23.10.1975
Sameinað þing: 7. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Karvel Pálmason:

Herra forseti, góðir hlustendur. Rösklega eitt ár er nú liðið frá því að núv. ríkisstj. tók við völdum. Þó ekki sé um lengri tíma að ræða má vissulega af honum ráða hvernig til hefur tekist.

Ein af meginröksemdum aðstandenda ríkisstj. var að hér væri um að ræða sterka og heilsteypta stjórn sem ein væri til þess líkleg að ráða við þann vanda sem við blasti í efnahagsog fjármálum þjóðarinnar. Sem sagt: sterk, heilsteypt og úrræðagóð ríkisstjórn.

Og fyrir ári heyrðuð þið, góðir tilheyrendur, af vörum hæstv. forsrh. þau markmið sem ríkisstj. hafði þá sett sér til lausnar vandanum, og æ síðan hafið þið fundið á hvern hátt þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið, hafa lagst með ofurþunga á almenning í landinu og þá fyrst og fremst þá aðila í þjóðfélaginu sem höllustum fæti stóðu.

Eitt meginmarkmiðið í boðskap hæstv. forsrh. fyrir ári var að ríkisstj. mundi beita samræmdum aðgerðum til lausnar vanda efnahagslífsins og með þeim hætti koma verðbólgunni niður í 25% á árinu 1975. Þetta var fyrsta markmiðið, hvernig hefur það tekist?

Hefur ekki verðbólgan á árinu 1975 minnkað hröðum skrefum undir handarjaðri núverandi landsfeðra? Ó, nei, ekki aldeilis. Verðbólga hefur aldrei verið meiri á Íslandi en árið 1975, eða yfir 50%, þ. e. helmingi meiri en markmið hæstv. ríkisstj. gaf til kynna. Og nú hefur hæstv. viðskrh. lýst því yfir, á Esju-fundinum fræga, að frestað yrði enn upprunalegum markmiðum varðandi samdrátt verðbólgu um eitt ár. Og hæstv. forsrh. segir í sínum boðskap nú að hægja verði mikið á verðbólguhraðanum frá því sem verið hefur á þessu ári.

Annað markmið í boðskap hæstv. ríkisstj. fyrir ári var að ná föstum tökum á stjórn fjármála ríkisins og bæta fjárhagsstöðu ríkissjóðs. Og þennan árangur hljóta menn þó að hafa orðið varir við — eða hvað? Svarið er stutt en ákveðið: nei. Á fyrstu átta mánuðum ársins 1974 var nettóskuld ríkisins við Seðlabankann að meðaltali tæplega 4 milljarðar króna. Það var auðvitað allt of hátt að mati fjármálaspekinga núv. ríkisstj. og fordæmt mjög af þeim og það eðlilega. En hvernig var ástandið fyrstu átta mánuði ársins í ár? Jú, hæstv. fjmrh. hefur ekki gómað þetta betur en svo að þessi skuld var ekki að meðaltali tæpir 4 milljarðar, heldur rúmir 8, eða meira en helmingi hærri en hún var á árinu 1974. Er furða þó menn væni hæstv. ríkisstj. um stjórnkænsku í fjármálum þegar þetta getur gerst, og undir handarjaðri hæstv. núv. fjmrh. spyrja menn: Var nú þetta líka hægt, Matthías?

Þriðja og að öllum líkindum gullvægasta markmiðið í boðskap hæstv. ríkisstj. fyrir ári var að draga úr skuldasöfnun erlendis sem að dómi ráðherranna átta væri orðin óhóflega mikil.

Það er því eðlilegt að spurt sé hvort þetta þriðja gullvæga markmið ríkisstj. hafi ekki tekist? Hæstv. fjmrh. svarar því sjálfur í níframlögðu fjárlagafrv. fyrir árið 1976, en þar segir m. a., með leyfi forseta, að vaxtagreiðslur á árinu 1976 muni hækka um hvorki meira né minna en 64,1%, fyrst og fremst — og taki menn nú eftir: fyrst og fremst vegna stórhækkaðra lántaka á yfirstandandi ári. Og enn er því spurt: Var nú einnig þetta hægt, Matthías? Og svar hæstv. fjmrh. er: Já, allt er hægt með góðum vilja.

Fjárlagafrv. það, sem nú liggur fyrir Alþingi fyrir árið 1976, er fyrir margar sakir athyglisvert og þó að hér gefist ekki tími til að ræða það ítarlega skal vikið að því örfáum orðum.

Fjárlagafrv. segir miklu meira um fyrirhugaða stefnu ríkisstj. en sú stefnuræða, sem hæstv. forsrh. flutti hér áðan.

Þetta fjárlagafrv., sem er annað í röðinni í stjórnartíð núv. ríkisstj., er greinilegt samdráttar- og niðurskurðarfrv., mjög óraunhæft og hlýtur því að taka miklum breytingum í meðför þingsins. Frv. gerir ráð fyrir 21.5% hækkun á rekstrarreikningi ríkissjóðs frá fjárlögum yfirstandandi árs þrátt fyrir þá staðreynd að verðlagshækkanir á árinu 1975 hafa verið um eða yfir 50%. Þessi samdráttur kemur fyrst og fremst niður á framkvæmdaframlögum.

Í frv. er gert ráð fyrir að framkvæmdaframlög til framkvæmda, sem ríkið stendur eitt að, hækki um 11% á sama tíma og framkvæmdakostnaður hefur hækkað um 50%. Hér er því um að ræða nær 40% niðurskurð á framkvæmdamagni.

Til framkvæmda, sem kostaðar eru af fleiri aðilum ásamt ríkinu, er hækkunin tæplega 16% eða niðurskurður um 34% í raungildi.

Fjárfestingarstyrkir til sveitarfélaga eiga samkv. frv. að hækka um 9.6%, þ. e. skerðing um 40% miðað við raungildi. Fjárfestingarstyrkir til einstaklinga og félagasamtaka eiga að lækka — og taki menn nú eftir: lækka samkv. frv. um 4.8% eða skerðast í raungildi um 55%.

Ljóst virðist, að fjárveitingar til iðnskóla eiga samkv. frv. að skerðast um 33% miðað við raungildi, fjárveitingar til grunnskóla um 29%, fjárveitingar til sjúkrahúsa og elliheimila um 8%, fjárveitingar til íþróttamannvirkja um 12% og fjárveitingar til hafnarframkvæmda um 17%. Þetta er sú þróttmikla og stórbrotna byggðastefna sem stjórnarsáttmáli hæstv. ríkisstj. lofaði.

Og á hverjum haldið þið, góðir tilheyrendur, að þessi niðurskurður bitni fyrst og fremst? Halda menn að hann bitni fyrst og fremst hér á suðvesturhorni landsins þar sem þenslan hefur verið og er mest? Ó, nei. Honum er fyrst og fremst ætlað að bitna á landsbyggðinni, dreifbýlisfólkinu, sem hvað höllustum fæti stendur í varnarbaráttunni gegn Stór-Reykjavíkursvæðinu. Hér er því boðuð í reynd sú andbyggðastefna sem núv. ríkisstj. virðist hafa tileinkað sér. Öllum ætti að vera ljóst, einnig hæstv. ríkisstj. og stuðningsliði hennar, að öll samdráttar- og niðurskurðarstefna hefur alla tíð bitnað harðast á þeim sem síst skyldi, þ. e. á landsbyggðinni. Og ætli það detti nokkrum í hug í raun og veru að á því verði breyting undir handleiðslu núv. ríkisstj? Ég held ekki.

Þetta fjárlagafrv. og sú stefna, sem það boðar, hlýtur því að vekja ugg og kvíða í brjóstum þess fólks sem byggir hinar dreifðu byggðir — þess fólks til sjávar og sveita sem háð hefur hvað harðasta lífsbaráttu við hin örðugustu lífsskilyrði til að skapa þann auð sem allt byggist á að dreginn sé í þjóðarbúið. Og það ættu núv. stjórnvöld að gera sér ljóst, að verði áfram haldið þeirri stefnu í byggðamálum sem ráðið hefur í tíð núv. ríkisstj., þá er vissulega vá fyrir dyrum.

En það er fleira athyglisvert í fjárlagafrv. en þetta. Frv. boðar greinilega stóraukna skattbyrði, því að aðeins er gert ráð fyrir 25 stiga hækkun skattvísitölu á sama tíma og verðbólga er um eða yfir 50%. Launafólki er því ætlað að bera helming verðbólgunnar í aukinni skattbyrði.

Þá gerir frv. ráð fyrir hækkun á söluskatti greiddum ríkissjóði um 2% og hefur ríkisstj. hækkað söluskatt til ríkissjóðs á einu ári um 5 stig, sem þýðir a. m. k. 6 milljarða króna í aukinni skattheimtu til ríkissjóðs í gegnum söluskatt á einu ári.

Síðast skal vikið að því atriði frv. sem hlýtur að vekja óskipta athygli manna, en það er lækkun framlaga til almannatrygginga um 2 000 millj. eða 12%. Og það sem furðu hlýtur að vekja, er að ekki er orði að því vikið á hvern hátt breyta eigi löggjöfinni varðandi bótagreiðslur. Á t. d. að lækka elli- eða örorkulífeyri? Á að fella niður tekjutryggingu? Á að láta sjúklinga sjálfa borga sjúkrahúsvist? Hver er eiginlega meiningin með þessu í frv?

Hér að framan hefur verið vikið nokkuð að fjárlagafrv. því sem nú liggur fyrir þinginu, því að það segir ykkur, góðir tilheyrendur, í raun miklu meira um stefnu hæstv. ríkisstj. heldur en stefnuræðu hæstv. forsrh. Hér hefur því verið lýst í hnotskurn stefnuræðu hæstv. forsrh. sem hann flutti hér áðan, og hæstv. dómsmrh. sagði ekki nein ný stefnumið í ræðu hæstv. forsrh.

Eins og áður hefur verið að vikið var eitt af þeim fyrirheitum sem finna mátti í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. að stórefld skyldi byggðastefna, sem svo er kölluð. Ég hef lagt þann skilning í byggðastefnutalið að með því væri átt við að stuðlað skyldi að því fyrst og fremst að byggja upp þá staði eða landshluta sem verst hafa orðið úti vegna þeirrar öfugþróunar sem átt hefur sér stað með hinum öru fólksflutningum frá dreifbýlinu til þéttbýlisstaðanna á suðvesturhorni landsins. Það virðist greinilegt að núv. hæstv. ríkisstj. og stuðningslið hennar hér á Alþingi er allt annarrar skoðunar, svo sem sást glöggt við endanlega afgreiðslu fyrstu fjárlaga núv. ríkisstj. fyrir árið 1975 og afgreiðslu vegáætlunar á s. l. vori svo og á framkvæmdum, sem ákvarðaðar hafa verið á öðrum sviðum. Bæði við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1975 og vegáætlunar var beitt harkalegum niðurskurðaraðgerðum, ekki hvað síst gagnvart þeim landshlutum sem hvað mest eiga í vök að verjast.

Fjárveitingar til mikilvægra málaflokka voru það lágar að í sumum tilvikum var um 50% niðurskurð að ræða miðað við raungildi fjárlaga ársins 1974. Og þessar hungurlúsafjárveitingar til framkvæmda á landsbyggðinni voru rökstuddar af stjórnarliðum með því að það yrði að sporna við frekari þenslu í þjóðfélaginu. En á sama tíma og stjórnarliðar beittu þessari röksemdafærslu til réttlætingar aðförinni að dreifbýlinu samþykktu þeir framkvæmdir upp á hátt á annan tug milljarða króna hér á suðvesturhorni landsins. Nægir þar að nefna Grundartanga-milljarðana, Borgarfjarðarveisluna sem sumir nefna svo og sumir stjórnarliðar hafa lýst yfir opinberlega að þeir hafi ekki kjark til að nefna, og að lokum Miðnesheiðarkompaníið á Keflavíkurflugvelli. Það hlýtur að vera íhugunarefni fyrir ykkur, góðir hlustendur, sem byggið hinar dreifðu byggðir og eigið undir högg að sækja til fjárveitingavaldsins með hversu lítið sem er, hvernig átt getur sér stað að svo frekleg mismunum þegnanna eftir því hvar þeir búa á landinu fær svo sterkan hljómgrunn hér á hv. Alþingi sem raun ber vitni.

En þessi mismunun hefur sýnt sig oft í fleiru. Á s. l. vori samþ. ríkisstj. og hennar stuðningslið hér á Alþingi heimild til niðurskurðar á fjárlögum ársins 1975 um allt að 3 500 millj. Niðurskurð í anda þessarar heimildar samþ. svo meiri hl. fjvn. á s. l. sumri, að vísu ekki 3 500 millj., heldur 2 000 millj. kr. Þessi niðurskurður fjárveitinga á fjárlögum ársins 1975 endurspeglar aðförina að dreifbýlinu. Þar má sjá m. a. niðurskurð fjárveitinga til fiskihafna víðs vegar á landinu um 60 millj. kr. á sama tíma og tekin er upp sérstök fyrirgreiðsla til byggingar ferjubryggju í Reykjavíkurhöfn að upphæð 15 millj. kr. í ár, og hefur slíkt aldrei gerst fyrr. Þar má einnig sjá niðurskurð fjárveitinga til heilbrigðismála þar sem fjárveitingar til landshluta eins og Vestfjarða, sem verst er settur hvað heilsugæslu snertir, eru skornir niður um nær 25% og á Norðurlandi vestra um 37%, á sama tíma og fjárveitingar til Reykjavíkur eru skornar niður um aðeins 15%.

Það, sem hér hefur verið sagt um byggðamál, ætti að nægja til að sýna fram á hver stefna núv. ríkisstj. og stuðningsliðs hennar er gagnvart dreifbýlinu.

Þá voru og undir handarjaðri núv. ríkisstj. gerðar breytingar á skattalögum sem reynst hafa magna svo misréttið í skattbyrði þegnanna, sem var þó ærið fyrir, að nærri stappar uppreisn skattgreiðenda í landinu, og vart verður lengur undan því vikist að gera þær breytingar á skattalögum, sem jafna skattbyrði þegnanna.

Um þessar mundir býr verkalýðshreyfingin í landinu sig undir aðgerðir til varnar sínum umbjóðendum. Í þessu sambandi vil ég minna á að í stjórnmálaályktun nýafstaðins flokksstjórnarfundar Samtaka frjálslyndra og vinstri manna segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Flokksstjórnarfundur SFV ályktar að taka beri upp nýja og breytta stefnu í efnahagsog kjaramálum og fjármálum ríkisins til að auka kaupmátt launa og treysta fjárhag ríkisins.

Í stað krónutölukapphlaups launa, sem aðeins gerir þá ríku ríkari, verði nú að ráðast á verðbólguna af alefli og gera þá kröfu til hátekjuhópanna í þjóðfélaginu að þeir sýni sanngirni í að minnka það misrétti sem enn á sér stað í þjóðfélagi okkar.

Samhliða þessu bendir fundurinn á, að í framkvæmd ættu verðlagsbætur á laun að miðast við krónutölureglu, og ætti það að vera eitt af meginverkefnum í næstu samningsgerð að tryggja verðlagsbætur samkvæmt þeirri reglu.

Flokksstjórnarfundurinn bendir enn fremur á að ef áfram verði haldið á sömu braut og verið hefur í kjaramálunum verði ótryggðir lífeyrissjóðir að engu í verðbólgunni. Því verði að tryggja það með raunhæfum hætti að þeir geti þjónað því hlutverki sem þeim var ætlað í fyrstu.

Frá því að ríkisstj. tók við völdum hefur átt sér stað stórfelld fjármagnstilfærsla í þjóðfélaginu frá launþegum til atvinnurekenda. Þessi tilfærsla hefur framar öðru og ásamt verðbólgunni stuðlað að því mikla misrétti sem ríkir.“

Undir þetta skal tekið nú í byrjun undirbúnings kjarabaráttu þeirrar sem fram undan er. En nú hefur einnig það gerst að stór hluti fiskveiðiflota landsmanna hefur siglt í höfn í mótmælaskyni við þá kjaraskerðingu sem þeir telja að átt hafi sér stað hjá sjómönnum. Hér er um svo alvarlegt mál að ræða að þess verður að krefjast af hæstv. ríkisstj. að hún finni skjóta lausn þessa vandamáls.

Að lokum, herra forseti, skal vikið að því máli, sem ætti eðlilega að bera hæst meðal okkar íslendinga í dag, en það er landhelgismálið. Fyrir einni viku tók gildi 200 sjómílna fiskveiðilögsaga við Ísland. Það er atburður sem ætti að vera öllum íslendingum fagnaðarefni ef allt væri með felldu. Viss drungi eða öllu heldur kvíði hefur hvílt yfir þessum mikilsverða áfanga í landhelgismálinu.

Enginn vafi er á því að málstaður okkar íslendinga í landhelgismálinu er miklu sterkari nú en nokkurn tíma áður. Þessi uggur og kvíði ætti því ekki að vera vegna stöðu okkar málstaðar á alþjóðavettvangi, enda er ekki svo.

Sá kvíði, sem nú hrjáir íslensku þjóðina í landhelgismálinu, er vegna óttans um að íslensk stjórnvöld láti undan þeim utanaðkomandi þrýstingi sem er um samninga erlendum aðilum til handa um veiðar jafnvel innan 50 mílnanna. Öll framkoma íslensku ríkisstj. varðandi framkvæmd útfærslunnar hefur verið með þeim hætti að þjóðin öll hefur haft það á tilfinningunni að það væri í raun og veru stefna ríkisstj. að semja um veiðiheimildir jafnvel innan 50 mílna markanna. Og það er þessi stefna ríkisstj. sem veldur nú kvíða og ugg meðal íslendinga.

Enginn vafi er á því að öll íslenska þjóðin stendur einhuga um þá stefnu að ekki komi til greina samningar um veiðiheimildir, a. m. k. ekki innan 50 mílnanna. Og því fyrr sem ríkisstj. gerir þessa stefnu þjóðarinnar að sinni, því betra. Hafi hæstv. ríkisstj. verið með hugmyndir um samninga innan hinnar nýju fiskveiðilögsögu, þá ættu slíkar hugmyndir að hafa fallið um sjálfar sig eftir að birt var síðasta skýrsla fiskifræðinga við Hafrannsóknastofnunina, en þar kemur fram að verði ekki strax á næsta ári takmarkaður þorskaflinn við 230 þús. tonn eða álíka magn og íslendingar einir hafa aflað, þá sé yfirvofandi hrun þorskstofnsins á Íslandsmiðum.

Þessi skýrsla er svo alvarlegs eðlis að stjórnvöld komast ekki hjá því að taka fullt tillit til þeirra sterku aðvarana sem þar koma fram.

Við umræður hér á hv. Alþingi s. l. mánudag um landhelgismálið óskaði ég eftir því að sá þingmaður, sem drægi í efa þá fullyrðingu að þjóðin stæði einhuga að baki þeirri afstöðu að ekki komi til greina samningar um veiðiheimildir erlendum aðilum til handa innan 50 mílna fiskveiðilögsögunnar, — að sá þingmaður, ef til væri, léti í sér heyra við þær umræður. Engin slík rödd kom hér fram og mun engan undra það.

Einnig var við umræðurnar s. l. mánudag skorað á hæstv. forsrh. sem aðaltalsmann Sjálfstfl. að gefa um það yfirlýsingu, treysti hann sér til, að eins og málum væri nú komið kæmu ekki til greina neinir undanþágusamningar um veiðiheimildir innan 50 mílnanna. Sams konar áskorun var beint til hæstv. dómsmrh. sem formanns Framsfl. Því miður tóku báðir þessir hæstv. ráðherrar þann kostinn að svara ekki og þögðu því þunnu hljóði. Og enn er þagað. Þjóðin er engu nær í þessu máli eftir að hafa hlýtt hér í kvöld á ræður hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh. Hæstv. forsrh. lofaði við umr. hér s. l. mánudag að landhelgisnefnd skyldi kölluð saman til að fjalla um málið. Það hefur ekki verið gert, hvað sem því veldur.

Íslenska þjóðin er því enn í vafa um hver stefna hæstv. ríkisstj. er í málinu. En það hlýtur að vera skýlaus krafa þings og þjóðar að fá um það fulla vitneskju hvað hæstv. ríkisstj. hyggst fyrir í þessu lífshagsmunamáli þjóðarinnar. Það er óþolandi að þing og þjóð fái ekki vitneskju um hvað er að gerast í málinu.

Í dag hafa staðið yfir viðræður í London milli íslendinga og breta um landhelgismálið. Engin vitneskja liggur fyrir um það, hvernig á málinu hafi verið haldið í þeim viðræðum af hálfu fulltrúa ríkisstj. Þjóðinni er haldið í óvissu. Ég vil vona í lengstu lög að þótt hæstv. ríkisstj. hafi ekki enn sem komið er fengist til opinberlega að gefa yfirlýsingu um hvert hún stefnir í landhelgismálinu, þá hafi hún með sjálfri sér eftir síðustu vitneskju um ástand fiskstofna við landið uppálagt fulltrúum Íslands í London að standa fast á þeirri sameiginlegu kröfu íslendinga allra um hreinar 50 mílur.

Herra forseti. Landhelgismálið á að vera sameiningartákn allra íslendinga. Í dag stöndum við líklega á viðkvæmustu tímamótum varðandi landhelgismálið. Ég vil því að lokum ítreka þá áskorun mína til hæstv. ríkisstj. að hún geri nú, þótt seint sé hreint fyrir sínum dyrum og gefi út yfirlýsingu um að ekki komi til greina neinir samningar við breta né vestur-þjóðverja um veiðiheimildir, a. m. k. ekki innan 50 mílnanna. Slík yfirlýsing væri vissulega í anda íslensku þjóðarinnar allrar og mundi létta þeim ugg og kvíða af þjóðinni, sem þrúgað hefur hana um skeið.

En fari svo enn að hæstv. ríkisstj. kjósi þögnina, þá verður það ekki skilið á annan veg en þann að hæstv. ríkisstj. sé enn að veita fyrir sér hugmyndum um undanslátt.

Þjóðin bíður í ofvæni eftir vitneskju um stefnu hæstv. ríkisstj. í landhelgismálinu. Því fyrr, sem hæstv. ríkisstj. sameinast almenningsálitinu, því betra.

Herra forseti. Að lokum þetta. Íslenskar konur, til hamingju með morgundaginn.

Ég þakka þeim sem hlýddu. — Góða nótt.