12.11.1974
Sameinað þing: 6. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til þess að gera að umræðuefni það ástand og mál sem ég tel að sé stórmál sem nú er í sviðsljósi, og á ég þar við þá greiðsluerfiðleika, sem bæjar- og sveitarfélög víðs vegar í kringum landið eiga nú í, og þá samninga, sem Reykjavíkurborg hefur nú gert við Landsbanka Íslands um heimild til lántöku að upphæð 600 millj. kr. til þriggja ára. Ég ætla ekki út af fyrir sig að deila á þetta samkomulag borgarstjórnar Reykjavíkur og Landsbanka Íslands, en ég vil vekja athygli á því, að það eru smærri sveitarfélög víðs vegar í kringum landið sem eiga í jafnmiklum erfiðleikum og Reykjavíkurborg. Ég vil vekja athygli ríkisstj. á því, að það er full ástæða til þess að álíka fyrirgreiðsla verði innt af hendi fyrir þau sveitarfélög víðs vegar í kringum landið sem eru jafnilla stödd hlutfallslega og Reykjavíkurborg. Ég hef því kosið að vekja athygli á þessu mikilvæga máli hér í Sþ. og jafnframt að spyrja hæstv. félmrh. um það, hvort hann eða ríkisstj. í heild hafi uppi um það fyrirætlanir að sveitarfélögum öðrum en Reykjavíkurborg verði heimiluð hliðstæð fyrirgreiðsla að því er varðar greiðsluerfiðleika þeirra eins og Reykjavíkurborg hefur nú fengið hjá ríkisbanka. Ég vænti þess að hér sé um að ræða byrjun á því heildarskrefi að leysa þá greiðsluörðugleika sem sveitarfélögin eiga i, þó að stærsta sveitarfélagið hafi orðið fyrir því að ríða á vaðið með slíkt. Mér er einnig kunnugt um það, að Kópavogskaupstaður hefur fengið eitthvað álíka fyrirgreiðslu hjá ríkisbanka, og ég tel því sjálfsagt og eðlilegt að önnur sveitarfélög fái sams konar fyrirgreiðslu, og ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. beiti sér fyrir því, ef hún hefur nú ekki þegar gert það.

Ég sem sagt vildi óska eftir því við hæstv. félmrh., að hann gerði grein fyrir því, hvort hann eða ríkisstj. í heild hefðu einhver slík plön uppi um fyrirgreiðslu fyrir önnur sveitarfélög.