17.12.1974
Efri deild: 25. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í B-deild Alþingistíðinda. (829)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af því, sem hefur fram komið hér áðan — ég ætlaði mér reyndar ekki að taka oftar til máls í þessu máli — vil ég taka undir það sem kom fram í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v., Ragnars Arnalds, að við eigum að líta á þjóðbrautina kringum landið sem eina heild. Ég er honum alveg sammála um það og ég gat þess í ræðu í hv. Ed. fyrir nokkrum dögum að ég teldi að bæði ég og aðrir hefðu gert sig seka um það að sinna ekki vegum milli byggða, einkum t.d. Holtavörðuheiði og Gilsfirðinum og þess háttar. Þetta var á vissan hátt kannske réttlætanlegt meðan menn voru að brjótast áfram með að teygja vegina inn eftir héruðunum, en það er ekki hægt til lengdar að halda því áfram.

Þetta sáu þm. hér fyrir nokkuð löngu, og fyrst þegar var byrjað á vegaskatti hét hann Brúasjóður og Millibyggðavegasjóður og var upphafið að bensínskatti. Þetta var í lögum þegar ég kom hér á þing, og á sínum tíma flutti ég og fyrrv. þm. Norðurl. v., Björn Pálsson, frv. til l. sem var upphafið að Vegasjóði sem var í raun og veru um að taka bensíngjöld og þungaskatt í ríkum mæli til lagningar þjóðvega og þá fyrst og fremst miðað við nýbyggingar. Þess vegna tek ég undir þetta með hv. þm., og ég álít að þetta sé rétt stefna og hef áður lýst því hér. Ég vil hins vegar bæta því við, að ég tel að gott vegakerfi, eins og fram kom í ræðu hv. 6. þm. Norðurl. e., Inga Tryggvasonar, er svo mikils virði, að hafa góðar samgöngur á landi, að það beri nauðsyn til þess að hafa vegina góða vegna þess að það er svo mikill sparnaður að því og fólkið fær svo mikið fyrir fjármuni sína með því. Ef við bara lítum á verðlagið á bensíni nú og fyrir nokkrum árum, þá er þar svo mikill munur á eða á viðhaldi bíla að það þarf nokkuð til að hafa þar upp á móti.

Út í það, sem þessir tveir hv. þm. sögðu, skal ég svo ekki fara frekar. En það var eitt atriði sem ég vildi víkja að í sambandi við ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e., Stefáns Jónssonar. Það er afskaplega mikill misskilningur hjá þessum hv. þm. ef hann heldur að ég hafi nokkurt skáldabragð á borð við hann. Þar er breitt bil á milli. Hann getur verið skáldlegur, en ég er yfirleitt raunhæfur, og ég skal segja honum það, að ég hef marga útreikninga um vegagerðina inn fyrir Borgarfjörð sem sýna að brúin og sú leið yfir Borgarfjörð er ódýrasta leiðin. Þetta getur hv. þm. fengið upplýsingar um og ég skal láta honum þær í té þegar ég get náð í þær, og það get ég gert fljótlega. Á þeirri staðreynd byggist þessi áætlanagerð. Hv. þm. hefur ábyggilega farið oft inn fyrir Borgarfjörð og hann veit hvernig vegagerðin er. Hann veit hvað þarf að byggja upp margar brýr á þessari leið, og hann þyrfti líka að vita það hvað það styttir leiðina upp í Borgarnes, vestur á Snæfellsnes og norður í land að fara þessa leið. Þegar þetta er allt reiknað í arðsemi, þá er þetta fundið út. Ég hef ekki reiknað það út, é, er ekki sá „kúnstner“ í reikningi að ég hafi gert það. Það voru danskir verkfræðingar sem gerðu áætlun um vegagerð hér fyrir nokkuð löngu, og íslenskir verkfræðingar hafa líka reiknað þetta dæmi út og einfaldað það. Það þarf ekki neina skáldagáfu til að finna þetta út.

Hitt er ég honum ekki sammála um, að það skipti ekki fólkið í byggðum landsins nokkru máli hvernig sambandið er við Reykjavík og Akureyri. Fólkið í byggðum landsins flytur afurðir sínar á markaðinn og það flytur vörur sínar af markaðsstöðunum. Þess vegna skiptir það þetta fólk verulegu máli hvernig samgöngukerfið er. Það er ekki sama fyrir mjólkurframleiðendurna hvernig vegirnir eru sem þeir þurfa að flytja mjólkina sína á, og það er þess vegna sem við keppumst um að bæta vegakerfið til hagsmuna fyrir framleiðendur og neytendur, af því að þeir þurfa að eiga viðskipti hvorir við aðra. Þetta er undirstaðan undir okkar samgöngukerfi í landinu, því það byggist ekki á túrisma, heldur á flutningum á milli fólksins frá og til þéttbýlisstaðanna, hvort sem það er hér í Reykjavík norður á Akureyri eða annars staðar. Og það er hið skáldlega í þessu hjá hv. þm. að hann sá ljómann af hinu, en gleymdi hinu raunverulega daglega brauði og daglega striti þessa fólks sem við erum að reyna að basla við að vinna fyrir.