26.02.1976
Neðri deild: 69. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2227 í B-deild Alþingistíðinda. (1817)

118. mál, ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Mig langar til þess í örstuttu máli að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa frv. Ýmislegt hef ég við það að athuga, bæði við meginefni frv., það eitt að halda því áfram að leggja 1% gjald á söluskattsstofninn, og svo hitt atriðið, er varðar fyrirkomulag á útborgun þeirrar aðstoðar til þeirra sem búa í olíukyntum húsum sem þetta frv. fjallar um.

Nú kom það fram þegar þetta mál var fyrst til umr. í hv. Alþ. að um það voru mjög skiptar skoðanir með hvaða hætti ætti að veita mönnum aðstoð vegna hinna miklu verðhækkana á olíu. Ýmsir voru þeirrar skoðunar að þessa aðstoð ætti að framkvæma með beinni niðurgreiðslu á olíunni. Sú aðferð finnst mér liggja beinast við og vera í rökrænustu samhengi við orsakir sem til flutnings þessa máls liggja. Eins og þetta hefur verið framkvæmt og ætlunin er að halda áfram að framkvæma, þá er í raun um að ræða eins konar fjölskyldubætur til þeirra sem búa í olíukyntum húsum. Ég vil ekki gera lítið úr því að það sé ástæða til þess að koma á kjarabótum til þessa fólks sem og annarra sem í landinu búa. Það væri raunhæf kjarabót að draga úr skattlagningu hins opinbera. Það væri raunhæf kjarabót að fella niður þetta söluskattsstig. Þess vegna mun ég greiða atkv. gegn 1. gr. þessa frv.

Ég vil færa örlítið nánar rök fyrir þessu. Eftir stendur þó, jafnvel þótt fellt væri niður þetta söluskattsstig, að það er gífurlegur mismunur á tilkostnaði þeirra, sem búa í olíukyntum húsum, og hinna, sem búa við hitaveitu. Sá mismunur væri töluverður, jafnvel þótt þeir, sem hitaveitunnar njóta, greiddu afnotagjöld í samræmi við tilkostnað. Sem reykvíkingur hlýt ég að skýra frá þeirri afstöðu minni að mér virðist óeðlilegt að Hitaveita Reykjavíkur þurfi að búa við stórfellt tap og fái ekki að láta kostnaðinn vera borinn uppi af þeim sem hitaveitunnar njóta. Það væri þvert á móti mjög eðlileg aðferð og mundi greiða fyrir vexti og viðgangi Hitaveitunnar að rekstur hennar væri með fullkomlega eðlilegum hætti að þessu leyti.

Mér finnst það skjóta skökku við að afla fjár með skattlagningu, m.a. á þá sem hitaveitu njóta, til þess að undirbúa eða setja á laggirnar hitaveitu annars staðar, á meðan rekstur þeirrar hitaveitu, sem þegar er fyrir hendi, gengur jafnörðuglega og hann gerir nú. Nú er mér ljóst að það liggja til þess viss rök að örðugt hefur þótt að leyfa Hitaveitu Reykjavíkur að láta allan sinn tilkostnað lenda á notendum Hitaveitunnar. Hitunarkostnaður húsa í Reykjavík gengur inn í vísitölugrundvöllinn. Það mætti því spyrja, — ég veit að það er kannske örðugt eins og nú standa sakir, — en það mætti spyrja hvort ekki væri eðlilegra að sá vísitölugrundvöllur væri reiknaður út frá hitunarkostnaði allra húsa á landinu, ekki einvörðungu þeirra sem eru í Reykjavík og eru með lægri hitunarkostnað.

Ég vildi aðeins skjóta þessum sjónarmiðum fram, annars vegar vegna þess að ég hef áhyggjur af rekstri og viðgangi Hitaveitu Reykjavíkur og hins vegar vegna þess að ég tei að það væri mjög jákvætt spor af hálfu Alþingis og ríkisstj. í átt til kjarabóta að létta þeirri skattbyrði af almenningi sem felst í álagningu þessa söluskattsstigs.