17.02.1976
Sameinað þing: 52. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1959 í B-deild Alþingistíðinda. (1634)

114. mál, sjónvarp á sveitabæi

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég er mjög ánægður með það, hvað þetta mál, sem ég og meðflm. mínir hafa borið fram, hefur hlotið ítarlegar umr. hér. Ég er ánægður með ræðumenn yfirleitt. Þó að ég segði að ég væri ekki of ánægður með hv. 2. þm. Vestf., þá er það nú kannske vegna þess að ég geri mestar kröfur til hans. En orðaskipti, sem við höfðum, voru málefnaleg, en það verður hins vegar ekki sagt um hv. 12. þm. Reykv. og þess vegna stend ég upp. Hann kemur hér inn í umræðurnar á síðustu stundu og það er allt firrur sem kemur frá þessum hv. þm. Aðalatriðið í því, sem hann sagði, var í fyrsta lagi að till. væri óþörf, í öðru lagi að hún væri óábyrg vegna þess að það væri ekki séð fyrir sérstöku fjármagni í þessar þarfir. Hvort tveggja er rangt. Till. er ekki óþörf. Það sýnir það ástand, að það hefur ekkert verið gert í þessum málum á undanförnum árum. Þess vegna er hún þörf og brýn. Það er ekki heldur rétt að það sé verið að leggja á sérstök gjöld í þessu sambandi. Það er lagt til í till. að tekið sé af fjármagni því sem Byggðasjóður hefur til umráða, og hv. 12. þm. Reykv. hefur sjálfur samþ. með fleirum hér í þinginu að það sé varið 2% af fjárlagaupphæð til Byggðasjóðs. Hér er því aðeins verið að ræða um hvernig eigi að ráðstafa þessu fé sem hann og aðrir hafa ákveðið að færi til byggðamála.

Ég ætla svo ekki hér að ræða um það, hvort sá dómur hv. 12. þm. Reykv. að ég sýndi sýndarmennsku í þessu máli sé réttur. Ég læt hann um að dæma sem honum sýnist. Ég ætla ekki að dæma í þessu máli. Ég læt þingheim dæma um það sjálfan.