22.10.1975
Neðri deild: 9. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til að vekja athygli þm. á þeirri gífurlegu og skyndilegu kjaraskerðingu sem hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir gagnvart fjölmennri vinnustétt í landinu, — kjaraskerðingu sem mun gera hundruð ef ekki þúsundir einstaklinga og fjölskyldumanna í hópi íslenskra námsmanna nær bjargþrota þegar á næstu vikum. Ég hef kvatt mér hljóðs til að freista þess að knýja hæstv. menntmrh., hæstv. fjmrh. og ríkisstj. í heild til að snúa við blaðinu og veita íslenskum námsmönnum þann stuðning sem þeir eiga bæði siðferðilegan og lagalegan rétt til. Framkoma hæstv. ríkisstj. gagnvart þúsundum íslenskra námsmanna felur í fyrsta lagi í sér kjaraskerðingu sem nemur um 50%. Engri annarri vinnustétt landsins hefur þrátt fyrir erfitt efnahagsástand verið sýnd slík óbilgirni að kjör hennar séu skert um helming.

Framkoma hæstv. ríkisstj. felur í öðru lagi í sér brot á öllum viðurkenndum venjum og reglum lýðræðislegrar stjórnsýslu. Menntmrn. virti Lánasjóð ísl. námsmanna ekki svars mánuðum saman, lét hundruð námsmanna halda út í lönd, marga með maka og börn, í þeirri trú að yfirlýsingar fyrra árs væru enn í gildi, en tilkynnir svo gífurlega kjaraskerðingu fyrirvaralaust nokkrum vikum eftir að námsár er hafið og sviftir þannig námsmenn þeim lífeyri sem átti að duga þeim til matar og annarra nauðsynja fram að áramótum. Siðuð stjórnvöld í lýðræðisþjóðfélagi geta ekki komið fram á þennan hátt gagnvart þúsundum þegnanna.

Aðgerðir ríkisstj. fela í þriðja lagi í sér hættu á verulegu tjóni fyrir íslenska þjóðarbúið. Þær geta skert verulega hagvaxtarmöguleika okkar í framtíðinni. Menntun er nú almennt viðurkennd sem arðvænlegasta fjárfestingin. Auður framtíðarinnar byggist á þekkingu og þjálfun hinnar upprennandi kynslóðar.

Möguleikar til náms í vísindum og tækni við skóla atvinnuveganna og í helstu greinum nútímamenningar hafa nú verið skertir til muna. Um leið hafa möguleikar íslendinga til að vera í nútíð og framtíð taldir til þróaðra menningarþjóða verið þrengdir. Kjaraskerðing ríkisstj. gagnvart þúsundum námsmanna er því ekki aðeins siðlaus framkoma gagnvart þegnum þjóðfélagsins, hún er atlaga að íslenskri hagþróun og almennri velferð um ókomin ár.

Hæstv. ríkisstj. hefur haft marga mánuði til að leysa vanda námsmanna. Lánasjóður ísl. námsmanna sendir 13. maí 1975 bréf til menntmrn. og tilkynnti áætlaða fjárþörf vegna haustlána. Þetta bréf var síðan margítrekað í allt sumar með viðtölum við hæstv. menntmrh. sjálfan og starfsmenn rn. Í byrjun okt., eftir að útlánatímabil átti að vera hafið, voru þessar óskir og sjónarmið Lánasjóðsins enn einu sinni ítrekaðar og 7. þ. m. voru rn. settir úrslitakostir. Það var þá fyrst sem hæstv. ríkisstj. hófst handa og skilaði eftir nokkra daga þeim árangri að það eina, sem hún gat gert, var að ganga á bak fyrri yfirlýsinga, jafnvel fremja brot á gildandi reglum og lögum um lán til íslenskra námsmanna og skerða kjör þeirra um 50%.

Til haustlána í ár hefði Lánasjóðurinn þurft 290 millj. kr. Eigið fé hans var 60 millj. Ríkisstj. hefur nú veitt lántökuheimild fyrir 100 millj. Þá eru eftir 130 millj. af þessum 290 millj. sem eru hin raunverulega kjaraskerðing gagnvart ísl. námsmönnum. Það jafngildir því að þeir námsmenn, sem hefðu átt að fá 70–100 þús. kr., fá nú aðeins 20–40 þús. kr., þeir námsmenn, sem hefðu átt að fá 200 þús. kr., fá nú aðeins 70–80 þús. kr. Og það er engin huggun og nánast hótfyndni af hálfu ríkisstj. að tilkynna að í jan. verði þetta e. t. v. bætt með 100 millj. Hæstv. ráðh., bæði hæstv. menntmrh. og fjmrh., keyra ekki í haust á því bensíni sem þeir fá í jan., og námsmenn lifa ekki heldur hálfan veturinn á þeim fjármunum sem þeir hugsanlega fá í janúar. Þessi kjaraskerðing, sem nemur 130 millj. af 290 millj., mun því knýja hundruð námsmanna, einkum þá sem komnir eru frá efnaminni heimilum og eiga enga ríka að, knýja þá til að hætta námi. Aðgerðir ríkisstj. eru að gera nám á Íslandi að forréttindum auðmannabarna.

Herra forseti. Ég vil að lokum, um leið og ég skora á hæstv. menntmrh., hæstv. fjmrh. og ríkisstj. í heild að breyta nú þegar um stefnu og gera Lánasjóð ísl. námsmanna kleift að úthluta nauðsynlegum haustlánum og forða þannig hundruðum námsmanna frá bjargþroti á næstu víkum, leggja áherslu á að íslenskir námsmenn eru ekki hópur iðjuleysingja sem lifir einhverju forréttindalífi. Íslenskir námsmenn eru bæði einhver mikilvægasta framtíðarfjárfesting þjóðarinnar og ein af fjölmennari vinnustéttum þessa lands. Hér er á ferðinni kjaraskerðing gagnvart láglaunastétt og hún kann að vera forboði um áframhaldandi kjaraskerðingu gagnvart öðrum láglaunastéttum í landinu.

Samtök alþýðunnar hafa skilið að aðför ríkisstj. að námsmönnum er um leið aðför að öllu láglaunafólki í landinu. Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Verkamannafélagið Dagsbrún og Alþýðusamband Vestfjarða og fleiri samtök alþýðufólks hafa lýst yfir stuðningi og samstöðu með aðgerðum námsmanna.

Það er nauðsynlegt að hæstv. ríkisstj. og þm. allir geri sér ljóst að helstu launþegasamtök landsins hafa tekið höndum saman við námsmannahreyfinguna í baráttu gegn þessari gífurlegu og skyndilegu kjaraskerðingu og þeim siðlausu vinnubrögðum sem ríkisstj. hefur haft í frammi. Ríkisstj. Íslands verður því í þessu máli að sjá að sér. Hún verður að snúa við blaðinu, ella kallar hún yfir hundruð þegna þessa lands efnahagslegt hættuástand sem þeir ráða ekki við. Ég vona að hæstv. menntmrh. muni þess vegna nota tækifærið hér í dag til að tilkynna slíka stefnubreytingu. Ég veit eða vona a. m. k. að hann vilji ekki bera þá sök á bakinu lengi að hafa orðið til þess að hundruð íslenskra námsmanna verða nú að hætta námi, að einhver arðvænlegasta fjárfesting íslensku þjóðarinnar hefur verið skert til muna vegna skammsýni, vegna rangra vinnubragða og þess efnahagsöngþveitis sem núv. ríkisstj. hefur komið á í landinu.