10.02.1976
Sameinað þing: 49. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1816 í B-deild Alþingistíðinda. (1499)

77. mál, jöfnun símgjalda

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Það er kannske ekki ástæða til að lengja þessar umræður mikið, en það voru einmitt síðustu orð hv. 12. þm. Reykv sem ýtti við mér, þau að hann væri tilbúinn að hlusta á það að gera breytingu á þessu ef það væri dýrara fyrir reykvíkinga að hringja norður á Akureyri heldur en akureyringa að hringja hingað suður. Það er alls ekki um þetta sem spurningin er. Aðalspurningin er einfaldlega sú, að við höfum stofnað höfuðborg í þessu landi og hún er hér í Reykjavík. Þangað þurfum við að sækja fjölmarga þjónustu og aðstaða fólksins sem býr í landinu, okkar allra sem erum íslendingur, til þess að njóta þessarar þjónustu á að vera sem allra jöfnust.

Ég álít það ákaflega óheppilegt að vera mjög viðkvæmur fyrir þeim ábendingum um lífskjarajöfnun sem jafnan koma utan af landsbyggðinni. Það er ákaflega varhugavert fyrir Reykjavík að andmæla þeim óskum. Við þurfum örugglega að minnast þess hér í þessu landi, að við erum ein þjóð í einu landi sem þarf sjálfrar sín vegna að koma sér saman um sem sambærilegust kjör án tillits til búsetu. Það mun síður í reynd vera hagsmunamál höfuðborgarinnar að slíkt jafnræði fáist og að sem best samstaða og samvinna takist milli höfuðborgarbúa annars vegar og íbúa landsbyggðarinnar hins vegar.

Til viðbótar vil ég aðeins nefna þetta: Hvaða önnur leið er til, ef á að jafna kjör, heldur en sú að taka af þeim, sem betur býr, og rétta hinum, sem lakari aðstöðu hefur? Er einhver önnur leið til? Eru einhverjar aðrar leiðir til jöfnunar heldur en þessar innan okkar þjóðfélags? Ekki sækjum við peninga til útlanda til þess að jafna þetta eða á aðrar vígstöðvar. Ég vil auglýsa eftir fleiri leiðum. Það getur vel verið að það sé mikill hugmyndaskortur að finna þær ekki. En ég sé í fljótu bragði ekki aðrar leiðir en þessa. Ef við ætlum að jafna, þá verðum við að flytja á milli.