04.03.1976
Neðri deild: 73. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2404 í B-deild Alþingistíðinda. (1996)

173. mál, meðferð opinberra mála

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um breyt. á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 74 frá 1974, er fylgifrv. með frv. um rannsóknarlögreglu ríkisins sem var áðan til umr. Hér er að mestu um að ræða breyt. sem eru bein afleiðing af aðskilnaði sakdómaraembættisins í Reykjavík og rannsóknarlögreglu í Reykjavík sem með tilkomu rannsóknarlögreglu ríkisins hverfur til nýs embættis og til lögreglustjóraembættisins í Reykjavík að nokkru. Breyting á verksviði sakadómara í Reykjavík verður við þetta mjög veruleg. Utan Reykjavíkur verður breyting um þetta efnislega lítil, en nokkur að formi. Eins og lýst var við umr. áðan er hér um að ræða mikilsvert skref til nútímalegra réttarfars.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa um þetta frv. fleiri orð, en óska þess að það fái samhliða meðferð og fyrrgreint frv. og verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.