17.12.1974
Efri deild: 24. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (805)

84. mál, útvarpslög

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Enn vil ég óska þess að innt verði eftir því við hæstv. menntmrh., hvort hann vilji ekki prýða samkvæmi okkar hér í þessari hv. d., þótt ekki væri nema nokkra klukkutíma, á meðan við ræðum þetta merka frv. hans um breyt. á l. um Ríkisútvarpið. Ég mun hinkra við eftir honum.

Hæstv. menntmrh. hefur gengið öðru sinni í salinn. Í upphafi á ég það erindi við hann fyrst að leiðrétta misskilning. Ég minntist í síðustu ræðu minni um þetta lagafrv. á afskipti pólitískra braskara af málefnum Ríkisútvarpsins. Hæstv. menntmrh. tók þetta til sín, honum sárnuðu ummælin, og nú vil ég taka það fram, svo að það fari ekki á milli mála, að ég ætlaði honum ekki þennan titli, víðs fjarri því. Í hugskoti mínu getur Vilhjálmur Hjálmarsson ekki rúmast í hópi pólitískra braskara. við erum dálítið veikir fyrir honum, austfirðingarnir, sem eðlilegt er um jafnviðfeldinn, gáfaðan og skemmtilegan mann. Það er sama hvar í flokki við stöndum. Við tökum það heldur óstinnt upp ef illa er að honum vikið, en gleðjumst heldur yfir því þegar við heyrum hann látinn njóta sannmælis. Ég vík seinna að pólitíska braskinu í þessu sambandi. En það er sem sagt við þann mann, vammlausa sómamann, hæstv. menntmrh. Vilhjálm Hjálmarsson, sem ég vil nú ræða frv. það, sem hann aldrei skyldi hafa lagt fram um breyt. á l. um kosningu útvarpsráðs.

Ég neita að trúa því að hæstv. menntmrh. sé rökheldur í þessu máli. Ég veita að trúa því að hann fáist ekki til að falla frá þessu frv., ef hann verður sannfærður um að það sé vont og ekkert gott muni af því leiða annað en e.t.v. að losna við Ólaf Ragnar Grímsson prófessor úr útvarpsráði. Ég held að enginn sæmilega skyni borinn maður trúi því, að tilgangurinn með þessu lagafrv. sé sá að bæta lögin, heldur trúa menn því að tilgangurinn sé að losna fyrst og fremst við einn nafngreindan mann, en aðra þrjá í leiðinni úr útvarpsráði, þó svo að til þess þurfi að spilla lögum til að losna við þessa menn, og síðast en ekki síst þetta, að Framsfl. gangi í þessu í fylkingarbrjósti þeirra alþm. Sjálfstfl., sem mestu vilja til kosta að losna við þá menn úr útvarpsráði sem í það voru kjörnir í umboði þeirra kjósenda sem stóðu að þingmeirihluta vinstri stjórnarinnar.

Ég hef hérna fyrir framan mig ljósmyndaafrit af öllum skrifum íslensku dagblaðanna um núv. útvarpsráð. Það er þessi bunki hérna, menntmrh. þessi bunki hérna. Þó að ég leiti hér með logandi ljósi, þá finn ég ekki eitt einasta dæmi þess að framsóknarmaður hnýti í núv. útvarpsráðsmeirihluta, ekki eina einustu blaðagrein úr Tímanum, þar sem að því er vikið að þessi meiri hluti útvarpsráðs sé ekki hæfur til að gegna störfum og sé ekki raunar hinn ágætasti. Úr þessum blaðabunka hérna mun ég hins vegar geta lesið fyrir hæstv. menntmrh. í nokkra klukkutíma úr blöðum Sjálfstfl., Morgunblaðinu og Vísi, álit Sjálfstfl. á þessu sama útvarpsráði, og ég er reiðubúinn að gera það í nokkra klukkutíma, ef með þarf. En ég ætlast til þess að hæstv. menntmrh. stansi hérna hjá okkur þá litlu stund sem þarf til þess að sýna honum fram á að verið er að fremja óhæfuverk með frv. því sem hér er flutt og á að þvinga gegnum báðar deildir Alþ. nú fyrir jól.

Ég fékk ljósrit af þessum blaðaúrklippum fyrir stundu, og mér hefur ekki gefist tóm til að renna augum í gegnum það, þannig að yfirferðin verður e.t.v. ekki jafngreið og ákjósanlegt hefði verið. En þegar um svo mikilsvert frv. er að ræða, höfum við nógan tíma. En ég biðst sem sagt afsökunar á því að röðin kann að ruglast eitthvað, tímaröðin og einnig málefnaröð.

Við skulum þá byrja á nýlegri grein úr Vísi. Fyrirsögnin er:

„Útvarpsráð. Öruggur meiri hl. með frv. Þorvaldur Garðar lýsir ekki yfir andstöðu.

Öruggur meiri hluti er talinn vera á þingi fyrir samþykkt stjfrv. um útvarpsráð. Einn þm. Sjálfstfl., Þorv. Garðar Kristjánsson, sem á sæti í ráðinu, gagnrýndi frv. að vísu í gær, en hann lýsti ekki yfir andstöðu sinni við það. Þorvaldur skýrði afstöðu sína í viðtali í Vísi í morgun.“ Ég vil aðeins vekja athygli á því, að í frétt Vísis um afstöðu hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar er náttúrlega ekki greint rétt frá. Þorv. Garðar Kristjánsson, hæstv. forseti þessarar d., lýsti yfir andstöðu sinni við frv. Síðan segir: „Stjórnarandstæðingar snerust hins vegar gegn frv., sem gerir ráð fyrir fjölgun í ráðinu og að nýtt ráð verði nú kosið. Þorv. Garðar Kristjánsson sagðist vera sammála því fyrirkomulagi, sem nú væri um kjörtímabil ráðsins og var tekið upp af viðreisnarstjórninni 1971. Hann taldi að ekkert hefði gerst síðan sem réttlætti breytingu í sambandi við lögin sem slík, hins vegar hefði staðið styrr um núverandi ráð og hann skildi hina almennu óánægju með störf ráðsins og ásakanir um pólitíska misnotkun meiri hl. þar.“

Hér höfum við grein frá 25. sept., að því er mér skilst 1972, úr Morgunblaðinu. Fyrirsögnin er:

„Útvarpsráð gerir útvarpið tortryggilegt, segja fréttamenn.

Það fer ekki fram hjá neinum að með þessu er útvarpsráð að gera fréttastarfsemi Ríkisútvarpsins í heild tortryggilega í augum almennings, og það kemur úr hörðustu átt, sagði Jón Hákon Magnússon, fréttamaður hjá sjónvarpinu, er Morgunblaðið spurði hann um álit hans á samþykkt útvarpsráðs frá í gær varðandi fréttaskýringar hans og starfsfélaga hans, Gunnars Eyþórssonar. Gunnar sagði í viðtali við Morgunblaðið í gær að samþykkt ráðsins væri hvað sinn pistil varðaði algerlega byggð á röngum forsendum.

Morgunblaðinu barst í gær eftirfarandi tilkynning frá útvarpsráði:

„Útvarpsráð samþykkti á fundi sínum í dag eftirfarandi till. frá Stefáni Karlssyni:

„Í tilefni af fréttaskýringum í hljóðvarpi og sjónvarpi vegna valdaráns herforingja í Chile“ — þið verðið að fyrirgefa, en þessi afrit eru klesst — „beinir útvarpsráð þeim eindregnu tilmælum til fréttaskýrenda stofnunarinnar að þeir varist að taka hlutsamar fullyrðingar fréttaskeyta upp í skýringar sínar og gera þær að sínum án þess að geta heimilda. Útvarpsráð telur að í téðum fréttaskýringum hafi stjórnmálasaga Chile undanfarin ár ekki verið rakin á viðhlítandi hátt og að í þeim sé að finna villandi ummæli, sem hægt hafi verið að sneiða hjá ef betur hefði verið vandað til verka.“

Vegna þessarar samþykktar sneri Morgunblaðið sér til Gunnars Eyþórssonar og Jóns Hákonar Magnússonar, fréttamanna hjá sjónvarpinu, og spurði þá álits á samþykktinni. Þriðji fréttamaðurinn, sem samþykktin beinist að, Margrét Jónsdóttir, er í fríi og ekki í bænum og reyndist Morgunblaðinu ekki unnt að ná til hennar. Svar Gunnars Eyþórssonar:

„Hvað minn pistil varðar þá er samþykkt útvarpsráðs algerlega byggð á röngum forsendum, þar sem ég notaði engin fréttaskeyti við að semja hann. Pistillinn er hins vegar byggður á þekkingu sem ég hef aflað mér á löngum tíma við lestur viðurkenndra og merkra heimsblaða. Ég get staðið við hvert einasta orð í þessum pistli.“

Jón Hákon Magnússon sagði: „Ef útvarpsráð hefur eitthvað við störf mín hjá Sjónvarpinu að athuga, finnst mér eðlilegast að kvartað sé við mína yfirmenn og sjálfan mig. Ég sé ekki að það þjóni öðrum tilgangi en að þyrla upp pólitísku moldviðri að senda slíka yfirlýsingu til birtingar í fjölmiðlum og það ekki betur rökstudda en raun ber vitni. Það fer ekki fram hjá neinum, að með þessu er útvarpsráð að gera fréttastarfsemi Ríkisútvarpsins í heild tortryggilega í augum almennings, og það kemur úr hörðustu átt.“

Morgunblaðið aflaði sér í gær upplýsinga um það að till., sem útvarpsráð samþ. í gær, hafði verið samþ. með 5 atkv. gegn 1 að viðhöfðu nafnakalli. Fylgjandi till. voru Njörður P, Njarðvík, Stefán Karlsson, Ólafur Ragnar Grímsson, Örlygur Hálfdánarson og Stefán Júlíusson. Magnús Þórðarson var andvígur till.

Enn vil ég beina því til hæstv. forseta, að sé frv. það, sem liggur fyrir d., þess virði að Alþ. fjalli um það, frv. sem menntmrh. flytur hér, þá ætlast ég til þess að hann taki út sömu kvöð og þm. í þessari hv. d., ef á að afgr. það. (Forseti: Ég vil taka fram, að það er ekki á valdi forseta að halda þm. í sætum sínum. Ég sé að við erum aðeins tveir, sem hlýðum á hv. ræðumann, en ég hef ekkert á móti því að það geri fleiri. En ég vona að þeir finni þá þörf til þess sjálfir.)

Ég æskti aðeins eftir því að flytjandi frv., hæstv. menntmrh., væri viðstaddur meðferð þess. — Þar sem hæstv. menntmrh. hefur nú smeygt öðru eyranu inn um gættina til okkar mun ég halda áfram þessum lestri.

Í sama blaði er 27. sept., tveimur dögum síðar, fyrirsögnin: „Saumað að fréttamönnum.“ Greinin hljóðar þannig:

„Kommúnistar og fylgifiskar þeirra hafa lengi haft mikinn hug á því að ná auknum yfirráðum yfir útvarpi og sjónvarpi. Hafa þeir um langan aldur reynt að smeygja mönnum sínum inn í útvarpið til að auka þar áhrif sín. Nú vita það allir, sem vilja vita, að kommúnistar telja það skyldu sína að nota þá aðstöðu, sem þeir hafa, hvar sem er til að vinna fyrir málstaðinn, m.ö.o. til að beita hlutdrægni hvar sem þeir koma því við.

Á undanförnum mánuðum hafa útvarpshlustendur veitt því athygli að vinstrisinnar reyna í vaxandi mæli að troða inn á fólkið áróðri sínum, og vitað er að þeir hafa lagt hart að ýmsum starfsmönnum útvarps og sjónvarps að auka kommúnistaáróður og sneiða hjá þeirri sjálfsögðu reglu að leita öruggra heimilda. Stundum hafa vinstri menn komist furðulangt í þessari iðju sinni. En sem betur fer hefur fólkið í landinu séð í gegnum þessa áróðurstilburði og í sumum tilvikum hafa þeir beinlínis vakið slíka andúð að verkað hefur þveröfugt við það sem tilgangurinn var, en þó er iðjunni haldið áfram.“

Þessi grein í sama dúr er allmiklu lengri, þar sem hamrað er sama kaldastríðsjárnið út í gegn og reynt að varpa rýrð á þá starfsmenn Ríkisútvarpsins, sem ekki hafa gengið Morgunblaðinu á hönd, og þá fyrst og fremst útvarpsráð.

Hér höfum við Staksteina, grein úr Morgunblaðinu frá 4. okt. 1973, þar sem stendur: „Útvarpsráð einangrað. Vinstri meiri hlutinn í útvarpsráði hefur nú einangrast gersamlega og er með öllu sambandslaus við það starf sem fram fer í Ríkisútvarpinu bæði Hljóðvarpi og Sjónvarpi. Þetta er afleiðing þeirrar tilraunar til skoðanakúgunar sem vinstri menn í útvarpsráði gerðu sig seka um á dögunum, en sú tilraun varð til þess að allir fréttamenn útvarps og sjónvarps að einum undanskildum, sem metur meir pólitíska skyldu við kommúnista en samstöðu með starfsbræðrum sínum, mótmæltu framferði vinstri manna í útvarpsráði. Enn fremur snerust æðstu stjórnendur stofnunarinnar harkalega gegn þessari tilraun og skarst svo mjög í odda milli embættismanna og meiri hl. útvarpsráðs að embættismenn sækja nú ekki útvarpsráðsfundi. Þar með er útvarpsráð einangrað og hefur komið sér í sjálfheldu, sem fróðlegt verður að sjá hvernig Njörður P. Njarðvík og félagar hans losna úr.

Í rauninni er ákaflega gagnlegt að fylgjast með vinnubrögðum þeirra svonefndu vinstri manna, sem stjórna Íslandi um þessar mundir. Um margra ára bil hafa þessir menn sakað aðra um ólýðræðisleg vinnubrögð og spillingu o.fl. o.fl. En svo bregður við t.d. í Ríkisútvarpinu, þegar vinstri meiri hl. myndast þar, að lýðræðishugsjónin á ekki upp á pallborðið hjá þeim herramönnum þegar völdin eru í þeirra höndum. Vinstri menn í útvarpsráði hafa gert tvennt. Í fyrsta lagi hafa þeir unnið markvisst að því að misnota þennan ríkisrekna fjölmiðil í þágu þeirra stjórnmálahugmynda sem þeir aðhyllast. Dæmi um óheyrilega misnotkun af þessu tagi eru fjölmörg á s.l. tveimur árum. Í öðru lagi reyna þeir mjög ákveðið að kúga fréttamenn og aðra starfsmenn stofnunarinnar og gera tilraun til þess að hafa áhrif á störf þeirra á þann hátt að Blaðamannafélag Íslands telur móðgun við starfsheiður fréttamanna. Engum kemur á óvart þótt menn á borð við Njörð P. Njarðvík og Stefán Karlsson beiti slíkum starfsaðferðum. Slíkir menn prédika lýðræði í orði, en þeir grípa til einræðiskenndra aðferða um leið og kostur er. Hitt vekur nokkra furðu, að annar fulltrúi Framsfl., Ólafur Ragnar Grímsson, og fulltrúi Alþfl., Stefán Júlíusson, skuli fylgja þessum tveimur mönnum eftir í einu og öllu. Sannleikurinn er sá, að eftir því sem menn fá meiri reynslu af starfsaðferðum vinstri manna kemur betur og betur í ljós, að aðrir verða að halda uppi merki lýðræðislegra stjórnarhátta. Vinstri mennirnir aðhyllast bersýnilega í framkvæmd sams konar vinnubrögð og hægri sinnuð fasistaöfl, eru sannkallað vinstra afturhald.“

Eins og ég sagði í upphafi í nokkrum hótunartón, þá hef ég hérna hráefni sem gæti enst okkur til nokkurra klukkutíma rannsóknar á umfjöllun íslenskra dagblaða, íslensku hægri blaðanna, á málefnum útvarpsráðs, þar sem meiri hl., sem til valda komst í útvarpsráði í tíð vinstri stjórnarinnar, er lagður í einelti. Ég ítreka það, að þó að leitað sé með logandi ljósi í dagblöðunum síðustu 3 árin, þá finnst þar ekki hallmæli um meiri hl. útvarpsráðs eða störf útvarpsráðs í öðrum blöðum en blöðum Sjálfstfl. Ég geri ráð fyrir því að tóm gefist til þess að halda áfram lestri úr þessum blaðaúrklippum í sambandi við afgreiðslu frv. og mun gera hlé á könnuninni um sinn.

En ég vék í upphafi að því sem ég kallaði pólitískt brask. Við skulum viðurkenna það sem er, að pólitískt brask hefur kostað Framsfl. fulltrúa þess flokks í útvarpsráði. Gangur málsins er í stuttu máli sá, að aðalfulltrúi Framsóknar í útvarpsráði, Tómas Karlsson, fór af landi brott, það má segja að hann hafi verið sendur í útlegð fyrir hægri villu, og síðan var varafulltrúanum, sem tók við af honum, vikið úr flokknum fyrir vinstri villu. Sá síðarnefndi tók með sér umboð Framsfl. og heldur því, þrátt fyrir það að hann er ekki lengur í flokknum.

Það er e.t.v. kominn tími til þess að taka til endurskoðunar þau lög, sem fjalla um umboð fólksins í hinum æðstu embættum, og setja lagaákvæði sem komið gæti í veg fyrir að maður, sem kjörinn er á Alþ. af stuðningsmönnum eins flokks, geti hlaupið yfir í annan flokk með umboð þeirra kjósenda og unnið þannig berlega gegn vilja þess fólks sem kaus hann á þing. Það er e.t.v. kominn tími til að setja lagaákvæði sem koma í veg fyrir þann möguleika að alþm. hlaupist burt með það umboð, sem fólkið hefur falið þeim, og gangi í fjandaflokk. Væri slíkt mögulegt, að setja slík ákvæði, þá væri það vel til þess fallið að efla lýðræði í landinu. Persónulega væri ég því hlynntur aðslíkt yrði athugað. Flokkur minn hefur orðið fyrir barðinu á slíkum persónuleikum. Ég tel eðlilegt, að reistar verði skorður við þess háttar pólitísku braski. Hið sama mætti þá gilda um þau embætti, sem þingflokkarnir kjósa menn í, svo sem útvarpsráð, að þeir fulltrúar, sem í það eru kjörnir, verði skyldaðir til að segja hreinlega af sér ef þeir hverfa burt úr þeim flokki sem kaus þá til þess trúnaðar. Ég held það gæti verið gott fyrir pólitíkina í landinu að reistar yrðu eðlilegar skorður við skrípalátum pólitískra framagosa. Þessi mál þarf að athuga. Ég hef raunar grun um að við athugun kunni að finnast á þessu ýmsir þeir agnúar, eins og t.d. sá, að hið sama hljóti þá að gilda um það umboð sem stjórnmálaflokkar fá frá kjósendum eins og um það umboð sem einstakir þm. fá frá kjósendum, en af því gæti t.d. leitt, svo að við tökum nærtækt og nýlegt dæmi, að Framsfl., sem lofaði vinstri stefnu í kosningunum síðast, yrði sviptur umboði vegna þess að hann breytti svo til og tók hægri stefnu út á umboð vinstri kjósenda strax að kosningum loknum.

Þegar til kastanna kemur er sennilega best að reyna að notast við okkar góðu og gömlu reglu að fá dóm kjósenda á fjögurra ára fresti, jafnt á einstaka þm. sem stjórnmálaflokka. Þá fylgir það náttúrlega með að fulltrúar þingflokka í ráðum og nefndum fái að sitja út lögákveðið kjörtímabil og hljóti síðan dóm flokka sinna að því búnu. Það að heimila Framsfl. nú að rjúfa útvarpsráð til þess að koma Ólafi Ragnari Grímssyni frá fyrir brigð við flokkinn, það væri hliðstætt við að kjósendur Framsfl. fengju umboð til þess að rjúfa þing í því skyni að koma dómi yfir þann flokk fyrir svikin eftir síðustu kosningar. Tilhugsunin er að vísu dálítið skemmtileg, en gæti orðið vandasöm í framkvæmd og ekki víst að afleiðingarnar yrðu öllum að skapi.

Ég ítreka það, sem ég sagði í upphafi um þennan blaðabunka hérna. Gefist ekki tími til þess við umr. núna fyrir jólin að lesa allan þennan bunka upphátt fyrir hæstv. menntmrh., er ég staðráðinn í því að ganga snyrtilega frá úr úrklippunum í umslagi og senda honum til lesturs um jólin.