24.02.1976
Neðri deild: 63. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2128 í B-deild Alþingistíðinda. (1736)

140. mál, Líferyissjóður Íslands

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mikið þessar umr. Ég vil þó aðeins segja nokkur orð nú við þessa 1. umr. málsins, en áður en ég kem að því vil ég aðeins fara nokkrum orðum um annað sem kannske má segja að ekki komi þessu máli beint við, en þó getur talist heyra óbeint til þess.

Ég er einn af þeim sem hafa gagnrýnt nokkuð mikið vinnubrögð hér á hv. Alþ. og hef talið að þau væru á ýmsan hátt mjög óeðlileg, seinagangur á málum og slíkt. Nú hefur það gerst fyrst í dag, eftir því sem ég best veit, að einn af hæstv. ráðh. kvaddi sér hljóðs utan dagskrár í frv. Ed. og kvartaði þar mjög undan starfsleysi nefnda — eða nefndar kannske réttara sagt sem hafði mál til umfjöllunar sem þurft hefði að vera búið að ljúka afgreiðslu á á frv. Alþ. í þessari viku, fyrir mánaðarlok. Þetta var hæstv. viðskrh. sem virtist vera orðinn svo óþreyjufullur vegna þessa starfsleysis nefnda í þinginu að hann kvaddi sér hljóðs utan dagskrár til þess að gera það að umræðuefni.

Og ekki nóg með það. Í dag, þegar verið er að ræða hér svo stórt og mikið mál eins og það sem hér er nú til umr., sem ég hygg að allir geti verið sammála um að er stórmál, þá stuðlar einn hæstv. ráðh. að því að draga nær helming þingsins í biltúr austur fyrir fjall og gera þar með báðar deildir þingsins næstum því óstarthæfar. Það mun vera hæstv. samgrh. Mér sýnist hæstv. ráðh., a.m.k. sumir hverjir, í núv. ríkisstj., starfsbræður hv. flm. frv., ekki sýna tilhlýðilega virðingu því frv. sem hér er til umr. Og mér er næst að spyrja hæstv. forseta d. hvort haft hafi verið samráð við hann um þetta. Ég a.m.k. fordæmi mjög slík vinnubrögð, að það skuli vera svo nú annan daginn í röð að þingið er í raun og veru óstarfhæft, þingfundir felldir niður í gær og síðan stuðla hæstv. ráðh. sumir hverjir að því að báðar d. þingsins eru óstarfhæfar í dag. Þetta eru furðuleg vinnubrögð, a.m.k. að mínu áliti, og ég hygg að meira að segja sumum hverjum hv. stjórnarþm. og hæstv. ráðh. jafnvel mörgum hverjum þyki þetta furðuleg vinnubrögð.

Ég taldi ástæðu til að hreyfa þessu hér nú vegna þess að ég tel að það mál, sem hér er til umr., sé a.m.k. þess vert að því sé meiri gaumur gefinn af hæstv. ríkisstj. en mér virðist gert vera með því sem ég hef nú þegar lýst. (Forseti: Út af því, sem hv. 5. þm. Vestf. beindi til mín um hvort samráð hefði verið haft um ferðalög sem ráðh. hefði beitt sér fyrir, þá get ég aðeins sagt að mér hefur ekki verið tilkynnt á neinn hátt um þau, hvað sem vera kann um aðra forseta. En hvað varðar þau ummæli hans að þingið sé gert óstarfhæft, þá þykir mér ótímabært að fullyrða það áður en á það hefur reynt hvort þessi d. getur afgreitt a.m.k. það frv. sem nú er verið að fjalla um ef umr. lýkur.) Já, út af þessum ummælum hæstv. forseta hvarflaði að vísu að mér að ekki hefði verið haft samráð við hann um þetta ferðalag, og ég efast mjög um að það hafi verið haft samráð við aðalforseta, fyrsta forseta hv. d. En út af hinum orðum hæstv. forseta, að d. sé gerð óstarfhæf, þá lít ég svo á að með því að draga stóran hluta þdm. út úr þinginu á meðan umr. um slíkt stórmál eins og hér er til umr. að mínu viti eiga sér stað sé í raun og veru — við skulum orða það svolítið vægar — verið að komna í veg fyrir að margir hverjir þm. þessarar hv. d. geti tekið til máls um málið sem gjarnan vildu það.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta. Ég taldi nauðsynlegt að hreyfa þessu hér því að ég tel þetta ótæk vinnubrögð. En það má kannske segja að hér sé verið að vekja máls á atviki sem ætti frekar að gera þegar — ja, kannske sökudólgarnir eru nær en þeir nú eru, hér sé verið að skamma vitlausa menn, ef svo má orða það. Það væri nær að skamma hina sem eiga sök á þessu.

En ég vil strax segja um það frv., sem hér er til umr., og það innlegg, sem hv. flm. þess hefur hér innt af hendi, að það er lofsvert að einstakur þm. skuli taka sér fyrir hendur að leggja fram frv. í því formi, sem hér er gert, um svo veigamiltið, fjölþætt og stórt mál sem lífeyrissjóðsmálið og málið í heild er. Í þeim umr., sem hér hafa átt sér stað, og þeim ræðum, sem haldnar hafa verið, hefur verið komið að flestum hverjum meginþáttum þess máls, sem hér er um fjallað, og lífeyrissjóðsmálanna í heild. En ég vil aðeins segja það, að í mínum huga er enginn vafi á því hver tilgangurinn var með stofnun hinna fjölmörgu almennu lífeyrissjóða á sínum tíma. Tilgangurinn var vissulega sá fyrst og fremst að koma málum þann veg fyrir að lífeyrisþegar fengju sem mesta tryggingu fyrir bótum eftir að þeir væru komnir á það aldursmark að þeir ættu til þess rétt. Því miður hefur reynslan sýnt það og allir, að ég held, orðnir um það sammála að bótagreiðslur úr hinum almennu lífeyrissjóðum, sem stofnaðir voru, hafa veríð með þeim hætti að þær eru allt of lágar til þess að koma að verulegum notum, miðað við það sem tilgangurinn með stofnun lífeyrissjóðanna var. þetta byggist fyrst og fremst á því að bótagreiðslur, lífeyrisgreiðslur úr þessum lífeyrissjóðum, hafa ekki verið verðtryggðar. Og það gefur auga leið að í ástandi, eins og ríkt hefur hér á landi á því tímabili frá því að lífeyrissjóðir voru stofnaðir, þessir almennu, og til dagsins í dag, eru bótagreiðslur sáralitlar í hlutfalli við það sem þær þyrftu að vera. Reynslan hefur sem sagt sýnt þetta og allir eru, held ég, orðnir um það sammála að vart verður lengur við annað unað heldur en breyting eigi sér stað á þessu. Nú er og vitað að þetta hefur vakið miklu meiri deilur vegna þess að fyrir eru í landinu lífeyrissjóðir sem eru verðtryggðir, lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna, og að ég held líka lífeyrissjóður þm. Þetta skapar auðvitað mikið ósamræmi í lífeyrisgreiðslum til félaga innan lífeyrissjóðanna almennt talað. En um þetta mál hefur verið mikið fjallað í verkalýðshreyfingunni á þessum tíma og ótal samþykktir gerðar varðandi það að verðtrygging verði tekin upp á lífeyrisgreiðslum úr hinum almennu lífeyrissjóðum. Og eins og hér hefur verið áður frá greint hefur nú náðst samkomulag, sem að vísu er ekki formlega í gildi gengið, milli annars vegar launþegasamtakanna og hins vegar vinnuveitenda um að bæta stórlega hlut hinna verst settu aðila innan lífeyrissjóðanna. Í þessu samkomulagi er gert ráð fyrir að hlutur þeirra vaxi í lífeyristryggingunum. En auðvitað er hér, eins og fram hefur komið, aðeins um áfangaskref að ræða í þessum efnum og jafnframt gert ráð fyrir því að innan tveggja ára eða svo verði kerfið orðið breytt á þann veg að komið verði á fót lífeyrissjóði sem allir hafi jafnan rétt til.

Ég vil segja það fyrir mitt leyti að ég lýsi stuðningi mínum við þá meginstefnu sem felst í þessu frv., þótt að sjálfsögðu kunni að vera í því og séu ýmis ákvæði sem orki tvímælis, en meginstefnuna tel ég fyrir mitt leyti vera rétta.

Eins og hv. þm. Eðvarð Sigurðsson kom inn á áðan, hefur hlutverk hinna almennu lífeyrissjóða verið tvíþætt, þ.e.a.s. annars vegar lífeyrisgreiðslurnar og hins vegar lánastarfsemin. Verði horfið að því ráði, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, hinu margumtalaða gegnumstreymiskerfi, og með því bættur hlutur lífeyrisþeganna sjálfra, þá stendur eigi að síður eftir hinn þátturinn sem þessir lífeyrissjóðir hafa sinnt og hefur verið að verulegu leyti nauðsynlegur, a.m.k. víða, þ.e.a.s. lánafyrirgreiðslan varðandi íbúðarhúsabyggingar. Þá leiðir það af sjálfu sér að þeim þætti þarf að gera ráð fyrir að verði sinnt áfram. Það er því nauðsynlegt, þegar þetta mál verður skoðað, sem ég a.m.k. vonast til að verði skoðað í fyllstu alvöru, að það sé haft í huga með hverjum hætti megi koma þessum og öðrum þætti núverandi starfsemi lífeyrissjóðanna sem best fyrir, þannig að áfram verði tryggt að sinnt verði þessu veigamikla hlutverki sem hinir almennu lífeyrissjóðir hafa sinnt til þessa.

Ég skal ekki fara út í það að gera að umræðuefni hina ýmsu þætti þessa frv. Þetta er geysiviðamikið mál, margslungið, og þarf að verulegu leyti sérfræðiþekkingu til þess að komast fram úr og geta um fjallað. En ég vil sem sagt nú strax lýsa samþykki mínu við meginstefnu þess, eins og það liggur fyrir. Ég vænti þess að þær n., sem koma til með að fjalla um þetta mál og ég vona að skoði það vel, kynni sér og taki til greina þau sjónarmið sem komið hafa fram í verkalýðshreyfingunni. Ég geri mér ljóst að hér er kannske um ótalmörg mismunandi sjónarmið að ræða, sum mikilvæg, önnur smærri, en eigi að síður þarf að þeim að huga ef það á að vera framkvæmanlegt að ná sem víðtækustu samstarfi um þá breytingu sem mér a.m.k. sýnist að hljóti að verða á þessum málum nú á allra næstu tímum.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa þessi orð fleiri, en ég ítreka, að ég er fylgjandi meginstefnu þessa frv. og ég tel ástæðu til að þakka hv. flm. fyrir að hafa hér hafið verkið. En ég hefði mjög gjarnan viljað að hæstv. ríkisstj. hefði sýnt meiri skilning a.m.k. við umr. málsins í dag.