17.02.1976
Sameinað þing: 52. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1962 í B-deild Alþingistíðinda. (1638)

114. mál, sjónvarp á sveitabæi

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Það er enn út af ræðu hv. 12. þm. Reykv. sem ég kveð mér hér aftur hljóðs. Mér heyrðist nú að það gætti greinilegs misskilnings hjá honum varðandi þessar umr. Við erum hér að tala um till. til þál., en hann blandaði greinilega inn í frv. til l. sem hefur verið til umr. í Ed. og það höfum við raunar gert fleiri í þessum umr., enda málin náskyld og sams konar.

Það var rétt sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, hv. 3, þm. Norðurl. e., að það eru auðvitað ekki bara reykvíkingar sem eiga að bera þann kostnað sem felst í lagafrv. um 10% álagningu á afnotagjald útvarps og sjónvarps. Það er auðvitað ekkert síður fólkið úti um land og þá þeir sem búnir eru að borga sína tolla og álagningu á þessi tæki, en sitja svo með þau ónýt heima í stofunni sinni af því að það eru ekki veitt skilyrði til þess að þau taka við því, sem ætlast er til, vegna hins ófullkomna dreifikerfis sem raunar er sums staðar alls ekki fyrir hendi.

Það var líkt hv. 12. þm. Reykv. er hann sagði sem svo af höfðingsskap og örlæti, sem ég veit að hann á til í ríkum mæli, að það væri sjálfsagt og hann væri því manna hlynntastur að koma öllum þægindum, sem reykvíkingar hafa, inn á hvern einasta sveitabæ. Þetta var vel og drengilega mælt. En í næstu setningu snerist hann öndverður gegn málinu og sagði: Við höfum bara, enga peninga til þess, og þið verðið að bíða, góðir menn þarna úti á dandi, þangað til við höfum einhverja peninga í buddunni, Við höfum nú fjárlög upp á 60 milljarða sem við erum að enda við að afgreiða frá Alþ., og það er stór upphæð. Það er hér sem fyrr spurningin um hvernig þetta á að koma til skiptanna. Raunar er ekki farið fram á það hér að taka neitt af fjárveitingum fjárl., heldur einungis að leggja þetta aukagjald á hvern útvarps- og sjónvarpsnotanda á öllu Ísíandi, vel að merkja ekki bara hér í Reykjavík eða á Reykjavíkursvæðinu. Afnotagjald sjónvarps er í dag 8400 kr., afnotagjald hljóðvarps er 3800 kr. 10% af þessu samanlögðu gerir sem sagt 1220 kr. Það eru nú öll ósköpin.

Mér kemur í hug í þessu sambandi að það var í dagblöðunum nú á dögunum talað um að ein steik á veitingahúsi í Reykjavík kostaði 3000 kr., — ein steik, eins og tekið var til orða, 3400 kr. Mér virðist að það sé spurningin um hvort við, sem höfum aðstöðu til að fá svona fína steik, viljum í eitt skipti panta okkur hálfan skammt, spara hálfan skammt eða kannske afneita fínu steikinni í eitt skipti. Þá erum við komin með tvöfalt gjald á við það sem lagt er til í umræddu lagafrv. að renni til þeirrar framkvæmdar sem hér er um að ræða.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta öllu meir. En ég man ekki betur, af því að ég er nú enn að víkja að máli hv. 12. þm. Reykv., — ég man ekki betur en hann stæði nálægt þeim hópi sem á s.l. ári lét eins og væri verið að rífa hjartað í brjóstinu á þeim þegar átti að loka fyrir Keflavíkursjónvarpið sem þeir höfðu til viðbótar við okkar litla, vesæla íslenska sjónvarp. Ég held að þeir menn, sem leggja þetta mikið upp úr sjónvarpi á annað borð, ættu að geta sett sig inn í það, að það eru fleiri íslendingar en við hér í nágrenni Miðnesheiðar sem telja það nokkurs virði að hafa þetta menningartæki í seilingarfjarlægð. Þess vegna kemur þetta því hlálegar út, þetta skilningsleysi á högum þeirra sem búa við gróflega ólíkar aðstæður að því er félagslegar og menningarlegar aðstæður snertir.

Ég endurtek það enn, að ég er sammála um að við eigum ómögulega að vera að deila hart hvert á annað, eftir því hvar við erum búsett á landinu. Og það er óvinafagnaður, það get ég tekið undir, að stofna til úlfúðar og togstreitu milli þéttbýlis og strjálbýlis. En eins og ég hef áður sagt hér í ræðustól á Alþ., það er ákaflega greinilegt að fólk, sem ekki þekkir annað en Reykjavík og þéttbýlið hér með kostum þess og göllum, virðist engan veginn geta sett sig inn í málefni þess fólks sem við dreifbýlisþm. erum að reyna að bera fyrir brjóstinu. því get ég enn sagt: Þessu góða fólki væri hollt að flytja sig um set í nokkur ár og sannreyna hvað það er sem landsbyggðarfólk fer á mis við og hvað það er sem það hefur líka fram yfir Reykjavík og svæðið hér í kring.