpsráð verði kosið til 4 ára, þannig að svo getur vel farið að þeir menn, sem kosnir eru í útvarpsráð af meiri hluta, séu ekki úr sömu flokkum og fara með meirihlutavald á Alþ., og þá sömuleiðis að formaður útvarpsráðs sé ekki skipaður af þeim menntmrh. sem sitja kann. Sú skipun, sem frv. gerir ráð fyrir, hefur ýmsa kosti. Hún gerir útvarpið óháðara stjórnvöldum en verið hefur. En því er ekki að leyna, að þeirri skipun fylgi líka nokkur ókostur. Það kann að vera að það torveldi samstarf útvarpsráðs og ríkisstj. eða menntmrn. og þá sérstaklega samstarf formanns útvarpsráðs og menntmrh., ef þeir eru úr sitt hvorum flokknum, þ.e.a.s. ef formaðurinn er skv. gamalli skipun úr flokki, sem er í stjórnarandstöðu.“

Það væri nú nógu gaman að vita hvort hæstv. menntmrh. núv. hefði verið svona gífurlega hræddur við að samstarfið milli hans og núv. formanns útvarpsráðs yrði með þeim ósköpum, að þess vegna yrði að flytja þetta frv. í snarkasti. Þeim hefur kannske þegar lent saman eins og fleirum þar á bæ. Það kann vel að vera.

Með leyfi hæstv. forseta segir hins vegar Gylfi Þ. Gíslason orðrétt:

„Ég vil ekki gera mikið úr þessu, ekki mikið úr hættunni á því að slíkt kunni að leiða til nokkurra vandræða.“

En nú eru sem sagt vandræði. Það fer ekkert á milli mála. En Gylfi segir áfram:

„Ég vil vekja athygli á því, að þetta er mikilsverð breyt. frá því sem verið hefur og gæti undir vissum kringumstæðum verið báðum aðilum til nokkurs tjóns, menntmrn. annars vegar og Ríkisútvarpinu hins vegar.

Ég fyrir mitt leyti get vel fellt mig við þá skipan sem hér er lagt til, hið sama gildir um ríkisstj. Annars væri frv. ekki flutt í því formi sem það er flutt.“

Þetta segir Gylfi Þ. Gíslason. Hann hefur sem sagt verið býsna forspár í þessum efnum. Hann hefur greinilega séð það fyrir, að þegar hæstv. menntmrh. Vilhjálmur Hjálmarsson yrði kominn í það embætti og hann sæti uppi með Njörð P. Njarðvík sem formann útvarpsráðs, þá gæti þetta verið báðum aðilum til nokkurs tjóns, eftir þessu orðalagi að dæma, menntmrn. annars vegar og Ríkisútvarpinu hins vegar, því að þarna hlýtur ástæðunnar að vera að leita. Ég hef orðið sannfærðari um það eftir því sem ég hef lesið þessi spaklegu orð dr. Gylfa oftar.

Ég mun leyfa mér að vitna í annan hv. þm., hv. þm. Benedikt Gröndal, sem var einmitt einn af þeim mönnum sem sömdu frv. að núgildandi lögum. Það er aðallega gert til þess að segja þeim hv. menntmn.- mönnum frá því, hvernig eigi að fjalla um svona mál, sem eins og dr. Gylfi hafði bent á er bæði vandasamt og mikilvægt. Með leyfi hæstv. forseta, þá segir Benedikt Gröndal í þingræðu á þessa leið, þegar hann er að mæla fyrir nál. um frv., og það var ekki nokkrum dögum eftir að frv. kom fram, og það frv. hafði áður verið lagt fram á Alþ.fyrir þetta þing, sem hér er um að ræða, — Benedikt Gröndal segir svo:

„Nú hefur verið samið frv. til nýrra útvarpslaga, og er það að langmestu leyti nýsmíði. Frv. var lagt fram á síðasta þingi og hefur því gefist gott tóm til að íhuga það og skoða. Sérstaklega er vert að geta þess, að útvarpsráð og útvarpsstjóri hafa rætt frv. ítarlega og komið á framfæri hugmyndum sínum.“

Það þarf auðvitað ekki að taka það fram, að vitanlega hefur hv. menntmn. þessarar d. án efa fetað dyggilega í fótspor þessarar fyrri n. og leyft bæði útvarpsráði og útvarpsstjóra að ræða þetta frv. ítarlega, svo sem hv. þm. Benedikt Gröndal telur algjörlega sjálfsagt. Benedikt Gröndal heldur svo áfram, með leyfi forseta:

„Þessir aðilar hafa látið í ljós þá almennu skoðun, að frv. í heild sé mikil bót frá gildandi l. og feli í sér margar merkar nýjungar, sé því mikils virði, að það hljóti afgreiðslu á þessu þingi. Hins vegar hafa komið fram við umr. um málið nokkrar brtt., sem áðurnefndir aðilar eru ekki að öllu leyti sammála um.

Menntmn. þessarar hv. d. hefur fjallað ítarlega um frv. til útvarpslaga, fengið álitsgerðir og tillögur útvarpsráðs og útvarpsstjóra, svo og erindi frá ýmsum öðrum aðilum og loks leitað sér upplýsinga hjá stofnunum og einstaklingum. N. skilar samhljóða áliti um frv. í heild, en einstakir nm. hafa þó fyrirvara um nokkur atriði, eins og vafalaust mun koma fram í þessum umr.

Svo mörg voru þau orð Benedikts Gröndals þegar hann mælti fyrir þessu frv. Ég geri þetta ekki til þess að halda uppi neinni sérstakri maraþonræðu, því að þegar ég fór að lesa þessar umr. hefði ég getað tínt hér til óteljandi önnur gullkorn og kannske mikilvægari og betri en hér voru talin. Ég er aðeins að minna á þetta hér vegna þeirra vinnubragða sem hér hafa verið við höfð, vegna þess eðlis sem ég tel vera innsta eðli þessa máls.

Ég endurtek það enn og aftur, að ég er sannfærður um að undirstaðan að þessu frv. er komin frá því hrjáða íhaldi, sem hefur nú misst sitt rórill, sitt Kanasjónvarp, og þarf nú einhvern veginn að ná sér niðri, einhvern veginn að taka upp gleði sína á ný. Og það verður auðvitað best gert með því að gera okkar ríkisfjölmiðla, ef nokkur leið væri, að sem mestri eftirlíkingu þess ágæta sjónvarps sem þeir horfa nú eftir með tár í augum.