19.12.1974
Efri deild: 31. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

125. mál, almannatryggingar

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það eru örfá orð til stuðnings þessu frv. Ég vil um leið þakka frsm. glöggt erindi, glögga grg., sem þessu frv. fylgir, og að vekja athygli á þessu máli. Við vitum það og vil ég a.m.k. trúa því að tryggingalöggjöf okkar sé í mörgu ágæt. Þar hafa umtalsverðir áfangar náðst fram. Þessi löggjöf er stöðugt í endurskoðun og athugun, enda er eðlilegt að svo stórfellt velferðarmál sé ævinlega í fremstu röð á okkar verkefnaskrá.

Þetta frv. og grg. og framsöguræða hv. flm. sannfærðu mig þó um það enn betur, að ýmis ákvæði þessara laga, þótt ágæt séu, m. a. skerðingarákvæði eða þá ákvæði, sem eiga að fyrirbyggja ofnotkun eða misnotkun, geta verið allvafasöm eða orðið allvafasöm í túlkun og einstaka þeirra geta jafnvel veríð beinlínis ranglát í eðli sínu, eins og mér sýnist að hér geti átt sér stað. Út af þessu dettur mér í hug frv. það sem ég flutti í haust ásamt hv. þm. Stefáni Jónssyni um ferðakostnaðargreiðslu landsbyggðarfólks. Þar hefur einmitt misnotkun ætíð verið talin hættuleg, og niðurstaðan hefur svo orðið sú að lítið sem ekkert hefur verið aðhafst í réttlætisátt í þessu máli. Ég benti þá á að ég teldi tvöfalda tryggingu fyrir því að um misnotkun yrði ekki að ræða, þar sem bæði væri um að ræða vottorð frá heimilislækni eða héraðslækni annars vegar og hins vegar vottorð frá þeim sérfræðingi sem hefði sjúklinginn til meðferðar: Hér er hins vegar um að ræða ákvæði til skerðingar á rétti þeirra þegna okkar þjóðfélags sem ég held að við séum öll sammála um að gera eigi sem best við. Sannast sagna var það fyrst núna á dögunum að ég gerði mér ljós alvarleg áhrif þessa ákvæðis, þegar til mín leitaði aldurhniginn fyrrv. bóndi austan af landi og sagði sínar farir ekki sléttar einmitt varðandi þetta umrædda mál sem hér er til umr.

Hv. þm. bendir einmitt mjög skýrt á það í sinni grg. að elli- og örorkulífeyrisþegar þurfi að halda áfram að greiða rekstrarkostnað heimilis síns, eins og hann þar telur upp ýmsa liði, og þessi maður þurfti vitanlega að sinna margvíslegum gjöldum af sínum heimilisrekstri og af vissum ástæðum einmitt mjög kostnaðarsömum. Því er ekki að leyna að þessi maður hafði fengið úrskurðað, að þessi ellilífeyrir yrði af honum tekinn, eða hann áleit að það lægi skýrt fyrir, og hann sá allt svart fram undan sannast sagna í þessu máli sinu. Efni hans voru svo sannarlega lítil, en hann hefur löngum búið við þröngan kost, enda hlýtur það að vera svo, að öll slík mál, að ákvæði eins og skerðingarákvæði af þessu tagi koma auðvitað harðast niður á þeim sem minnst hafa af að taka.

Ég efast ekkert um varðandi þá heimild, sem hv. flm. gat um varðandi tryggingaráð, að því væri heimilt að víkja frá þeim tíma takmörkum sem þarna eru sett, að tryggingaráð hafi tekið sanngjarna afstöðu eftir því sem það hefur getað í hverju einstöku tilfelli, og ég treysti ráðinu allsæmilega til þess. En einmitt vegna þess að þetta kemur harðast niður á þeim sem erfiðast eiga, þá þarf, held ég, að fara að með fullri gát þegar slíkur réttur er niður felldur sem hér um ræðir. Ég tek fyllilega undir með hv. flm., að þetta er í mörgum tilfellum eini möguleikinn til lífsviðurværis fyrir þessa einstaklinga.

Það þekkja allir hve þarfir okkar nútímafólks, réttmætar sem ímyndaðar, hafa þanist út á öllum sviðum. Við vitum einnig, að þarfir hinna öldruðu og öryrkja og kröfugerð þeirra sérstaklega til lífsgæða er yfirleitt smámunir einir í því sambandi, miðað við það sem við almennt gerum. En þær eru vissulega meiri en fæði og aðhlynning á sjúkrahúsi, eins og hv. flm. benti réttilega á. Þessum sjálfsögðu þörfum hvers einstaklings þarf að mæta og ekki að fella niður kannske þann eina tekjustofn sem hann hefur til lífsframfæris. Niðurfelling á þessum rétti hlýtur að teljast ranglát, ef henni er beitt af nokkurri hörku, kannske að því er sumir telja af sanngirni og réttsýni, þá getur hún samt komið býsna hart niður.

Ég mun sannarlega reyna að beita áhrifum mínum í hv. þn. til þess að málið fái góða athugun þar og eins farsæla úrlausn og frekast er unnt. Við eigum að lagfæra þá vankanta sem á þessari annars ágætu löggjöf eru enn þá og einmitt með anda og megintilgang almannatryggingalaganna í heild í huga. Hér er að einum ágalla vikið, — ágalla sem ég tel rétt að skoða, fá fram á vissa lagfæringu, og ég vil þakka hv. flm. fyrir að hafa flutt þetta mál okkur til umhugsunar og úrlausnar.