19.12.1975
Efri deild: 42. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1508 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

105. mál, söluskattur

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 262 hefur meiri hl. fjh.- og viðskn. skilað áliti um það frv. sem hér liggur fyrir, um söluskatt, og þar stendur: „Albert Guðmundsson tekur ekki þátt í afgreiðslu málsins.“

Ég vil gera nokkra grein fyrir þessari afstöðu minni, en hún er fólgin í því og eingöngu í því að þeim söluskatti, sem hér er um að ræða, er ætlað það hlutverk að standa undir þeim auknu verkefnum sem færð eru yfir til sveitarfélaganna frá ríkisrekstrinum. Fyrir Alþ. liggja því tvö frv. til l. er varða sérstaklega samskipti ríkisins og sveitarfélaganna: Annars vegar er um að ræða frv. til l. um breyt. á l. um söluskatt, en hins vegar frv. til l. um breyt. á l. vegna nokkurra verkefna sveitarfélaga og kostnaðar við þau, en bæði þessi frv. eru boðuð í aths. með frv. til fjárlaga.

Frv. til l. um breyt. á l. um söluskatt ásamt fram kominni brtt. gerir ráð fyrir aukinni hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í 5 söluskattsstigum, og er tekjuauki Jöfnunarsjóðs af þessum sökum áætlaður um 520 millj. kr. Úthlutunarfé Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga hækkar hins vegar ekki að sama skapi. Tekjuaukinn skerðist um 12%, þ. e. a. s. 5% til Lánasjóðs sveitarfélaga, 5% í varasjóð, 1% til Sambands ísl. sveitarfélaga og 1% til landshlutasamtaka sveitarfélaga. Úthlutunarfé Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga verður þannig tæplega 458 millj. kr. Í hlut borgarsjóðs Reykjavíkur koma þá 39% í hlutfalli við íbúatölu eða rétt tæplega 179 millj. kr.

Frv. um breyt. á l. vegna nokkurra verkefna sveitarfélaga og kostnaðar við þau eru í 7 köflum og varðar jafnmarga málaflokka sem greiddir hafa verið að meira eða minna leyti sameiginlega af ríkissjóði og sveitarfélögum. Ég mun ekki á þessu stigi fjalla um frv. lið fyrir lið, sé ekki ástæðu til þess, eða sérstaklega um einstaka kafla þess, en í ræðu, sem borgarstjórinn í Reykjavík hélt á fundi borgarstjórnar í gær, vakti hann athygli á að útgjöld ríkissjóðs, sem borgarsjóði er ætlað að yfirtaka samkv. frv., muni nema samkv. frv. að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar, eins og það hefur verið lagt fyrir borgarstjórn, um 209 millj. 300 þús. kr. eða m. ö. o. um 30 millj. kr. hærri fjárhæð en ætla má að tekjuauki borgarsjóðs verði samkv. frv. um breyt á l. um söluskatt, eins og það nú liggur fyrir og ég vék að hér áðan.

Borgarstjóri lét einnig þá skoðun í ljós, að frv. um breyt. á l. vegna nokkurra verkefna sveitarfélaga yrði ekki skilið á þann veg að ríkissjóður muni við uppgjör við sveitarfélög vegna útgjalda á árinu 1975 beita ákvæði þess, — frv. er að sjálfsögðu ekki orðið að lögum enn þá, en ef það verður samþykkt. Engin ákvæði eru í frv. þess efnis. Slík túlkun eða framkvæmd laganna mundi hins vegar leiða til mun óhagstæðari útkomu fyrir borgarsjóð Reykjavíkur og að sjálfsögðu sveitarfélögin almennt á næsta ári en framangreindar tölur segja til um. Því vil ég beina þeirri fsp. til hæstv. ráðh. hvort ætlunin sé að láta ákvæði frv., ef samþykkt verður, gilda um uppgjör ríkissjóðs við sveitarfélög vegna ársins 1975. Ég vænti þess að fá skýr svör um þetta atriði. Þau tel ég mig ekki hafa fengið á nefndarfundinum í gærkvöld og þar af leiðandi mótaðist afstaða mín hvorki með né á móti á þessum nefndarfundi. Afleiðingin er sú, að skráð er í nál. meiri hl. að Albert Guðmundsson hafi ekki tekið þátt í afgreiðslu málsins.

Í ræðu sinni á borgarstjórnarfundi í gærkvöld sagði borgarstjóri orðrétt á þessa leið:

„Mér er ekki kunnugt um hvaða áhrif samþykkt þessara tveggja frv., sem ég hef nú gert að umræðuefni, muni hafa á fjárhag annarra sveitarfélaga en Reykjavíkurborgar. Af því, sem ég hef nefnt, er hins vegar ljóst að samþykkt frv., eins og þau liggja nú fyrir Alþ., mun hafa neikvæðar afleiðingar fyrir fjárhag borgarsjóðs, og ég reikna þá með að sama eigi við um önnur sveitarfélög.“ Ég held áfram: „Ég tel að ekki hafi verið ætlun ríkisstj., þegar ákveðið var við undirbúning fjárl. að stefna að þeim breytingum sem þar eru greindar, að þær yrðu sveitarfélögum í óhag. Ég vil því eindregið hvetja ríkisstj. og alþm. alla til þess að gæta þess við afgreiðslu þessara frv. á Alþ. að hagsmunir sveitarfélaganna verði ekki skertir með samþykkt þeirra.“

Undir þessi orð borgarstjóra vil ég taka.

Í ræðu sinni á borgarstjórnarfundi í gær benti borgarstjóri einnig á að í brtt. fjvn. við frv. til fjárl. 1976 er aðeins gert ráð fyrir 188.8 millj. kr. framlagi til skólabygginga í Reykjavík. Ég bið afsökunar að ég fer hér e. t. v. svolítið út fyrir þann ramma, sem okkur er skorðaður með umr. um söluskatt eingöngu. Það er ekki hægt annað, því að þessi mál eru tengd þeim hraða sem hefur verið á afgreiðslu mála í hv. d. undanfarið. — Aðeins er gert ráð fyrir 188 millj. kr. framlagi til skólabygginga í Reykjavik, en samsvarandi fjárhæð í frv. að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar er um 312 millj., eða réttara sagt 312.6 millj. kr. Mismunur er að upphæð 123.8 millj. kr. Hér er þó aðeins átt við lögbundinn hluta ríkissjóðs vegna skólabygginga sem þegar hafa verið samþykktar. Frv. að fjárhagsáætlun borgarinnar gerir einnig ráð fyrir að hluti ríkissjóðs vegna umsaminna húsnæðisskipta, þ. e. vegna Vogaskóla og Öskjuhlíðarskóla, verði á árinu 1976 95 millj. kr., en samkv. brtt. fjvn. er þessi fjárhæð nú áætluð um 67 millj. kr. Mismunur er hér 28 millj. kr. Þá er í frv. að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar áætlaður samningshluti ríkissjóðs vegna greiðslu til húsnæðisskipta 83 millj., en fjvn. gerir enga till. um framlag í þessu skyni. Í ræðu sinni taldi borgarstjóri, að hér væri um samningsskyldu að ræða sem ríkissjóður geti ekki vikist undan að fullnægja, og lét í ljós von um að mál þetta yrði tekið til frekari athugunar við 3. umr. fjárl.

Vil ég nota þetta tækifæri til að ítreka og koma á framfæri þessari skoðun borgarstjóra, því að þetta er til viðbótar við það sem vantar upp á að söluskatturinn standi undir þeim kostnaðarliðum, þeim auknu verkefnum sem nú er verið að færa yfir á sveitarfélögin almennt og aukast ef svar hæstv. ráðh. verður á þá leið að kostnaður árið 1975 skuli yfirfærast af sveitarfélögunum, — aukast úr 209 millj. í hlut Reykjavíkurborgar um 133 millj. rúmar eða upp í 342 millj. kr. rúmar. Tekjuauki borgarsjóðs Reykjavíkur — og annarra sveitarfélaga þá líklega í hlutfalli við það — er 178 millj. kr. við þessar breytingar sem nú er verið að gera.

Af því, sem nú hefur verið rakið, er ljóst að frv. til fjárl. gerir ráð fyrir rúmlega 234 millj. kr. lægri fjárveitingu til skólabygginga í Reykjavík en frv. að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar eða borgarsjóðs gerir ráð fyrir og með þeim forsendum sem nú hefur verið lýst. Verði ekki verulegar lagfæringar gerðar við afgreiðslu fjárl. að þessu leyti er þannig alveg ljóst að framkvæmdir við skólabyggingar í Reykjavík á næsta ári verður að skera niður frá því sem áætlað hafði verið. Að sjálfsögðu hlýtur sá niðurskurður fyrst og fremst að bitna á íbúum og þá aðallega börnum í hinum nýju borgarhverfum Reykjavíkurborgar, eins og t. d. Breiðholti.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um þessi atriði frekar. Með máli mínu hef ég viljað vekja athygli hv. alþm. á málaflokkum sem annars vegar varða sveitarfélögin öll, en hins vegar atriðum í fjárlagafrv. sem varða reykvíkinga sérstaklega. Ég vil vænta þess að við afgreiðslu frv. verði þau atriði höfð í huga sem ég hef nú gert að umræðuefni. Það er alvarlegt ef mistök hafa átt sér stað, þannig að þau verkefni, sem verið er að færa yfir á herðar sveitarfélaganna, og tekjuaukar sveitarfélaganna standast ekki nokkurn veginn á. En svo virðist vera ef það verður sem ég óttast að kostnaðurinn við árið 1975, sem þegar er útlagður af sveitarfélögunum og þau reikna með að fá endurgreiddan og er hvað Reykjavík snertir 133 millj. kr., komi til viðbótar við þann kostnað sem skapast af þeim verkefnum sem yfirfærð eru til sveitarfélaga og þá m. a. Reykjavíkurborgar. Ég vona að ótti minn sé ástæðulaus, en geri ráð fyrir að hæstv. fjmrh. gefi hér skýr svör, þannig að ekki fari á milli mála að hverju er stefnt og sveitarfélögin geti hagað sínum fjárhagsáætlunum fyrir árið 1916 í samræmi við svar hæstv. ráðh.