25.02.1976
Neðri deild: 64. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2177 í B-deild Alþingistíðinda. (1771)

Umræður utan dagskrár

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram, að þau verða nú tíð þáttaskilin í fiskveiðideilu okkar. Fyrir nokkru ruddust bretar inn á okkar friðuðu fiskisvæði sem hingað til hafa verið virt af bretum sem okkur sjálfum. Síðan nú í gær hefja þeir árásir innan 12 mílna landhelgi, sem þó er raunar endurtekning á fyrri atburði sama eðlis.

En það, sem kom mér til að kveðja mér hljóðs hér, voru ummæli hæstv. dómsmrh. þar sem hann lýsti þeirri skoðun að það að kveðja til fleiri skip í íslenska varðskipaflotann mundi trúlega hafa litið gildi því að bretar eiga nóg herskip til að fjölga í sínum flota á móti. Þetta er að sjálfsögðu hárrétt, það vitum við öll. En það, sem mér sýnist blasa við núna, hvort bretar ætli sér ekki hreinlega nú að gera okkar varðskipaflota, sem við eigum, algerlega óvígan, þannig að það væri ekki um það að ræða að fjölga okkar varðskipum, heldur að halda í horfinu. Það er með þessa hættu í huga sem ég tel og ég veit að við erum öll sammála um að við hljótum að leggja mikla áherslu á það að setja okkar aðgerðir í gang til þess að tryggja að við stöndum ekki uppi enn þá varnarlausari en við gerum í dag með okkar fáu varðskip og djörfu varðskipsmenn.

Ég hlýt að viðurkenna að það sló mig nokkuð undarlega er útvarpsfréttir gátu þess nú fyrir helgina að n., sem hafði verið kjörin fyrir sennilega viku til 10 dögum til þess að athuga hvað við gætum gert í þessu, að styrkja okkar varðskipaflota, hún væri ekki enn komin saman. Ég held að okkur sé nauðsynlegt allt annað í þessu máli en þessi seinagangur.

Það var talað hér um af hv. 2. þm. Austurl. að það lægi beint við að kalla heim okkar fastafulltrúa hjá NATO og í áframhaldi af því að segja okkur úr NATO. Þetta er ekkert nýtt, þetta kemur okkur ekki á óvart, slíkar yfirlýsingar. Ég er enn sem fyrr þeirrar skoðunar að við megum ekkert gera sem veiki okkur í þessari baráttu, og ég held að það mundi tvímælalaust veikja okkur ef við einangruðum okkur frá okkar bandalagsþjóðum. Það er rétt að það er þversögn í þessari baráttu allri, að aðildarþjóðir í varnarbandalagi skuli standa í hörkustríði. En ég vil líta öðrum augum á þetta mál heldur en hv. 2. þm. Austurl. Ég lít á breta í þessari deilu sem hvern annan undanvilling úr bandalagi okkar Norður-Atlantshafsbandalagsþjóða sem böðlast áfram eins og raun ber vitni nú í krafti vanmáttugrar stórveldisstefnu sem þeir vita fullvel sjálfir að muni bíða ósigur að lokum.

Hér eigum við auðvitað ekki mörg vopn, við íslendingar, vopnlaus þjóð, annað en okkar góða og sterka málstað. Og það vil ég leggja áherslu á, að við kynnum þann málstað án afláts og ekki síst núna, að við látum einskis ófreistað að gera umheimi kunnugt um hvað er að gerast nú og þá sérstaklega með þessum síðustu fólskuaðgerðum breta innan íslenskrar 12 mílna landhelgi, sem hingað til hefur ekki verið umdeild. Því tek ég sterklega undir þau ummæli, sem hér hafa komið fram, að við hljótum að beita okkur af alefli nú í upplýsingastríði okkar út á við. Það mun koma okkur til góða á Hafréttarráðstefnunni, þegar fundir hennar hefjast nú innan skamms, að þær upplýsingar hafi ekki verið geymdar á kistubotninum hjá okkur, heldur fái alheimur að vita um það. Og þá hlýt ég að lýsa því yfir, að ég tel að vettvangur Atlantshafsbandalagsins þjóni þar mikilvægum tilgangi sem við skulum ekki einangra okkur frá.