03.02.1976
Sameinað þing: 43. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1672 í B-deild Alþingistíðinda. (1387)

309. mál, atvinnumál aldraðra

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Út af fyrirspurn hv. 5. landsk. þm. vil ég taka þetta fram:

14. maí 1975 gerði Alþ. ályktun sem fól í sér áskorun á ríkisstj. um að undirbúa í samráði við aðila vinnumarkaðarins frv. til l. um atvinnumál aldraðra og skyldi að því stefnt að allir 67 ára og eldri, sem til þess hafa þrek og vilja, geti átt kost á vinnu við sitt hæfi.

Samkv. samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur hafði félagsmálaráð borgarinnar þá falið Jóni Björnssyni sálfræðingi að kanna atvinnuþörf og atvinnumöguleika aldraðra. Þessi könnun hófst á miðju ári 1974. Ráðuneytið taldi að athuguðu máli rétt að bíða með aðgerðir í þessu máli þar til þessari könnun væri lokið og niðurstöður lægju fyrir. Nú er þessari könnun lokið og munu niðurstöður og till. byggðar á henni verða tilbúnar um næstu mánaðamót. Þessi könnun hefur leitt í ljós að auk vanda þeirra, sem þegar eru hættir störfum vegna aldurs, er einnig mikilvægt að koma í veg fyrir of mikið vinnuálag á fólk innan 67 ára aldurs er stundar vinnu sem ofbýður breyttri vinnugetu þess á einn eða annan veg. Það virðist því einnig vera mikil þörf á fyrirbyggjandi aðgerðum í atvinnumálum aldraðra.

Á grundvelli þessarar könnunar verða settar fram till. á sviði almennrar vinnumiðlunar, endurhæfingar og starfsmenntunar og varðandi skipulagningu heimavinnu og samræmingu aðgerða á þessum sviðum öllum.

Félmrn. hefur gert ráðstafanir til þess að fá sem gleggstar upplýsingar um það, hvernig þessi vandamál aldraðra eru leyst á Norðurlöndum. Að fengnum þeim upplýsingum og skýrslu og till. Jóns Björnssonar sálfræðings mun hafist handa um samningu lagafrv. um atvinnumál aldraðra í samráði við aðila vinnumarkaðarins.