18.12.1975
Neðri deild: 35. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1430 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

121. mál, almannatryggingar

Vilborg Harðardóttir:

Herra forseti. Átakanleg var lýsingin um annríki hæstv. ráðh. sem aðeins hafði tíma til að borða eina máltíð í dag, og mikið hefur hann flýtt sér því að svo mikið er víst að bumbult hefur honum orðið af matnum. Hann byrjaði að lýsa því yfir að þeir, sem hér hefðu talað og kemur í ljós að eru eintómir vestfirðingar eins og hann, hefðu farið með eindæma firrur sem hann ætlaði að svara. En síðan kemur í ljós að hann svarar engu af þessu. Hæstv. ráðh. gat þess að stjórnarandstæðingar hefðu hér þau fríðindi, þegar tíminn er orðinn naumur, að geta talað. Ég get nú ekki séð annað en hver einasti maður hér hafi þessi fríðindi sem hann vill kalla svo, bæði liðsmenn stjórnarinnar og stjórnarandstæðingar. Hitt er svo annað mál hverjum það er að kenna að tíminn er naumur hérna. Ég held að þar sé ekki neinum um að kenna nema hæstv. ríkisstj. sem ekki hefur notað allan sinn tíma síðan í haust til að leggja fram mál svo að hv. þm. hefðu eðlilegan og nógu langan tíma til meðferðar á þeim og fengju að tala um þau án þess að það teldust einhver sérstök fríðindi.

Hæstv. ráðh. beindi því að ég held frekast til mín að hér hefði þm. sagt að sveitarfélögin hefðu engin áhrif á rekstur sjúkrahúsa. Ég minntist á rekstur sjúkrahúsa. En það, sem ég sagði og hafði reyndar eftir framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga var alls ekki að hann hefði sagt að sveitarfélögin hefðu engin áhrif á rekstur, heldur þvert á móti tók hann fram, að þau hefðu ekki allan rekstrarkostnaðinn í hendi sér. Hann nefndi sérstaklega, og ég get endurtekið það hér, að þau hafa hvorki í hendi sér samninga né ákvarðanir um kröfur um þá lágmarksaðstöðu, sem á að vera á sjúkrahúsunum, né heldur samninga um kaup og kjör starfsfólks, hvorki lækna né annars starfsfólks.

Því átti að beina til mín hér áðan sem óvans þm. og þar af leiðandi sjálfsagt óvitandi að áliti hæstv. ráðh. að bætur almannatrygginga hefðu hækkað svo og svo ört. Þetta veit ég fullvel. Það, sem ég sagði, var að þær hafa ekki lækkað síðan 1. okt. s. l. þrátt fyrir heimild til að hækka þær samkv. lögum og fulla ástæðu til að koma á móti þeirri stórfelldu kjaraskerðingu sem orðin er jafnt hjá þessum hópi sem og öðrum hópum þjóðfélagsins og er kannske ekki síst ástæða til að mæta kjaraskerðingunni hjá þessum hópi, sem þegar lifir á hungurlaunum.

Það er svo sem sama hvernig hæstv. ráðh. snýr því. Staðreyndin er að það, sem hér er lagt til að leggja 1% á gjaldstofn útsvara hjá sveitarfélögum, það eru aukaálögur sem ekki bitna á atvinnurekendum heldur á öllum almenningi og þá fyrst og fremst launafólki.